Nýjárskveðjur til bloggheima.

Kæru lesendur þessarar síðu og mínir góðu bloggvinir.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og el þá von í brjósti að komandi ár verði ykkur öllum til gæfu.

Nú hef ég verið þátttakandi í umræðum bloggheima í eitt ár, rúmlega þó, og hefur það verið mjög ánægjulegur tími. Hér dvelur löngum stundum afskaplega fjölbreytileg mannlífsflóra, sumir virðast varla þegið heila í vöggugjöf frá skapara sínum á meðan aðrir eru afburðagreindir og fjölfróðir mjög og svo allt þar á milli.

Ég hef eignast marga góða spjallvini hér og myndað ágætis vinatengsl við tvo þeirra, en það eru heiðursmennirnir Óskar Helgi sem kallar sig Svarthamar og Jón Valur Jensson. Við þá báða hef ég átt skemmtilegar viðræður í síma og það fer ekki á milli mála, að þar fara greindir og rétthugsandi menn.

Það er skemmtileg tilviljun, að þessir tveir skuli hafa verið þeir fyrstu sem ég mynda vinatengsl við hér í bloggheimum, því þeir voru líka mínir fyrstu bloggvinir. 

Óskar var sá fyrsti sem sendi mér bloggvinabeiðni, en þá hafði ég ekki mikið ferðast um bloggheima og nafnið Svarthamar vakti athygli mína. Ég var staddur uppi í brú að skoða póstinn minn og spurði skipstjórann hvort hann vissi hver þessi Svarthamar væri. Kafteinninn hefur lengi verið tíður gestur á hinum ýmsu bloggsíðum, þótt hann af einskærri hógværð láti aldrei til sín taka, því hann hefur margt áhugavert til málanna að leggja og oft eigum við mjög gefandi samræður um hin ýmsu málefni, sem ég hef lært mikið af.

Hann sagði mér að Svarthamar væri mjög góður og mikið vit í því sem hann segir. Ég kíkti á síðuna hans og sá að þar fór maður sem bjó yfir meiri visku en margur annar, þótt hann riti sérstætt og oft á tíðum torskilið mál, að sumra mati, þá er mikil hugsun í hans skrifum, mikil og djúp. Ég varð fljótur að samþykkja hann og mér fannst hann sýna mér heiður með beiðninni.

Svo kom skömmu síðar beiðni frá Jóni Val, en hann kannaðist ég við, því ég hef hlustað mikið á Útvarp Sögu, einnig fannst mér heiður af beiðni hans. Svo kom að því að fleiri gáfu sig fram og ég lærði líka að óska eftir bloggvinum sjálfur.

Bloggið er prýðisgóð dægradvöl, þegar ég er í landi er ég oftast einn heima, því allir eru í skóla og vinnu. Þá er gott að setjast við tölvuna og skoða hvað bloggvinirnir eru að segja, stundum ef ég er ekki mjög andlaus kommentera ég, en oft er maður ósofinn og talsvert ringlaður þegar í land er komið, svo rita ég mínar hugrenningar ef andinn kemur yfir mig osfrv.

Þar sem ég hef aldrei verið mikið gefinn fyrir íþróttir, oftast lagt mig og beðið þar til það líður hjá ef krefjandi hreyfiþörf knýr að dyrum, þá er orðaleikfimi og þvarg oft hin besta dægradvöl. Og ég get setið með kaffibolla vel afslappaður við tölvuna og látið gamminn geysa.

Konan er mjög hissa á þessu hjá mér, því lítið hef ég verið fyrir að stússast í tölvunni, fyrir mörgum árum uppgötvaði ég að það væri kominn tölva á heimilið, en við áttum lítt skap saman, enda hef ég ekki verið gefinn fyrir tækninýjungar í gegn um tíðina.

En loksins, eftir margra ára þreifingar, þá náðum við sátt ég og tölvan. Þegar ég byrjaði að blogga var ég stöðugt að klúðra einhverju og vafalaust reynt á þolrif starfsmanna mbl.is með heimskulegum spurningum, en þeim tókst með þolinmæði, að kenna mér á leyndardóma bloggheima.

Að lokum hlakka ég til samskipta næsta árs við ykkur, ágætu lesendur og dvalargestir bloggheima. Þvörgurunum sendi ég líka góðar óskir og einlæga von um að þeir fari ekki að daðra við skynsemina. Þá missa þeir allan sjarma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Gleðilegt ár Jón og þakka alla pistlana þína hér og á Pressuni á  liðnu ári.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 1.1.2011 kl. 00:43

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Sigurjón, kær kveðja til þín og þinna og þakka þér einnig fyrir skemmtileg skrif sem og athugasemdir.

Jón Ríkharðsson, 1.1.2011 kl. 02:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband