Það er nóg pláss fyrir nýja flokka.

Nýjar raddir í stjórnmálum eru nauðsynlegar og best fyrir gömlu flokkanna fjóra að fá góða og öfluga samkeppni.

Sömu lögmál gilda í stjórnmálum og á frjálsum markaði, samkeppnin heldur mönnum á tánum og kemur sér best fyrir neytendur.

Gömlu flokkarnir þurfa að hafa lítið fyrir að halda sínu, ekki að þeir hafi verðskuldað það heldur vantar samkeppni til að þeir geti tekið til hjá sér og hafið alvöru hugmyndavinnu. Eina sem flokkarnir þurfa að gera er að vinna góða ímyndarvinnu og kaupa þjónustuna frá reyndum almannatenglum, gera lítið sjálfir.

Því miður eru nýju framboðin afskaplega lítilfjörleg og koma hvorki með nýjungar né heldur sannfærandi stefnur. Það háir þeim líka að leiðtogarnir geta vart tjáð sig almennilega, en góð tök á mælskulist er lykilatriði fyrir frambjóðendur og talsmenn flokka.

Nýju framboðin staglast á sömu tuggunni og gert hefur verið lengur en elstu menn muna. Það er hægt að skreppa í heita pottinn til að hlusta á sama og þau hafa fram að færa, spillinguna hjá stjórnmálamönnum og handónýtt þjófélag.

Fólk sem tjáir biturð og reiði fær litla áheyrn, sama hvað hugmyndafræðin er góð. Reyndar er hægt að gera það hafi menn góð tök á tungumálinu og kunnáttu í ræðumennsku, en nýju framboðin hafa hvorugt.

Erfitt er að finna stjórnmálamenn sem flestir telja réttláta og vitra, en fáir mótmæla þeim kostum hjá Abraham Lincoln. Hann barðist gegn þrælahaldi og þoldi ekki að fólk væri svipt því dýrmætasta sem hægt er að öðlast - frelsinu.

Í stað þess að ganga fram með ofbeldi og látum - fannst honum rétt að ríkið veitti þrælahöldurum bætur.  Hann var réttlátur maður og vitur, vildi ekki refsa neinum fyrir að fara að lögum.

Hann virti lög og reglur, eins og réttlátt fólk gerir undantekningalaust. Ef fólk virðir ekki lögin - þá skapast hætta á siðrofi. Lög um þrælahald voru óréttlát en þrælahaldarar fóru að lögum - þess vegna vildi hann ekki refsa þeim.

Ef það kæmi nýtt framboð með raunverulegt réttlæti að leiðarljósi og gerði sér grein fyrir því, að stjórnmálamenn gera mistök - ekki vegna glæpahneigðar og ekki endilega til að hygla öðrum, þá er það strax jákvætt skref.

Það þarf nýtt framboð sem talar fyrir lausnum sem þjóðin raunverulega þarf og sleppir því að ásaka aðra flokka um spillingu og jafnvel glæpi - án þess að geta sannað með óyggjandi hætti.

Þá þurfum við sjálfstæðismenn og aðrir flokkar sannarlega að bregðast við og bretta upp ermar og samfélagið verður loks betra en það er í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Jón! Ert þú að fara að stofna  flokk. Þú ert nú ágætlega máli gefinn, hvað á barnið að heita , og hver verður stefnan nýja??kv.

Eyjólfur G Svavarsson, 24.9.2013 kl. 16:47

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Nei Eyjólfur minn, ég er ekki að hugsa á þeim nótum, mun styðja Sjálfstæðisflokkinn áfram og taka þátt í að efla hann og styrkja.

Ég er og verð alltaf sjálfstæðismaður, það breytist aldrei. Stuðningur við flokka er langhlaup, stundum gengur vel og stundum illa, en maður gefst ekki upp.

Hinsvegar er ég talsmaður frjálsrar samkeppni og tel hana best til þess fallna að halda mönum á tánum og bæta sig. Sjálfstðisflokkurinn hefur enga samkeppni, vinstri flokkarnir handónýtir og nýju framboðin líka, þannig að hann sofnar á verðinu.

Það verða úrvalslið ónýt á að keppa stöðugt við fjórðu deildar lið.

Jón Ríkharðsson, 24.9.2013 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband