Teknókratisminn tekinn við af hugmyndafræðinni?

Teknókratar nota Exel-skjöl og talnafræði til að rökstyðja sitt mál, á meðan hugsjónafólk berst fyrir hugmyndafræði og boðar breytingar.

Teknókratar allra flokka fæla fólk frá kjörstað, enda engin ástæða til að mæta þegar allir vilja það sama.

Hugmyndafræðileg átök tilheyra fortíðinni, að mestu leiti. Stjórnmálamenn allra flokka leitast við að hnusa vilja kjósenda og miða sinn málflutning að mestu við stemminguna hverju sinni.

Þetta er afleit þróun sem skapar almennan doða í samfélaginu.

Sjálfstæðismenn eiga að berjast með oddi og egg fyrir framgangi sjálfstæðisstefnunnar. Enda er hún eina stefnan sem dugað hefur íslensku þjóðinni til þessa og ólíklegt að betri stefna verði fundin upp í bráð.

Þess vegna á Sjálfstæðisflokkurinn að berjast fyrir lágum sköttum. Það er vitað að nauðsynlegt er að mæta tekjutapi ríkissjóðs, en slíkt á ekki að stöðva fólk í hugsjónabaráttu.

Lágir skattar eru réttlætismál, hið opinbera þarf þá að laga sig að minnkandi tekjustreymi, væntanlega tímabundið. Líklegt er að lægri skattar skili meiru í kassann til lengri tíma litið.

Og þegar tekjurnar aukast á alls ekki að stækka báknið eða auka fjármagn til stofnanna. Það er ekkert slæmt að eiga digra sjóði, kreppan árið 2008 er örugglega ekki sú síðasta.

Sjálfstæðismenn eiga að tendra bálið sem logar í hjörtum hvers manns sem þráir það heitast af öllu, að hver og einn eigi möguleika á að blómstra á eigin forsendum.

Fái eldurinn að loga skært, er ómögulegt að finna sálarfrið uns óheilbirgðri samkeppni á markaði verður útrýmt með öllu.

Það er ekki hægt að horfa upp á þá hörmung að einkaaðilar séu í samkeppni við ríkið. Hugsjónaríkur eldhugi, með sjálfstæðisstefnuna ritaða stórum stöfum í hjartastað, getur ekki horft upp á milljarða fara í ríkisrekinn fjölmiðil, á sama tíma og hann er í samkeppni við einkarekna miðla.

Og hver einasta heilbrigð sál þjáist með öllum þeim sem þjást. Þess vegna þarf að leita allra leiða til að efla heilbrigðiskerfið.

Auðvelda þarf einstaklingum að stofna fyrirtæki. Það er sárt að horfa upp á flókið skrifræði og mikinn kostnað, sem fylgir því að hefja rekstur. Stjórnvöld eiga að fagna öllum sem vilja standa á eigin fótum og skaffa öðrum vinnu.

"Eign fyrir alla" er gamalt slagorð Sjálfstæðisflokksins. Við megum aldrei gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn er eina stjórnmálaaflið sem vill að allir séu eignamenn. Í því er mesta frelsið fólgið.

Allar ákvarðanir byggðar á hugsjónum fela í sér áhættu, en því ber að fagna. Og hugsanlega leiða þær til mistaka, þá lærum við af þeim.

En ótti við mistök og áhættufælni eru verstu óvinir allra stjórnmálamanna.

Stjórnmálamenn eiga að velja embættismenn sem geta framkvæmt þeirra hugsjónir í stað þess að láta embættismenn hræða sig með Exel-skjölum og tölfræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband