Það er nóg pláss fyrir nýja flokka.

Nýjar raddir í stjórnmálum eru nauðsynlegar og best fyrir gömlu flokkanna fjóra að fá góða og öfluga samkeppni.

Sömu lögmál gilda í stjórnmálum og á frjálsum markaði, samkeppnin heldur mönnum á tánum og kemur sér best fyrir neytendur.

Gömlu flokkarnir þurfa að hafa lítið fyrir að halda sínu, ekki að þeir hafi verðskuldað það heldur vantar samkeppni til að þeir geti tekið til hjá sér og hafið alvöru hugmyndavinnu. Eina sem flokkarnir þurfa að gera er að vinna góða ímyndarvinnu og kaupa þjónustuna frá reyndum almannatenglum, gera lítið sjálfir.

Því miður eru nýju framboðin afskaplega lítilfjörleg og koma hvorki með nýjungar né heldur sannfærandi stefnur. Það háir þeim líka að leiðtogarnir geta vart tjáð sig almennilega, en góð tök á mælskulist er lykilatriði fyrir frambjóðendur og talsmenn flokka.

Nýju framboðin staglast á sömu tuggunni og gert hefur verið lengur en elstu menn muna. Það er hægt að skreppa í heita pottinn til að hlusta á sama og þau hafa fram að færa, spillinguna hjá stjórnmálamönnum og handónýtt þjófélag.

Fólk sem tjáir biturð og reiði fær litla áheyrn, sama hvað hugmyndafræðin er góð. Reyndar er hægt að gera það hafi menn góð tök á tungumálinu og kunnáttu í ræðumennsku, en nýju framboðin hafa hvorugt.

Erfitt er að finna stjórnmálamenn sem flestir telja réttláta og vitra, en fáir mótmæla þeim kostum hjá Abraham Lincoln. Hann barðist gegn þrælahaldi og þoldi ekki að fólk væri svipt því dýrmætasta sem hægt er að öðlast - frelsinu.

Í stað þess að ganga fram með ofbeldi og látum - fannst honum rétt að ríkið veitti þrælahöldurum bætur.  Hann var réttlátur maður og vitur, vildi ekki refsa neinum fyrir að fara að lögum.

Hann virti lög og reglur, eins og réttlátt fólk gerir undantekningalaust. Ef fólk virðir ekki lögin - þá skapast hætta á siðrofi. Lög um þrælahald voru óréttlát en þrælahaldarar fóru að lögum - þess vegna vildi hann ekki refsa þeim.

Ef það kæmi nýtt framboð með raunverulegt réttlæti að leiðarljósi og gerði sér grein fyrir því, að stjórnmálamenn gera mistök - ekki vegna glæpahneigðar og ekki endilega til að hygla öðrum, þá er það strax jákvætt skref.

Það þarf nýtt framboð sem talar fyrir lausnum sem þjóðin raunverulega þarf og sleppir því að ásaka aðra flokka um spillingu og jafnvel glæpi - án þess að geta sannað með óyggjandi hætti.

Þá þurfum við sjálfstæðismenn og aðrir flokkar sannarlega að bregðast við og bretta upp ermar og samfélagið verður loks betra en það er í dag. 


Hefur Besti flokkurinn breytt miklu til góðs?

Ný framboð skammast yfir vinnubrögðum gömlu flokkanna og fullyrða að þau bjóði upp á bætt vinnubrögð og minni spillingu.

Besti flokkurinn er sá eini af nýju framboðunum sem fékk tækifæri til að standa við stóru orðin, en í ljósi skýrslu úttektarnefndar varðandi borgarmálin er erfitt að sjá miklar breytingar til góðs.

Bent er á að Besti flokkurinn hafi fundið þokkalegan náunga til að bjarga málum orkuveitunnar og nær hann væntanlega að bæta þann skaða sem borgarstjórinn olli með því að segja fyrirtækið gjaldþrota. Orkuveita Reykjavíkur getur ekki orðið gjaldþrota, þetta er fyrirtæki með stöðuga innkomu og einokunaraðstöðu, þegar sverfur að þá er bara að hækka gjöldin.

Skýrsla úttektarnefndar um stjórnsýslu borgarinnar bendir ekki til að nýju vendirnir hafi flýtt sér að sópa. Þvert á móti gera þeir sumt verra en forverarnir og flest eins og þeir.

Það sem er verra hjá nýja fólkinu er að leiðtoganum finnst ekkert gaman að hugsa mikið um reksturinn. Þess vegna þurfa starfsmenn og embættismenn borgarinnar að leita til annarra og það skapar óvissu, að mati skýrsluhöfunda.

Allir eru sammála kostunum við að mynda þverpólitíska sátt um flest mál og tekið var fram í skýrslunni að fyrri borgarstjórn, undir forystu sjálfstæðismanna, hafi bjargað því sem hægt var með því að skapa þverpólitíska sátt um mikilvægar aðgerðir.

Besti flokkurinn eyðilagði sáttina og þar með góðan vilja forvera sinna.

Vitaskuld þarf margt að bæta í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og margar hefðir skapast sem ættu ekki að vera til staðar.

Árið 2012 sá úttektarnefndin ástæðu til að nefna atriði sem juku líkur á pólitískum ráðningum, þrátt fyrir að hafa setið í tvö ár, sá Besti flokkurinn ekki ástæðu til að hafa frumkvæði í þeim málum.

Ekki þarf að hafa mörg orð um verri sorphirðu og umhirðu grasbletta í borginni. Á sama tíma hefur kostnaður borgarbúa vegna stjórnsýslunnar hækkað.

Göfugt markmið er "báknið burt" og það hafa sjálfstæðismenn því miður oft svikið.

En Besti flokkurinn gerir það sem sjálfstæðismenn hafa aldrei gert, býr til embætti og störf til að minnka vinnuna hjá borgarstjóranum. Reyndar hefur enginn flokkur í borginni gert slíkt áður, svo ég viti til.

Þannig að Besti flokkurinn er þá fyrstur til að búa til störf til að sleppa leiðtoganum við erfiðustu og leiðinlegustu verkin.

Það er eina nýjungin sem þau hafa komið með varðandi stjórnsýslu borgarinnar, þ.e.a.s. eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður. 


Við eigum ekki einu sinn að ræða flugvöllinn.

Það er fáránlegt að stjórnmálamenn skuli ræða flugvöllinn á þessum tímapunkti. 

Enginn sambærilegur kostur hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu sem flugmenn telja henta jafnvel og Vatnsmýrin. Og finnist sambærilegur kostur er ólíklegt að ríkið hafi efni á að byggja nýjan flugvöll.

Flugvöllurinn skapar fjölda starfa, beinna og afleiddra. Ef flugvöllurinn fer þá tapast þessi störf.

Vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn til að taka við þessum fjölda, framfærsla flestra lendir þá á ríkinu.

Það kann að vera eftir einhver ár að betri kostur finnist, en um það getur enginn sagt.

Það vefst fyrir sumum stjórnmálamönnum að forgangsraða rétt, en að berjast fyrir flutningi vallarins áður en búið er að finna fjármagn til að byggja nýjan og góðan stað fyrir hann, seint teldist það gáfulegt í einkageiranum.

Á sama tíma og við erum í þrengingum vegna hrunsins og þurfum að endurskipuleggja stórnsýsluna ásamt því að huga betur að hagsmunum er snerta borgarbúa beint. 


Auðvitað þykir mér vænt um Jón Gnarr - nema hvað?

Í ljósi síðustu pistla frá mér gæti einhver haldið að mér væri illa við Jón Gnarr, en það er auðvitað della. Hann er þrælfyndinn og mjög góður leikari, einnig óskaplega vænn og góður drengur.

Ég á hinsvegar bágt með að þola hann sem borgarstjóra.

En vissulega hefur hann vakið athygli á ýmsu sem hollt er fyrir stjórnmálamenn að hugsa um.

Greinilega þrá flestir kjósendur nánara samband við stjórnmálamenn, en þeir eru oft ansi fjarlægir og tala tæknimál sem fáir skilja. Pólitíkusar eru ansi stífir með sig og vont að spóla þá í fíflagang.

Svo má ekki gleyma, þótt það sé ekki endilega sanngjarnt, að traust á stjórnmálamönnum og hefðbundnum flokkum hvarf þegar bankarnir hrundu. Stjórnmálamenn geta ekkert vælt yfir því, það er þeim sjálfum að kenna.

Þeir vissu ekki að samband við kjósendur þarf að rækta oftar en á fjögurra ára fresti.

Svo kemur Jón Gnarr og  honum tekst að hitta kjósendur beint í hjartastað. Reyndar er hann óþarflega villtur fyrir margra smekk, en hann er einlægur og alltaf hann sjálfur. Stundum klaufalegur og illa að sér, en viðurkennir það bara og ypptir öxlum.

Þetta eru hans kostir og enginn tekur þá frá honum.

Hinsvegar er það mín skoðun og eflaust er ég ekki einn um hana, að mér finnst hann ótrúverðugur sem stjórnmálamaður. Þeir stjórnmálamenn sem standa upp úr fluttu sitt mál af svo mikilli visku að orð þeirra standa áratugum seinna og stöðugt er vitnað til þeirra, nægir að nefna Churchill og Lincoln.

Jón Gnarr hefur ekki þá dýpt til að koma með meitlaðar setningar sem hitta fólk í hjartastað, heldur segir hann það sem margir hugsa, bætir engu við.

Þegar stjórnmálamaður segir það sem margir hugsa þá virkar það sem háfleyg og djúp speki. Þegar þörfin fyrir stjórnmálamenn sem sýna áhuga á fólki er orðin að svona djúpstæðri þrá, þá sættir fólk sig við hvað sem er, bara ef stjórnmálamaðurinn sýnir góðvild.

Jón Gnarr fer tæplega hálfa leið til að uppfylla þarfir kjósenda. Hann sýnir þeim athygli, kann að spjalla á léttum nótum, tapar sér stundum í vitleysu en fólk horfir framhjá því.

En hann sleppir því að taka þátt í dýpri stefnumótun á pólitísku sviði, þ.e.a.s. rækja hlutverk framkvæmdastjóra sem er eitt af skilgreindum hlutverkum borgarstjóra.

Ef við fáum stjórnmálamann sem lætur kjósendur finna sanna umhyggju, er skemmtilegur og hnyttinn í tilsvörum og til í að hitta fólk oftar en á fjögurra ára fresti, þá á hann mikla möguleika.

Og ef viðkomandi er snjall í rekstri og úrræðagóður almenn, þá höfum við einstakling sem neglir næstu kosningar sem um munar. 


Er ég að auka fylgi við Jón Gnarr?

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru óþreytandi við að ráðleggja okkur varðandi hvað hægt er að gera til að laga flokkinn og bæta.

En hæpið er að hlýða þeirra ráðum, því ekki hefur andstæðingum Sjálfstæðiflokksins gengið mjög vel í gegn um tíðina. 

Reyndar væri óhætt að leggja við hlustir ef Jón Gnarr bankaði á dyrnar, honum tekst það sem fáir geta. Fengið fólk til að kjósa sig út á enga pólitíska stefnu og lofað að svíkja allt, standa svo við það en fá fylgi þrátt fyrir það.

En gott fólk sem er í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn ræður mér eindregið frá að skirfa meira á þessum nótum um Jón Gnarr. Það óttast að ég auki fylgið með þessum pistlum.

Ólíklegt er að ég auki fylgi við Besta flokkinn og Jón Gnarr svo um muni. Vitaskuld er til fólk sem hefur engar hugsjónir aðrar en að vera á móti. Og líklegt er að slíkir einstaklingar muni kjósa Besta flokkinn vegna þess að pistlarnir mínir virka þannig á þá.

 Það er skiljanlegt að fólk kjósi Jón Gnarr ef það telur hann besta kostinn og ekkert við því að segja.

En kjósa Jón Gnarr bara af því að ég er ekki hrifinn af honum, það er náttúrulega bilun. 


Jón Gnarr kúgar minnihlutann.

Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur þorir ekki að hjóla í borgarstjórann af ótta við almenningsálitið, en því miður eru allir stjórnmálamenn meira og minna hræddir við það.

 Borgarfulltrúar minnihlutans hlusta á skrítnar ræður þar sem borgarstjórinn segir sögur af sjálfum sér í hinum ýmsu aðstæðum og enginn þorir að benda á þá staðreynd að lífsreynslusögur æðsta yfirmanns borgarinnar bæta ekki hagsmuni borgarbúa.

Haft hef ég spurnir af PR maður borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafi eindregið varað þau við að gagnrýna borgarstjórann, það vekur upp samúð kjósenda og getur hugsanlega veikt þau umtalsvert.

Það er gallinn við almannatengla, þeir hlera stemminguna en hafa engar lausnir til að breyta henni.

Vitaskuld tekur það á að þurfa að hjóla í mann sem er uppfullur af sjálfsvorkunn og segir stöðugt frá einelti sem hann þoldi í æsku, svo ekki sé talað um athyglisbrestinn og hvatvísina.

Minnihlutinn þarf að hrista af sér meðvirknina, sá sem er í pólitík þarf að vera tilbúinn fyrir harða og óvægna gagnrýni.

Pólitíkin í borginni líður fyrir meðvirkni og vorkunnsemi borgarfulltrúa.

Varla virkar það vel á ímynd höfuðborgar íslensku þjóðarinnar? 


Var Jesús krossfestur fyrir samkynhneigð?

Á mannréttindaráðstefnu í Belgíu sagði borgarstjóri Reykjavíkur að mögulega hafi frelsarinn verið samkynhneigður og krossfestur af þeim sökum.

Varla þarf að fara mörgum orðum um slaka söguþekkingu borgarstjórans eða slæmt minni, því hann var jú starfsmaður kristins safnaðar um skeið og las oft hið heilaga orð.

Svo kvartar hann yfir engum viðbrögðum frá yfirstjórn Moskvuborgar, en þangað sendi hann skammarbréf vegna slæmrar framkomu í garð samkynhneigðra.

Svo nefnir hann það hissa að ekki hafi páfinn svarað erindi hans, sem þó var ritað á latínu og tekið þátt í baráttu Jóns Gnarr fyrir réttindum samkynhneigðra. 

Vissulega er góðra gjalda vert að vekja athygli á mannréttindum og taka stöðu með hópum sem eiga undir högg að sækja. Hrósa má Jóni Gnarr fyrir velvild og stuðning fyrir mannréttindum fólks. En greinilega tekst honum ekki að ná eyrum heimsins.

Miðað við hans orðaval almennt er líklegt að bréfin til Vatíkansins og Moskvu gefi ekki trúverðuga mynd af yfirstjórn höfuðborgar Íslands.

Líklega eru Belgískir mannréttindafrömuðir ekki steini lostnir yfir visku Jóns Gnarr er hann segir Jesú Krist hafa verið krossfestan fyrir samkynhneigð, en flestir íbúar heimsins telja aðrar ástæður liggja að baki aftöku frelsarans.

Hægt er að týna ótalmörg atriði til að sýna vanhæfni Jóns Gnarr í embætti borgarstjóra, spurningin er hvað virkar best til að sannfæra kjósendur? 


Er borgarstjórinn lagður í einelti?

Fólk sem ýmist hefur lifað frekar stutt eða þjáist af gullfiskaminni telur gagnrýni mína og fleiri sjálfstæðismanna á Jón Gnarr og hans störf vera gróft einelti. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að við sjálfstæðismenn séum svo örvæntingafullir vegna þess að hann náði stólnum og hefur furðulega mikið fylgi.

Að mati margra er hann vanhæfur borgarstjóri því hann nennir ekki að starfa sem slíkur, heldur velur út skemmtilegustu verkefnin. Slíkir menn þekkjast til sjós. Þeir vilja gjarna vera í léttustu störfunum, stökkva á næstu spilstöng til að sleppa við átök og bras. 

Á alvöru skipum verða slíkir menn sjaldan kosnir starfsmenn mánaðarins.

Ef við hverfum aftur til ársins 1994, þá náði Ingibjörg Sólrún völdum og henni tókst það merkilega afrek að halda þremur flokkum saman í tólf ár.

Það var miklu meira áfall fyrir sjálfstæðismenn en Jón Gnarr og Besti flokkurinn. Sjálfstæðismenn hafa ekki náð almennilegum völdum í borginni síðan Davíð var borgarstjóri. Þannig að tapið er ekki eins tilfinnanlegt núna og það var fyrir tuttugu árum.

Enginn efast um að Ingibjörg Sólrún hafi verið sterkur leiðtogi, hún uppfyllti allar skyldur borgarstjóra og gat tekið ákvarðanir án þess að þurfa stöðugt að treysta á embættismenn.

Ef maður á borð við Jón Gnarr hefði tekið við völdum á sama tíma og Ingibjörg Sólrún, þá eru viðbrögðin í dag meinlaus miðað við þau sterku viðbrögð sem komið hefðu þá, því áfallið fyrr sjálfstæðismenn árið 1994 var sannarlega miklu meira en árið 2010.

Niðurstaðan er alltaf sú sama, Jón Gnarr veldur ekki því stóra embætti sem hann var kosinn til að gegna. Vorkunnsemi og þreyta á stjórnmálamönnum almennt breyta ekki þeirri staðreynd.

 


Er þetta rétt hjá borgarstjóranum?

Jón Gnarr borgarstjóri sagði frá einelti sem faðir hann þurfti að þola frá hendi sjálfstæðismanna.

Faðir hans var lögregluþjónn og sósíalisti og að sögn borgarstjóra fékk hann engan frama af þeim sökum. Jón sagði frá því að það hefði kostað fjölskyldu sína mikinn tekjumissi.

Til að komast að því hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi mikið verið að reka og halda niðri sósíalistum í gamla daga ákvað ég að þefa uppi föður æskuvinar míns, en hann var skrifstofumaður hjá hinu opinbera áratugum saman. Kallinn er frekar til vinstri, en ekki mjög fanatískur og þolir vel að spjalla við sjálfstæðismenn.

Hann tók vel í erindi mitt eftir að hafa spurt um mína hagi, ég hef ekki heyrt í honum í amk. þrjátíu ár. 

Hann sagði að það hefði verið mikil samstaða hjá öllum stjórnmálamönnum í gamla daga. Þeir gátu rifist á fundum en voru svo bestu vinir á eftir. Ekki kannaðist hann við að stjórnmálaflokkar hefðu beitt sér gegn mönnum úr öðrum flokkum, þeir vissu að það gat verið hættulegt.

Á þessum árum var pólitíkin öðruvísi en í dag, stjórnmálaflokkar höfðu það hlutverk að hjálpa fólki að fá ýmsa fyrirgreiðslu, atvinnu líka. Ef sjálfstæðismaður hefði rekið eða komið illa fram við sósíalista, þá gat hann átt von á því að sósíalisti myndi gera slíkt hið sama við sjálfstæðismann.

Svo sagði hann mér sögu af samskiptum Bjarna Benediktssonar eldri og sjálfstæðismanns sem vantaði lán. Bjarni sagði honum að kvóti sjálfstæðismanna væri búinn, en kratarnir hefðu kannski svigrúm. Bjarni hringdi í einhvern forystumann Alþýðuflokksins og reddaði þannig láni.

Svona unnu stjórnmálamenn í gamla daga að sögn manns, sem nálgast nírætt og vann allan sinn starfsaldur hjá hinu ríkinu.

Gaman væri ef hægt væri að finna gamlan starfsbróður föður Jóns, sem varpað gæti ljósi á eineltissögu borgarstjórans í föðurins garð.

Ég þekki reyndar einn fyrrverandi lögregluþjón sem kominn er fast að sjötugu. ætla að hringja í hann fljótlega og hlera hvað hann hefur að segja.

Við viljum leita sannleikans, ekki satt? 


Snæfríðar - heilkenni sumra Reykvíkinga.

Snæfríður Íslandssól vildi heldur þann versta en næstbesta og sama gildir um þá sem kjósa Jón Gnarr.

Segja má að allir borgarstjórar, nema Jón Gnarr, séu næstbesti kosturinn. Þeir gegna hefðbundnum skyldum borgarstjóra, hafa skýra sýn og vinna að stefnumótun borgarinnar.

Besti kosturinn er vitaskuld Jesú Kristur, því hann er sá eini sem fæddist fullkominn og gerði aldrei mistök. En hann hafði ekki góða reynslu af samskiptum við mennina, þannig að ólíklegt er að hann sé spenntur fyrir að koma aftur sem holdleg vera.

Þess vegna þurfum við alltaf að sætta okkur við næstbesta kostinn, menn og konur af holdi og blóði. Borgarstjórar misstíga sig, gera umdeilda hluti, en sinna sínum skyldum eins vel og mögulegt er.

Jón Gnarr er versti kosturinn því hann nennir ekki að sinna öllum þeim skyldum sem borgarstjóra ber.

Í skýrslu úttektarnefndar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkur borgar er Jón Gnarr gagnrýndur fyrir að velja þær skyldur sem hann vill sinna, en láta aðra sjá um þetta leiðinlega eins og framkvæmdarstjórn.

Á bls. 14 í skýrslunni segir um þessa leti borgarstjórans: "Samkvæmt samþykktum og skipuriti Reykjavíkur borgar er borgarstjóri æðsti embættismaður borgarinnar og heyra sviðsstjórar beint undir hann. Reyndin er hinsvegar sú að sviðstjórar sækja daglegt umboð sitt til formanna fagráða frekar en til borgarstjóra. Sú skipan veldur því að ábyrgð og verkaskipting aðila getur orðið óljós og dregið úr skilvirkni stjórnkerfisins."

Það er óumdeilt að borgarstjórinn sinnir ekki skyldum framkvæmdastjóra, en það eru erfiðustu skyldurnar og eflaust mesta vinnan.

Það er ekki mikil vinna að klæðast kjólum og fagna réttindum samkynhneigðra, margir myndu glaðir taka það að sér fyrir lægir laun en Jón Gnarr. Mæta í viðtöl hjá útlendum fréttamönnum og hitta stórstjörnur, það væri auðvelt að fá fólk til að gera slíkt ánægjunnar vegna. Vera fyndinn?

Fullt af grínleikurum myndu taka það að sér fyrir minna en fimmtán milljónir á ári, þannig að borgarstjórinn er ansi dýr á fóðrum.

Jón Gnarr er flinkur leikari og einn besti skemmtikraftur þjóðarinnar, en sem borgarstjóri er hann versti kosturinn sem í boði er. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband