Við þurfum miklu meiri pólitík.

Pólitískar hugsjónir vakna um leið og fólk óttast um eigin hag, mannskepnan er svo sjálfhverf í eðlinu.

Öll árin fyrir hrun vorum við pollróleg, enda höfðum við það nokkuð gott. Næg atvinna og gott aðgengi að fjármagni.

En ekkert þjóðfélag er fullkomið, fátækt þekktist á meðan peningarnir streymdu til landsins. Flestum var hinsvegar sama, þ.e.a.s. þeir sem þekktu engan fátækan eða voru ekki í vandræðum sjálfir. Og það voru mjög fáir blankir á þessum tíma, tók því ekki að berjast fyrir þá.

Um leið og ástandið breyttist fylltust allir eldheitum hugsjónum og vildu berjast fyrir bættu samfélagi. Líklegt er að hugsjónin dofni um leið og ástandið í efnahagsmálum batnar.

Þetta er slæmt, því pólitísk gerjun er nauðsynleg á öllum tímum og við megum aldrei hætta að berjast fyrir betra samfélagi og viðhalda því sem er gott. 

Segja má að íslendingar séu ekkert mjög pólitískir að eðlisfari, við hinsvegar hugsum um velferð fyrir okkar nánasta umhverfi. Og að sjálfsögðu, meðvituð um samstöðuna, berjumst við fyrir bættum hag allra í okkar stöðu, um leið og nauðsyn ber til.

Við þurfum að viðhalda eldinum sem brennur í hjörtum okkar og gæta þess að hann slokkni aldrei. Ræða saman á málefnalegum nótum og finna í sameiningu þá leið sem hentar best. Og þeirri vinnu líkur aldrei.

Um leið og takmarkinu er náð, þurfum við að tendra kyndla komandi kynslóða og fræða þær um nauðsyn þess að láta eldinn aldrei slokkna.

Ef það er ekki gert verða góðærin okkar verstu óvinir á þroskabrautinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband