Dávaldurinn í borgarstjórastólnum.

Svo mjög virðist Jón Gnarr hafa náð að dáleiða borgarbúa að þeir standa opinmynntir og finna spekina fljóta í hvert sinn sem hann ræskir sig.

Þegar hann talar telja þeir sem fyrir sefjuninni urðu orðin merkari en fjallræðan í heild sinni.

Talsmenn dávaldsins segja hann hafa brotið blað í sögu íslenskra stjórnmála með því að ráða ekki vini í embætti.

Við sem sluppum við þessa djúpu sefjun heyrum holan hljóm í þessari fullyrðingu. Staðreyndin er sú að Besti flokkurinn er grófari í láta vini sína fá embætti sem þeir kunna ekkert á en fjórflokkurinn eins og hann leggur sig.

Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði skrifaði bók sem segir frá því hvernig íslenskir flokkar stunduðu þessi mál áratugum saman. Þar kemur fram að Alþýðubandalagið gat sjaldan úthlutað sínum mönnum góðum stöðum. Ástæðan var að þá skorti menntun.

Borgarstjórinn lætur smámuni eins og menntun og reynslu ekki slá sig útaf laginu, hann lofaði jú að redda sjálfum sér og vinum góðum embættum og það er eitt af fáum loforðum sem hann gleymdi að svíkja.

Jón Gnarr hafði enga reynslu af pólitík og hann hefur sjálfur sagt að Besti flokkurinn hafi ekki haft stefnu í neinum málum þegar hann byrjaði. Samt ákvað hann að gerast borgarstjóri.

Ábyrgur maður hefði ráðið hæfan mann í verkið en launin freista.

Forseti borgarstjórnar hefur það hlutverk að stjórna fundum. Borgarstjórinn skipar vinkonu sína sem eldaði fyrir hann á auglýsingastofu í embætti forseta borgarstjórnar og hún kann ekki fundarsköp.

En forseti borgarstjórnar fær 25% ofan á launin sín. Elsa hlýtur að hafa eldað góðan mat fyrir borgarstjórann á auglýsingastofunni og hann viljað launa henni greiðann.

Hinn svokallaði fjórflokkur er þó ekki eins grófur í þessu og hinn "vammlausi" borgarstjóri. Þótt deila megi um ýmsar ráðningar eru gerðar kröfur um menntun og reynslu og líklega myndi engum öðrum flokki detta í hug að skipa borgarstjóra sem hefur aldrei stjórnað stóru fyrirtæki, hvað þá tekið þátt í pólitísku starfi.

En mikill er máttur sefjunarinnar, það er sama hvað Jón Gnarr gerir eða segir.

Alltaf er hann frábær vitringur sem engum leyfist að hallmæla.

Jón Gnarr gæti grætt á að halda námskeið fyrir stjórnmálamenn í dáleiðslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki kaus ég Gnarrisman,og ekki tókst honum og hans hirð að blekkja mig, en Jón síðuskrifari,þið hjá X-D eruð alveg að skjóta ykkur sjálfa í fótinn með því að hafa algjörlega hálfvonlausan Skipstjóra í fyrsta sæti hér í Borginni Reykjavík.Og ekki nóg með það að þá er hann einstreginn ESB-sinni,og það er miður.Ég sé að vísu engan sterkan einstakling sem ég vildi sjá sem Borgarstjóra,sem eru í fyrsta sæti hjá listum sem eru í boði hér í borginni.

Númi 19.5.2014 kl. 11:18

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Skil hvað þú átt við Númi, rétt er að ómögulegt er að finna almennilegan stjórnmálaskörung sem er snjall að orða hlutina og getur mátað pólitíska andstæðinga í rökræðum þannig að eftir því verður tekið.

Slíkur einstaklingur finnst ekki, hvorki á landsvísu né í sveitastjórnum og það er ástæða fyrir því sem ég þekki nokkuð vel.

Fyrir síðustu prófkjör hefur verið leitað til fólks sem hefur þessa eiginleika að geta svarað vel fyrir sig, góða þekkingu á fjármálum og rekstri ásamt afburða færni í mannlegum samskiptum.

Svona fólk tekur ekki í mál að starfa á pólitískum vettvangi. Það mun minnka mikið í launum, en margir eru tilbúnir til þess. Hinsvegar nennir fólk með afburðahæfileika ekki að takast á við þessa vitlausu fjölmiðla og netumræðu. Hún er svo óvægin og ósanngjörn þannig að ómögulegt er að fá afburða fólk í pólitík.

Varðandi Halldór Halldórsson, þá stóð hann sig vel fyrir vestan ef marka má umfjöllun DV, en sá miðill er ekki hliðhollur Sjálfstæðisflokknum eins og þú veist.

Skoðanir hans á ESB skipta engu máli í borgarstjórn, enda er það vettvangur landsmálanna.

Jón Ríkharðsson, 19.5.2014 kl. 12:39

3 identicon

Jón,því get ég lofað þér,að trú Halldórs á ESB skiptir miklu máli hér,þó svo að um borgarstórnarmál sé um að ræða.

Það er einkennilegt að sjá hvernig er tilkomið fyrir X D í borgarstjórnarkosningunum sem framundan eru. Hver var arkitektin að fá Halldór í fyrsta sætið.?

Númi 20.5.2014 kl. 09:27

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það sem ég átti við Númi, var að borgarstjóri hefði enga aðkomu að neinu varðandi ESB. Það er ekki á hans verkssviði.

Ef við veltum hinsvegar fyrir okkur umræðunni, þá reiknast það mönnum frekar til tekna um þessar mundir að vilja "kíkja í pakkann" og láta þjóðina kjósa. Slík afstaða þykir bera vott um frjálslyndi.

Eins og þú eflaust veist er ég mjög virkur í Sjálfstæðisflokknum og fylgist eins vel með og ég get. Halldór hefur staðið sig mjög vel í að miðla málum, en eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, hefur verið talsverður ágreiningur í hópi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Halldór náði á skömmum tíma að jafna þann ágreining þannig að nú koma þau fram sem ein heild. Það eitt og sér er mikið afrek. Í þessum hópi eru sterkir einstaklingar sem standa mjög fast á sínu, það þeki ég vel. Og þvi miður hafa þau ekki verið sammála í öllum málum, en samt sem betur fer flestum.

Það er sjaldan gefið upp hver fær menn til að gefa kost á sér eða hverjir. Ég neita ekki að hafa heyrt einhverjar sögusagnir en það er ekkert hægt að byggja á þeim. Halldór gaf bara kost á sér, eflaust hefur einhver hópur hvatt hann til þess og hann stendur sig vel.

Það kemur mér ekki á óvart að flokknum gangi svona illa. Menn voru of linir í stjórnarandstöðunni, það voru mistök sem má læra af. Svo hefur flokkurinn ekki verið ráðandi afl í borginn í tuttugu ár, það hefur líka sitt að segja.

Það þarf mjög mikinn kraft til að vinna stóran sigur við svona aðstæður. Þú manst árið 1982, þegar Davíð tók borgina. Hann hefur sagt frá því sjálfur að hann hafi beitt öllum brellunum í bókinni til að vinna borgarbúa á sitt band. Var grimmur, óvæginn og ósvífinn. Það er því miður eina sem dugar í pólitíkinn. 

Jón Ríkharðsson, 20.5.2014 kl. 09:44

5 identicon

Ég vona að það sé ekki svo líkt, og þú nefnir þarna í lok pistils. Að það þurfi óheiðarleika til að komast að kjötkötlunum,fólk með skynsemi sér í gegnum það,Halldór sem dæmi,hvers eða hvurs eða hvurra stendur hann fyrir.

Þessi ákvörðun að hafa þennan annars ágæta mann Halldór í forystusæti er svona hélfgert ´´harakiri´´ef má orða það svo.

Númi 20.5.2014 kl. 11:36

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Óheiðarleiki er kannski ekki rétta orðið, svona er bara pólitíkin og hún hefur alltaf verið með þessum hætti.

Þú hefur heyrt orðin "pólitísk refskák" og það þykir fínt að vera pólitískur refur, klókur og harður í senn.

Kjósendur vilja hafa þetta svona, stjórnmálamenn svara bara eftirspurninni.

Það nenna fáir að ræða pólitík af einhverju viti, flestum finnst best að hafa þetta í sama horfinu.

Ég hef eytt löngum tíma í að lesa stjórnmálasögu lýðveldisins, annars gæti ég ekki fjallað um pólitík. Þetta fáránlega samband stjórnmálamanna og kjósenda hefur alltaf verið til staðar. Kjósendur vilja láta gæla við eyrun, stjórnmálamenn verða við því.

Svo þegar í ljós kemur að ekki er allt satt sem sagt er fyrir kosningar þá verða allir hissa.

Jón Ríkharðsson, 20.5.2014 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband