Einn mesti aulasamningur sögunnar?

Fyrir leikmann eins og mig, þá hljómar málflutningur stjórnarliða varðandi Icesave samninginn, að þetta sé einn mesti aulasamningur sögunnar og þökk sé þjóðinni, að honum var hafnað.

Mér dettur í hug, maður sem ég var með til sjós fyrir fjölmörgum árum.

Sá góði félagi, var svona frekar vitgrannur, en þægilegur í samstarfi og skilaði öllum verkum með stakri prýði.

Hann á dóttur sem var alveg að taka hann á taugum. Þar sem hann bjó ekki með móður hennar, sótti hann stelpuna alltaf þegar hann kom í land og hafði hana hjá sér í flestum inniverum.

Þegar við lögðum úr höfn sagði hann okkur frá því, hversu óþekk hún var og hann réði ekkert við helvítis frekjuna í henni. Sjálfsagt hefur barnið státað af meiri eðlisgreind en faðirinn og það getur skapað visst ójafnvægi í samskiptum föður og barns.

Svo fann hann lausnina varðandi óþekkt stelpunnar.

Hann sagði okkur frá því, að með því að láta bara allt eftir henni og kaupa það sem hún vildi, þá var hún alveg eins og engill og ekkert vandamál með hana. En það liggur í augum uppi, hvaða afleiðingar svona eftirlátsemi hefur í för með sér.

Örlítið heyri ég af þessum vini mínum og rekst stundum á hann. Sagt er að dóttir hans, sem í dag er orðin fullorðin kona og á fjölskyldu, hafi kallinn algerlega í vasanum.

Hann þrælar úti á sjó og allt sem hann þénar fer í að borga skuldir fyrir dóttur hans og tengdason, hann á aldrei krónu, samt er hann reglusamur og eyðir engu í sjálfan sig.

En það myndi aldrei hvarfla að þessum manni að gefa kost á sér til að stjórna landinu, hann þekkir nefnilega sín takmörk og það er meira en sumir geta sagt, sem þykjast þó státa af ágætum gáfum.

Ríkisstjórn Íslands sagði að Bretum og Hollendingum hafi verið greint frá því, að þetta væru ekki lögvarðar kröfur, fyrrgreindar þjóðir hafa heldur ekki fullyrt að svo sé.

Það var ákveðið að borga þeim stórfé, til þess að við fengjum frið fyrir óþekktinni í þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband