Þörf á akademískri umræðu.

Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur í mörg ár vakið athygli á sjónarmiðum sínum, en litla áheyrn hlotið hjá ráðamönnum þessa lands. Það er kominn tími til að öll sjónarmið vísindamanna fái að heyrast og að fram fari akademísk umræða um fiskifræði, þar sem mörg sjónarmið takast á.

Hafró notast við ákveðið rannsóknarkerfi og lætur endurskoða sínar niðurstöður hjá Alþjóða hafrannsóknarráðinu, en sú ágæta stofnun notast við sömu aðferð og Hafró, þannig að lítil von er á gagnrýnni umræðu úr þeirri átt.

Jón Kristjánsson hefur bent á það, að hugmyndir hans hafi nýst vel í Færeyjum og margt bendir til þess að svo sé.

En þeir sem að gagnrýna hans tillögur eru náttúrulega fiskifræðingar hafrannsóknarstofnunar Færeyja, en þeir hafa sömu aðferðarfræði og sömu sýn og starfsbræður þeirra á Íslandi.

Fiskifræðin er ung vísindagrein og lítil von til mikillar þróunar, ef alltaf er notast við sömu aðferðarfræðina og sömu sjónarmiðin.

Menn þvarga fram og til baka um fiskveiðistjórnunarkerfið og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Aðalatriðið í umræðum um fiskveiðimál hlýtur að vera það, hvernig við getum hámarkað afrakstur auðlindarinnar á sama tíma og við setjum ekki allt í uppnám.

Það er ekki langt síðan að íslenskir fiskifræðingar viðurkenndu það, að þorskur færði sig á milli hafssvæða, þorskur af Íslandsmiðum færi til Grænlands og öfugt, einnig hefur Barentshafið verið nefnt í þessu samhengi.

Þegra ég byrjaði til sjós fyrir þrjátíu árum síðan, þá voru gömlu mennirnir að sýna mér þorska sem þeir sögðu ættaða frá Grænlandi og fræða mig um þetta munstur hjá þorskinum, þannig að sjómenn hafa vitað þetta lengi.

Ekki er verið að segja það, að fiskifræðingar Hafró hafi endilega rangt fyrir sér að öllu leiti, en þeir mættu gjarna hafa opna umræðu og hlusta á ólík sjónarmið, öðruvísi verður engin vísindagrein fyllilega marktæk.

Stöðugt rifrildi um kerfi til að nota, miðað við tillögur Hafró skilar engu í verndun og rannsóknum á fiskistofnum.

Hyggilegast væri fyrir stjórnvöld, að sjá til þess, að lífkerfi hafsins væri rannsakað með tilliti til allra hugsanlegra sjónarmiða, sem byggð eru á vísindalegum grunni. 


mbl.is Friðun skilar ekki árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Það hefur allt byggst upp á vísindalegum grunni í ráðgjöfinni undanfarin 25 ár og við sjáum árangurinn.

Akademísk umræða mun engu skila frekar en fyrri daginn.

Fiskifræði sjómannsins líkt og færeyingar notast við er það sem koma skal hér á landi þ.s.e, ef það er ekki of seint nú þegar.

Níels A. Ársælsson., 20.6.2011 kl. 13:46

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Níels, gallinn er sá, að þetta hefur ekki verið raunveruleg akademísk umræða, heldur ofurtrú á aðferðarfræði Hafró.

Það kallast akademísk umræða, ef ólík sjónarmið takast á með rökum, Hafró, Jón Kristjánsson og fulltrúar sjómanna og farið er í gegn um söguna.

Það er rétt, að Færeyjingar hafa gert margt mjög athyglisvert og nauðsynlegt að fara yfir það. Svo þarf að ræða og hugsanlega betrumbæta það, ef eitthvað er til að betrumbæta osfrv.

Nei, Níels, ég get ekki kallað það akademíska umræðu, þegar notast er við sömu aðferðarfræðina áratugum saman og hún fær enga gagnrýna umfjöllun, það teljast í það minnsta ekki góð vísindi í samanburði við aðrar greinar vísindanna.

Jón Ríkharðsson, 20.6.2011 kl. 13:58

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það athyglisverða! sem Færeyingar hafa gert er að prófa íslenska kerfið í tvö ár og hafna því alfarið síðan.

Síðan má geta þess að þeir trúa því ekki að brottkast styrki fiskistofnana og auki arðsemi. Til að stöðva brottkast tóku þeir einfaldlega upp sóknarkerfið sem er auðvitað öllum skiljanlegt að felur ekki í sér nokkurn hvata til brottkasts.

Sú akademiska umræða sem kallað er eftir þarf að fara fram tafarlaust. Hún þarf að vera ítarleg og fyrir opnum tjöldum, bæði á ráðstefnum úti í bæ og eins á rásum útvarps og sjórnvarps.

Árni Gunnarsson, 20.6.2011 kl. 14:33

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég er sammála þér Árni, umræðan þarf að fara fram fyrir opnum tjöldum og hún á eingöngu að snúast um tvennt.

Það eru heildarhagsmunir íslensku þjóðarinnar og raunhæf verndun lífríkisins við Íslandsstrendur.

Um leið og menn fara að notast við rök máli sínu til stuðnings í stað upphrópana, þá er fyrsta skrefinu náð.

Ég hef alltaf haft mikið álit á Jóni Kristjánssyni þó ég þekki hann ekki neitt, mér finnst hann hafa mjög skynsamleg rökmáli sínu til stuðnings.

Jón Ríkharðsson, 20.6.2011 kl. 15:22

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ég hélt ekki upp á 17 júní, en ég ætla að halda upp á þennan dag, í tilefni að þessari viðurkenningu, sem er 20 júní.

Loksins viðurkenndi Hafró að fiskveiði-stjórnunar-kerfið er ófullkomið og jafnvel gereyðandi. Því ber að fagna, og þakka fyrir.

Batnandi mönnum/fræðingum er best að lifa. Þannig lærum við öll, og þroskumst í átt að betra lífi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.6.2011 kl. 15:22

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ekki fagna ég þessu með þér Anna Sigríður, því staðreyndin er því miður sú, að ég tel, að mikið vanti á að opinber stofnun á borð við Hafró, sem hefur haft undirtökin áratugum saman, sé að gefa eftir að einhverju leiti.

Við erum því miður föst í skotgrafarhernaði, en gleymum því, að vitræn rök og yfirveguð umræða er eina sem virkar.

Það eru margar skoðanir í sjávarútvegsmálum og því miður, þá eru allir hóparnir jafnsannfærðir um að hafa rétt fyrir sér og lítið um málamiðlanir.

Engu að síður vona ég að þú hafir rétt fyrir þér og ef það kemur í ljós, þá deili ég sannarlega fögnuðinum með þér.

Jón Ríkharðsson, 20.6.2011 kl. 16:55

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég hef nú ekki séð eða heyrt vísindamenn Hafró taka til máls til að reyna að hrekja kenningar Jóns Kr. og Kristins.

Ég bendi á tvennt sem rennir stoðum undir kenningar þeirra Jóns og Kristins:

Reynsla Færeyinga af íslenska kerfinu- aflamarkskerfinu - annars vegar.

Reynsla Rússa og Norðmanna úr Barentshafinu - stórauknar veiðar umfram ráðgjöf vísindamanna - hins vegar.

Ég vil sjá vísindamenn Hafró taka þessi dæmi til umfjöllunar og hrekja þær ályktanir sem óhjákvæmilega hljóta að vera dregnar af þeim.

Hvers vegna nýttu Færeyingar sér ekki íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið ef það er það besta í heiminum eins og haldið er fram?

Hafa þeir bara ekki vit á fiskveiðum?

Árni Gunnarsson, 20.6.2011 kl. 17:21

8 Smámynd: Haraldur G Magnússon

Það á að friða Loðnu og Síld í 5 ár og sjá hvað gerist.

Haraldur G Magnússon, 20.6.2011 kl. 17:22

9 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það er alger misskilningur að það þurfi að friða meira Haraldur.

Það er búið að friða allt of mikið - það er vandamálið.

Færsla höfundar - er í grunninn hárrétt.  Það hefur engin akademísk umræða fengið að fara fram.

Grundvallaratriði þar að rökræða - þannig komumst við áfram.

Samkeppni um sjónarmið er kjarni málsins.

Eflum samkeppni um best rökstuddu sjónarmiðin.

Þetta er skoðanakúgun!! 

Kristinn Pétursson, 20.6.2011 kl. 19:41

10 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Stór hluti af fæðu þorksins við Ísland er bræddur í mjöl fyrir Norskan eldislax, það þarf 5kg af mjöl prótíni frá Íslandi til að búa til 1Kg af eldislax við Noreg.

Eggert Sigurbergsson, 20.6.2011 kl. 19:56

11 Smámynd: Haraldur G Magnússon

Kristinn

Er ekki bann við loðnuveiðum hluti af þorsk aukningu í Barentshafi ?

Haraldur G Magnússon, 20.6.2011 kl. 20:12

12 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég geri ráð fyrir að Kristinn Pétursson eigi kollgátuna í þessu máli, við eigum að rökræða um atriði málsins, halda persónum fyrir utan það og einbeita okkur að því sem máli skiptir, en það er hvernig við getum sem best nýtt auðlindina og þjóðin haft sem mestan hagnað af henni.

Að þeirri umræðu eiga að koma færir hagfræðingar, fiskifræðingar úr ólíkum áttum  og skipstjórar sem hafa mikla reynslu.

Jón Ríkharðsson, 20.6.2011 kl. 20:18

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jón, ég er ekki frá því að þú sért með heilbrigðari mönnum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 20.6.2011 kl. 21:42

14 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Góð umræða hér um að leitast við að samtvinna þekkingu þaðan sem hana er raunverulega að hafa, ekki síst reynslu þeirra sem starfa beint í þessum atvinnuvegi við sjósókn og veiðar. Þar er ekki síst um að ræða reynda skipstjóra og sjómenn. Mat þeirra á aflabrögðum er ekki síður mikilvægt en fræðilegar kenningar vísindamannanna á Hafró og annars staðar á grunni gagna. Því miður virðist hafa verið skorið á þessa þekkingarleið og með afdrifaríkum afleiðingum fyrir þjóðarbúið.

Hitt er annað að erfitt virðist vera að koma af stað umræðu "fyrir opnum tjöldum" við fræðimannasamfélagið og embættismenn ríkisins af einhverjum sökum.
Tilraunir Kristins Péturssonar til að hefja málefnalega samræðu við Hafró í blöðum og bloggi um aðferðir við fiskveiðistjórnun hafa held ég engan árangur borið; þar er þögn.
Það var sama á hverju gekk og hvaða vitrænu rök voru borin fram við Seðlabankastarfsmenn á sama vettvangi varðandi rökvillur í málflutningi um hávaxtastefnuna sem var á góðri leið með að drepa eftirlifandi fyrirtæki og heimili í landinu þá loks að farið var að lækka vexti og sem einhverju munaði; Þar var þögn. Hið sama átti við um Icesave-málið.
Ég hef ekki skýringar á hvað veldur þessari þögn, en hægt er að geta sér til um ýmislegt.
Ég hef í bloggpistlum mínum hvatt opinbera starfsmenn og kennara við t.d. Háskóla Íslands að tjá sig sem sérfræðingar á sínu sviði um mikilvæg mál á döfinni hverju sinni, en þar er þögn með örfáum undantekningum.

Kristinn Snævar Jónsson, 20.6.2011 kl. 23:38

15 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Það er þöggun stjórnmálamanna og LÍÚ sem er svo undarleg. En kannski tóku menn eftir tveim mönnum á þinginu í umræðunni um "litla" frumvarpið þar sem vinir Kvótapúkans Björn Valur og Bjarni Ben voru að rökræða í pontu og gerðu að erindi sínu að "aldrei meir" mætti ræða SÓKNARMAKR.

Ég hjó sérstaklega eftir þessu því það fór ekki milli mála að þetta var skipulögð "þöggun" á þeim valkosti.

Það er furðulegt að einhver sem er skipstjóri skuli hafna þessum kosti því að ég held að áður en til hreinsana í greininni kom voru að minnsta kosti 90% skipstjóra á móti kvótakerfinu. 

Eftir að sjá Færeyska youtube myndbandið eins sterkt og það er og eins vel og okkar SÓKNARMARK var hlýtur að vekja furðu af hverju þessi möguleiki er ekki nefndur. 

Við erum með nákvæmlega sömu vandamál og Færeyingar höfnuðu strax. Brottkastið, framhjá vikt og litun fisks, og síðan út af "langtímahugsun" búnir að stela svo miklum peningum út úr bönkunum að það hrykktir í innviðum þeirra. 

Hvernig getur samkunda 63 manna haldið bestu fiskveiðistjórn í heimi fyrir utan umræðuna? 

Ólafur Örn Jónsson, 21.6.2011 kl. 07:12

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Aldrei framar sóknarmark" Já, athyglisvert!

Þarna lýsir þú Ólafur umræðum inni á Alþingi þar sem pólitísk mál eru rædd og leidd til lykta. Og þarna getum við séð hvílíkar ógöngur stefnir í þegar brýnustu hagmunamál þjóðarinnar eru leidd til lykta án minnstu þekkingar. Hvað ætli margir þeirra 63ja alþingismanna sem koma til með að afgreiða þessi lög viti um muninn á sóknarmarki og aflamarki?

Björn Valur veit muninn alveg út í hörgul.

Bjarni Benediktsson veit það sem honum hefur verið sagt og auk þess vita báðir til hvers er ætlast af þeim í þessu máli.

En svo er það spurningin: "Hvernig getur samkunda 63 manna haldið bestu fiskveiðstjórn í heimi fyrir utan umræðuna?"

Svarið: Af því við látum þessa samkundu komast upp með það.

Og hversu margir ætli séu þarna inni á Alþingi kostaðir af LÍÚ eða öðrum hagsmunasamtökum?

Árni Gunnarsson, 21.6.2011 kl. 08:03

17 Smámynd: Eggert Guðmundsson

-LÍU eða öðrum  hagsmunasamtökum? Ég sem hélt að íslenskir skattgreiðendur kostuðu þessi ósköp inni á Alþingi. Lengi má manninn reyna!!

Eggert Guðmundsson, 21.6.2011 kl. 12:56

18 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jón. Það er svo stórt skref í þessari umfjöllun, að viðurkenning liggur fyrir, um að friðun hafi ekki skilað árangri. Það hefur verið svo stórt mein og stífla umræðunni. 

Þegar viðurkenningin er komin, og umræðan fer að byggjast út frá viðurkenndum staðreyndum verður hún skýrari, og skilar raunhæfum árangri. Það hefur ruglað marga í umræðunni, að vanta þessa staðfestingu, og ekki skrýtið. Ekki hafa ríkisfjölmiðlarnir heldur verið að standa sig, en nú er þeim alls ekki lengur stætt á að opna ekki fyrir umræðuna.

Það er ekki endilega lausn að umbylta öllu kerfinu, en það er nauðsynlegt að finna bestu leiðina fyrir alla, út frá raunveruleikanum, en ekki fölsunum og óheilindum. Það eiga allir að geta farið út á sjó og fiskað hér við strendurnar, án þess að það þurfi að bitna á arðseminni hjá þeim, sem eru með allt sitt á heiðarlega hreinu.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.6.2011 kl. 00:31

19 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég þakka ykkur öllum fyrir athugasemdirnar og málefnalegar umræður.

Jóhanna mín, ég þakka þér hólið og nú verð ég að reyna að standa undir því, vegna þess að þetta er mikil vinna að reyna að þroska sig og afskaplega krefjandi, en gefandi.

Ég er sammála ykkur öllum, það má aldrei eiga sér stað þöggun í lýðræðisríkjum, hvort sem um er að ræða fiskveiðimál eða bankamál.

Kjörnir fulltrúar eiga að sjálfsögðu að sýna kjósendum sínum þá lágmarks kurteisi að hlusta á þeirra sjónarmið, þingmennirnir geta verið ósammála kjósendum sínum, en þeir verða þá að koma með rök, en ekki þegja.

Óli minn, ég hringi í þig þegar ég kem í land og við getum þá spjallað betur saman, mér finnst áhugavert myndbandið um Færeyska kerfið.

Ég er latur við að fara á bloggsíðuna mína úti á sjó, en þessar umræður eru mjög gefandi og greinilegt að margir vilja hafa áhrif á samfélagið og það eykur trú mína á því, að við séum þjóð sem látum okkur málin varða og viljum ekki láta stjórnmálamenn einoka umræðuna.

Jón Ríkharðsson, 22.6.2011 kl. 17:31

20 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Eigðu góðan túr Jón minn þakka þér bloggið þetta var snarpur og skemmtilegur sprettur og komið víða við.

Bið að heilsa strákunum. 

Ólafur Örn Jónsson, 22.6.2011 kl. 18:30

21 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

HAHAHAH Jón vinir okkar hleypa mér aldrei á fosíðuna þótt ég sé málefnalegur með

KVÓTAPÚKANN Á MIÐJUNNI 

ÞEKKINGUNA Í SÓKNINNI OG 

REYNSLUNA Í VÖRNINNI 

Ólafur Örn Jónsson, 22.6.2011 kl. 18:34

22 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mjög góð umræða. Ég verð að viðurkenna að ég veit lítið um fiskifræði en mér hefur alltaf fundist that skrýtin hugmynd að efla eigi þorstofninn með því að friða hann, en á sama tíma veiða upp til agna þær tegundir sem eru fæða þorsksins.

Er það ekki eins og að friða grísi sem á að hafa í jólamatinn en taka síðan allan matinn af þeim? Verðum við síðan mjög hissa þegar jólin koma og við sjáum að sumir grísirnir hafa dáið úr hungri en aðrir horast niður?

Hörður Þórðarson, 23.6.2011 kl. 00:22

23 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Búinn að skila kveðjunni Óli, þeir biðja allir kærlega að heilsa þér.

Já, þeir hjá mbl.is virðast hafa sína hentisemi, varðandi birtingar á forsíðunni.

Jón Ríkharðsson, 23.6.2011 kl. 00:52

24 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Hörður, ég bheld að það séu afskaplega fáir sem hafa vit á fiskifræði, þótt margir séu menntaðir í þeirri ágætu fræðigrein.

Enda eru fiskar ekki auðstamdar skepnur, þeir hafa sína siði og venjur, sem miðast að því að finna gott skjól ásamt nógum mat.

Reyndar skil ég þá mjög vel, fiskana, ég leta líka að góðu skjóli þar sem ég fæ nógan mat.

Jón Kristjánsson hefur lengi bent á það, að fæðuframboð ráði hvað mestu um hegðun fiskanna, en hann hefur litla áheyrn fengið.

Lífríkið í hafinu er afskaplega flókið fyrirbæri og margir hafa skoðanir á því.

Þess vegna væri gott, til að skapa frið, að menn færu að skiptast á skoðunum og ræða þessi mál af einhverju viti.

En það er eins og að ráðandi öflum skorti kjark til þess, að rökræða, það er vissulega ekki gott.

Þetta á ekki að fara út í persónulegar árásir, vegna þess að fulorðið fólk ætti að geta tekist á með rökum, þannig fæst einhver niðurstaða.

Jón Ríkharðsson, 23.6.2011 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband