Berjumst fyrir bættri umræðuhefð.

Við höfum ólíkar skoðanir á flestum málum, sum okkar aðhyllast jafnaðarstefnu, frjálshyggju osfrv. Öll höfum við að sjálfsögðu rétt til að vinna okkar skoðunum fylgis og nota netið til þess.

Einnig er nauðsynlegt að við sýnum hvert öðru aðhald. Ef einhver er að boða sína stefnu og hallar réttu máli þá er ekkert athugavert við það, að leiðrétta viðkomandi.

En kurteisi ber okkar stöðugt, í hávegum að hafa.

Stjórnmálaskoðanir fólks segir ekkert um persónuleika, atgervi eða greind. Af þeim sökum er það grófasti ruddaháttur að dylgja um vafasaman tilgang fólks, sem maður þekkir ekki neitt.

Því miður hafa komið fram einstaklingar á þessum ágæta vef, sem kunna enga mannasiði. Þeir tala vefinn okkar niður og gera hann óþægilega líkan DV.is, en flestir þekkja athugasemdirnar þar á bæ.

Vissulega er erfitt að komast hjá því að narta örlítið í pólitíska andstæðinga í hita og þunga leiksins, en það á enginn það skilið að vera rakkaður niður og þá á enginn skilið að þola ómakleg ummæli um sína persónu.

Lokum á verstu netdónanna og berjumst fyrir bættri umræðu í þjóðfélaginu, þá mun vefurinn okkar stórbatna og loksins verður þá hægt að ræða pólitík af viti og færa umræðuna upp á hærra plan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Tek undir þetta. Ég hef einmitt mikið hugsað um þetta og það er svo mikilvægt að geta rætt mál án þess að viðhafa særandi ummæli um annað fólk.

Jón Halldór Guðmundsson, 10.1.2013 kl. 13:03

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

ER með hvað mig varðar.Geri orð Jóns haldórs að mínum.

Jósef Smári Ásmundsson, 10.1.2013 kl. 14:42

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka ykkur báðum fyrir góðar undirtektir, Jón Halldór og Jósef. Ég hef trú á að meirihluti þeirra sem bloggar á þessum vef vilji kurteisa og siðaða umræðu. Við eigum ekki að líða dóna eins og Hilmar og fleiri.

Hilmar, öllum athugasemdum frá þér verður eytt og ég les þau ekki. Lífið er of dýrmætt til að eyða tíma í dóna eins og þig.

Þú mátt þrjóskast við eins og þér sýnist, fá þér ný og ný netföng, en þínar athugasemdir fá aldrei að standa lengi, af tillitssemi við við góða fólk sem heimsækir síðuna mín og auk þess þoli ég ekki dóna sem kunna ekki mannasiði.

Jón Ríkharðsson, 10.1.2013 kl. 15:49

4 identicon

Ég tók á sínum tíma virkan þátt í umræðum á vefnum Málefnin og kallaði mig þá straks kristinn hægri öfgamann til þess að taka ómakið af viðmælendunum. Ég gerði þetta af ásettu ráði til þess að fólk mætti vita hvar ég stóð.

Þó svo að ég hafi gefið mér þennan stimpil fóru Málverjar fljótlega að reyan að telja mér trú um að ég væri ekki nærri því eins slæmur og ég vildi vera láta. Ég tók mér það hlutverk að verja hægri stefnu og að hluta til bandaríkin enda hef ég verið búsettur hér í rúm 20 ár og er giftur bandarískri konu. Börnin mín eru bandarísk að því leitinu til að hérna eru þau uppalin.

Þess vegna lét ég í mér heyra þegar talað var um feita heimska bandaríkjamanninn enda þá verið að tala um fjölskyldu mína, vini og vinnufélaga. Ég vinn hjá hátæknifyrirtæki sem er fullt af bandaríkjamönnum, öllum hámenntuðum, bráð velgefnum og fæstum feitum en það er önnur saga.

Það sem gerir viðræður á vefnum vandasamar er að það er enginn „fundarstjóri“ og því fara umræður um víðan völl. Menn koma inn í miðjar samræður og taka afreynar. Helsta vandamálið er hins vegar það að mínu mati að það er erfitt og mikið verk að setja fram vel ígrundaðan og rökfastan texta. Það er miklu auðveldara að skjóta á fólk og persónu þess.

Svo að ég víki aðeins aftur að Málefnunum, þar myndaðist þar samfélag þar sem kurteisi var yfirleitt í fyrirrúmi þar sem maður „þekkti“ fólkið þar.

Bara svona í lokin, þá er ég búinn að uppfæra lýsinguna á sjálfum mér og bæta við rasista. Það á rætur sínar að rekja til þess að ég er andsnúinn pólitík Obama og eins og við sem hérna búum fengum að heyra eru allir þeir sem eru ósammála honum rasistar.

Kveðja frá hægri kristnum öfga rasista.

Erlendur 10.1.2013 kl. 17:06

5 identicon

Fleiri gullkorn frá FLokksdónanum Jóni Ríkharðssyni. Er nema furða að hann vilji fá að vera í friði með skítaskrifin?:

"Sögulegar heimildir geta oft verið óáræðanlegar og það kostar mikla vinnu að rannsaka hvert mál ofan í kjölinn."(!?)

"Sumir tala um sögufölsun, ég get ekki túlkað söguna öðruvísi en með mínum augum."(?!)

Hilmar Hafsteinsson 10.1.2013 kl. 17:26

6 Smámynd: hilmar  jónsson

Jón minn, ertu nokkuð að verða full viðkvæmur ?

Vona allavega að það sem ég setti á síðuna hjá þér sem húmor, skoðist ekki sem " bloggdólgska"

hilmar jónsson, 10.1.2013 kl. 18:01

7 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir þína athugasemd Erlendur. Það eiga allir að hafa frelsi til að tjá sínar skoðanir, skárra væri það nú.

Jón Ríkharðsson, 10.1.2013 kl. 18:59

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Hilmar minn, það er engin hætta á að ég loki á þig, enda loka ég yfirleitt ekki á fólk. Ég þekki þínar skoðanir, þær hljóma ekki við mínar en ég virði þær engu að síður. Ég upplifi þig sem ágætis náunga og hef ekkert nema gott um þig að segja.

Ég hef aðeins lokað á tvo aðila því þeir fóru yfir strikið. Annar hefur virt lokunina, þannig að ég ætla hvorki að fjalla um hann né það sem varð til þess að ég lokaði á hann. Honum er ekki alls vernað og hann kann mannasiði.

Hilmar Hafsteinsson hinsvegar þekkir engin mörk. Ástæðan fyrir því að ég þoli hann ekki er sú að fyrir tæpu ári síðan hafði hann sorglegan atburð í flimtingum, þ.e.a.s. þegar Bjarni Ben. eldri brann inni ásamt eiginkonu og ungu barni. Hann kórónaði svo dónaskapinn með því að telja það sniðugt að grilla mig á Þingvöllum líka. Það varð til þess að ég þoli hann ekki, hann er líka mjög rætinn. En þú sérð bullið í honum í athugasemd nr. 5., þar segir hann að ég vilji fá að vera í friði með skrifin mín.

Nú veistu það sjálfur Hilmar, að margir hafa andmælt mínum skrifum og skammast út í mig og mínar skoðanir. Þeir koma ennþá og eru velkomnir, enda finnst mér nauðsynlegt að allar skoðanir fái að heyrast.

Þú getur fundið athugasemdirnir sem fengu mig til að fá andstyggð á Hilmari ef þú smellir á dagatalið, ferð aftur til 28. febrúar árið 2012, færslan heitir "Það er best að við skrifum söguna sjálfir".

Nei Hilmar minn, ég er ekkert orðinn viðkvæmari en ég hef verið, komdu sem oftast, ég lofa að loka ekki á þig, mér er alls ekki illa við þínar athugasemdir, ég hef meira að segja líka stundum gaman af húmornum hjá þér.

Jón Ríkharðsson, 10.1.2013 kl. 19:09

9 identicon

... og hægri kristni öfga rasistinn Erlendur (ekki Breivik?) sendir FLokksdónanum Jóni Ríkharðssyni kveðju sína!

Þá stendur nú ekki á vininum að svara:

"Þakka þér fyrir þína athugasemd Erlendur. Það eiga allir að hafa frelsi til að tjá sínar skoðanir, skárra væri það nú."(!?)

Já, skárra væri það nú að hægri kristnir öfga rasistar eigi ekki vin í Jóni Ríkharðssyni, enda Landsfundarfíflið allur á því að "ræða pólitík af viti og færa umræðuna upp á hærra plan"!

Hilmar Hafsteinsson 10.1.2013 kl. 19:37

10 identicon

Sæll Hilmar,

Hægri kristinn öfga rasisti er stimpillinn sem er settur á þá sem eru á skjön við nútíma pólitískan rétttrúnað þannig að ég varð bara fyrri til.

Ég er öfga kristinn vegna þess að ég fer reglulega til kirkju. Ég er hægri maður af því að mér hugnast ekki stefna núverandi stjórnvalda (hvorki á Fróni né í BNA)og virði einstaklingsfrelsið.

Ég er rasisti eins og ég lýsti áður þar sem ég er ósammála í flestu sem Obama forseti er að gera.

Áður fyrr hefði ég sennilega bara verið venjulegur maður.

Erlendur 10.1.2013 kl. 20:14

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég get alveg tekið undir að Hilmar fór talsvert yfir strikið og ekki gaman fyrir neinn að fá svona sóðakjaft yfir sig. Ég get tekið undir mörg orð hans um þá spillingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sáð í kringum sig, sú samkunda hefur sannarlega uppskorið storm (og við öll í þessu landi) eftir að hafa sáð vindi. Hinsvegar er svona munnsöfnuður algjörlega óásættanlegur.

Mér þykir leitt að lesa skrif manna sem sýna slíkt ástfóstur við þennan flokk, sem hefur leitt svona miklar hörmungar yfir landið. Enda er fyrst núna að sjá að eitthvað réttlæti er að ná fram að ganga í þjóðfélaginu, þegar þessi elskaði flokkur Jóns Ríkharðssonar hefur verið settur á varamannabekkinn. Þó vissulega hafi úrvinnslan úr þrotabúi Íslands Sjálfstæðisflokksins alls ekki verið eins og best verður á kosið, eru málin að einhverju leyti að komast í betra horf.

Ég verð þó að segja við þig Jón, fyrst þú ert að fara að hella þér í stjórnmálin af alvöru, að ég hef upplifað þig þannig að þú þolir ekkert sérstaklega vel andstæðar skoðanir, þó þú sért vissulega kurteis. Tek fram að ég hef fullan skilning á lokun þinni á umræddan Hilmar, ekki mikið að loka á tvo menn í mörg ár. Allavega ef miðað er við suma áberandi bloggara, þ.ám. ákveðinn nafna þinn.

Theódór Norðkvist, 10.1.2013 kl. 21:21

12 Smámynd: Marteinn Sigurþór Arilíusson

Sæll Jón alveg er ég sammála hverju orði í þessu bloggi þínu. Ég held að þessi mann ræfill Hilmar Hafsteinsson sé alveg helsjúkur og ætti alveg tafarlaust að leita sér hjálpar.Og gaman væri að Theódór upplýsti okkur um allt þetta réttlæti sem vinstri menn hafa innleitt á Íslandi.Nei hér verður ekki hægt að lifa mannsæmandi lífi fyrr en vinstra liðið er farið frá völdum og Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við.

Marteinn Sigurþór Arilíusson, 10.1.2013 kl. 22:38

13 identicon

Heill og sæll Jón; líka sem og aðrir gestir, þínir !

Matti; Stokkseyrzki fornvinur, góður (Marteinn Sigurþór) !

Þó; takast mætti, að losna við þann úrhrakslýð, sem nú situr hér að völdum - má ''Sjálfstæðisflokkur'' hörmunga og tortímingar, ALDREI komast til valda, á ný.

Við eigum; fjölda fólks, úr framleiðslu- og þjónustugreinum, sem tímabært væri, að fengi að spreyta sig - og; ef ekki, ættu Kanadamenn og Rússar, að skipta landi og miðum og fólki og fénaði; hnífjafnt, á milli sín, Matti minn.

Gæti ekki; orðið lakari lausn, úr þessu, ágæti drengur.

Með beztu kveðjum; sem oftar - og fyrri / 

Óskar Helgi Helgason 10.1.2013 kl. 23:00

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek heilshugar undir, en bendi á að hvorki Heimssýn sjálfstæðismanna og T. Toma þjóðkirkjuprestur leyfa ummáli lengur?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.1.2013 kl. 23:15

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk samt að leyfa mig Jón Ragnar. Jón Valur fékk mig bannaða á blogginu (er alin í kaþólsku og ekki hann) og Vilhjálmur póstur í DK bannar mig og Snorri í Betel og Hannes Hólmsteinn bannar alla og Heimsyn sjálfstæðismanna og nú besti prestur þjóðkirkjunnar , sem ég hef kallað "ríkiskirkju" T. Toma, hefur lokað á athugasemdir?

Ætlaði að senda http://www.dv.is/blogg/eimreidin/2013/1/10/ekki-rikisstofnun/

....og árnaðarkveðjur með nýju ári og sólaruppkomu?

Haltu þínu gagnrýna striki,

Anna

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.1.2013 kl. 23:20

16 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Theódór, til að leiðrétta ákveðin misskilning, þá er ég ekki að fara að hella mér út í pólitíkina. Hún er ekkert sérstaklega heillandi vettvangur. Fyrir nokkru síðan dró ég framboðið til baka. Ég geri ráð fyrir að það komist til skila hjá þér, ég hef ekkert verið að upplýsa Hilmar Hafsteinsson um það enda efast ég um að hann skildi það.

Það var óskað eftir því að ég gæfi kost á mér til formennsku í verkalýðsráði Sjálfstæðisflokksins, ég var kosinn og það er mun betri kostur en að sitja á þingi. Ég get þá verið frjálsari, á sjónum hvíli ég mig oft á pólitíkinni.

Ef ég þoli illa andstæðar skoðanir, hvernig stendur þá á því að ég hef opið athugasemdarkerfið og leyfi öllum að tjá sig? Í okkar samræðum höfum við oft verið á öndverðum meiði enda höfum við mjög ólíla sýn á stjórnmálin.

Þú segir að þér þyki leitt að sjá skrif manna sem tekið hafa ástfóstri við Sjálfstæðisflokkinn og finnur stundum þörf fyrir að bregðast við mínum skrifum. Mér finnst hinsvegar ekkert leiðinlegt að sjá skrif fólks, þar sem það dásamar vinstri stjórnina. Ég skil að fólk hefur ólíkar skoðanir og aðrar skoðanir stuða mig ekki neitt. Ég skal hinsvegar viðurkenna að mér hefur fundist þú og fleiri ekki nógu nákvæmir til að hægt sé að rökræða af alvöru, þ.e.a.s. komið með einhver raunveruleg dæmi sem hægt er að bregðast við. Rökræður um huglægt mat og getgátur finnast mér leiðinlegar.

En til að sanngirni sé gætt Theódór minn, þá þarf mín upplifun ekki endilega að vera sú eina sanna. Þú upplifir þín rök skotheld og mín ekki nógu góð, mín upplifun er á öndverðum meiði. Ég kem aldrei með athugasemdir á síður minna pólitísku andstæðinga af þessari ástæðu, ég nefnilega þoli illa þras og get þá orðið pirraður. Þess vegna hef ég aldrei frumkvæði að slíku. Ég veit að ef ég kem með komment á síður vinstri manna, þá finnst mér ég hafa rétt fyrir mér, en þeir upplifa það á annan hátt.

Pólitískar skoðanir eru hluti af persónuleika hvers og eins og það er algjörlega vonlaust að breyta skoðunum fólks, séu þær orðnar að sterkri sannfæringu. En ég þoli mjög vel allar skoðanir mér leiðist bara að þræta mikið um þær, það skilar engu.

Jón Ríkharðsson, 10.1.2013 kl. 23:33

17 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir þína athugasemd Marteinn, tek undir hvert orð.

Jón Ríkharðsson, 10.1.2013 kl. 23:35

18 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Anna mín, vitanlega færð þú að tjá þig á þessari síðu eins og allir aðrir, tja nema að mönnum þyki sniðugt að kveikja í mér, þótt það sé á Þingvöllum. Það þykir mér andstyggilegt og þess vegna bannaði ég Hilmar Hafsteinsson en það stoðar víst lítið. Hann elskar að hata mig og kemur stöðugt aftur á nýrri og nýrri ip tölu.

Þú og fleiri afsannið þessar kenningar um að ég kunni ekki við andstæðar skoðanir og gagnrýni við mín skrif. Vertu velkomin hvenær sem er Anna mín og þið öll, já jafnvel Hilmar Hafsteinsson líka, á meðan hann sleppir að tjá sig um fantasíuna sína, varðandi það að grilla mig á Þingvöllum. Hann má gjarna halda henni fyrir sig.

Jón Ríkharðsson, 10.1.2013 kl. 23:40

19 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk vinur og verum sammála um að vera kannski alltaf sammala!

Svona ofbeldi sem þú lýsir dæmir sig sjálft og er lágkúra og glæpur! Tek aldrei undir svoleiðis "umræður" enda eru þetta "tabarar" (þeir sem tapa alltaf, eins og sonur minn segir).

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.1.2013 kl. 00:19

20 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Jón Ríkharðsson.

Ég átta mig ekki alveg á þessari færslu þinni.

Þú segir undir lok hennar;

Lokum á verstu netdónanna og berjumst fyrir bættri umræðu í þjóðfélaginu,....

Í athugasemd svarar þú svona;

Ef ég þoli illa andstæðar skoðanir, hvernig stendur þá á því að ég hef opið athugasemdarkerfið og leyfi öllum að tjá sig?

Þú hvetur til bættrar "umræðuhefðar" en líður samt í sömu andrá, á eigin bloggi, að menn og flokkar eru kallaðir helsjúkir ræflar og úrhrakslýður, svo vitnað sé í athugasemdirnar hér að ofan.

Er þessi færsla ekki bara píp upp í vindinn hjá þér?

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.1.2013 kl. 00:42

21 identicon

Formaðurinn í verkalýðsóráði SjálfstæðisFLokksins hefur sannarlega séð ljósið:

"Sjálfstæðisstefnan boðar engin átök, boðskapur hennar er frelsi og velmegun öllum til handa. Hægt er að deila um hvernig til hefur tekist, en sáttin virkar betur en sundurlyndisfjandinn sem eyðileggur allt.

Hægt er að skoða sögu lýðveldistímans, sjálfstæðismenn náðu að halda ríkisstjórnum saman og sætta ólík sjónarmið.

Við getum endalaust deilt um efnahagsstjórn allra flokka, allir hafa þeir gert mistök en Sjálfstæðisflokkurinn staðið sig best."

Í hvaða veruleika er Jón Ríkharðsson staddur? Þessi barnalegi blámaður virðist halda að Íslendingar kikni í hnjáliðunum þegar hann hefur upp raust sína (á landsfundi FLokksins) og boði bjarta tíð með blámenn í haga.

Þegar menn berja í borðið og benda honum á ruglið grípur hann til gömlu þekktu vinnubragðanna hjá FLokknum, hótanna og lyga.

Hilmar Hafsteinsson 11.1.2013 kl. 01:32

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jón, ég sagði það áður að þú lokar almennt ekki á menn og því skil ég ekki til hvers þú ert að tvítaka að athugasemdakerfið sé (að mestu) opið. Það sem ég á við að þú bregðist illa við öndverðum skoðunum er að það er eins og þú verðir pirraður. Enda kallarðu það þras í síðasta innleggi þínu. Mér finnst það ekki þras að skiptast á skoðunum nema útséð sé með að viðræðuaðilar nái ekki inn á sameiginlega bylgjulengd. Þegar ég sé það hætti ég yfirleitt, þú getur alveg séð það ef þú skoðar okkar orðaskipti undanfarið ár eða svo. Það er reyndar mjög langt síðan ég hef komið hingað inn þó mér hafi oft fundist ástæða til, þannig að það ætti að vera ljóst að ég er ekki að leita mér að þrasi.

Hvað áttu við að ég sé ekki nógu nákvæmur og taki ekki dæmi? Er ekki nóg að benda á það sem hefur gerst í þessu landi undir stjórn Sjalla, sem hafa farið með a.m.k. 60-70% valdataumanna og flest lykilráðuneytin? Er það ekki rök eða dæmi að benda á að Davíð Oddsson, formaður flokksins þíns í 13 ár og að mati margra ennþá formaður á bak við tjöldin, hafi verið settur á lista virts tímarits yfir þá 25 menn í heiminum sem mestu gerendur í efnahagskreppu Vesturlanda?

Það er þetta sem ég á við þegar ég segi að þú takir því ekki vel að vera andmælt (þó þú lokir ekki á viðkomandi eins og sumir skoðanabræður þínir), þú virðist ekki skilja þau rök og dæmi sem maður nefnir, eða afneitar þeim, t.d. með þeirri afsökun að FLokkurinn hafi aldrei verið einn í stjórn. Eins og Davíð Oddsson hafi verið maður sem lætur hrekja sig fram og til baka, við vitum flest betur.

Ég get reyndar ekki séð að þú nefnir sjálfur neinar heimildir eða dæmi um það þegar þú fullyrðir hvað eftir annað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið sig allra best.

Jón minn, ég ætla mér ekki að vera daglegur gestur hér, en þú verður að vera viðbúinn að þola að því sé andmælt að sá flokkur sé langbestur sem réði hér flestu þegar allt hrundi svo hressilega að sjúkrahús landsins eru þannig að ástandið er orðið lífshættulegt mjög veikum sjúklingum vegna úreldingar tækjabúnaðar og gríðarlegs álags starfsfólks. Á sama tíma og þekktir og yfirlýstir sjálfstæðismenn rökuðu til sín milljónum og milljörðum, létu gríðarlegar skuldir falla á almenning og sitja jafnvel enn á gulli sínu. Í þessum hópi eru nokkir þingmenn flokksins þíns og einn fyrrverandi ráðuneytisstjóri, sem er reyndar sem betur fer kominn í grjótið. Þú verður að gera þér grein fyrir því að svona afstaða eins og þú hefur, vekur reiði margra.

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 04:31

23 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sæll Svanur, þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þú áttar þig ekki á mínum færslum.

Á meðan flestir virðast átta sig á þeim, amk. koma ekki fleiri og segja það sama og þú, þá hef ég lítið við því að segja.

Það er ekkert óalgengt að menn skilji ekki hvern annan.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 05:53

24 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þú verður þá að benda á tímaritið sem sagði þetta Theódór. Það var jú virt tímarit, árið 2009, sem þetta kom fram í og mig minnir að það hafi verið lesendadálkur sem fann þetta út.

Amk hafa ekki mörg blöð fjallað um þetta og varla teljast þetta vísindalegar niðurstöður.

Ég get þegar ég hef tíma oig hafir þú áhuga, bent á fjölmargar færslur sem ég hef vitnað í heimildir máli mínu til stuðnings.

Fyrrverandi ráðuneytisstjórinn sem þú vitnar til, ekki hefur komið fram að hann hafi rakað til sín milljónum á óheiðarlegan hátt. Voru þetta ekki hlutabréf í banka sem hann keypti, heiðarlega, og seldi svo á þeim tíma sem talið var að hann hafi búið yfir innherjauplýsingum? Hann var semsagt ekki dæmdur fyrir að hafa fengið peninga með ólögmætum hætti, heldur vegna þess að hann seldi á réttum tíma og hafði betri aðgang að upplýsingum en aðrir. Það er þetta sem ég á við með ónákvæmnina hjá þér, hvar kemur fram að Baldur Guðlaugsson hafi látið gríðarlegar skuldir falla á samfélagið, þú nefndir hann í þessum hópi.

Svo hef ég margoft vitnað í bls. 58 í 1. bindi rannsóknarskýrslunnar, þar sem sagt er frá hinu óeðlilega ástandi sem ríkti í fjármálaheiminum til að rökstyðja þá skoðun mína að óeðlilegt sé að kenna sjálfstæðismönnum um hrunið. Landsdómur var settur og mál Geirs H. Haarde voru rannsökuð, það gat enginn sagt hvað hefði átt að gera, á þessum tíma þar sem græðgin réði ríkjum. Svo hef ég líka í nokkur skipti vitnað í bók Illuga Jökulssonar "Ísland í aldanna rás 20. öldin", en þar koma yfirburðir Sjálfstæðisflokksins víða í ljós, ég hef bókina ekki fyrir framan mig, en ef þú skoðar árið 1995 þá segir frá því að Davíð hafði svo mikið traust að mörgum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins líka svo vel hans stjórnarhættir að þeir treystu því að hann myndi ekki kollkeyra samfélagið.

Þú kemur greinilega ekki mjög oft í heimsókn á þessa síðu og missir augljóslega af því þegar ég vitna í heimildir.

Ef menn verða reiðir útaf mínum skoðunum, þá get ég ekkert gert í því. Ég mun halda áfram að túlka mína sannfæringu og það stoppar mig enginn í því.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 06:07

25 Smámynd: Jón Ríkharðsson

En Svanur, svona til að reyna að útskýra málið fyrir þér, en það hefur oft reynst mér snúið í okkar samskiptum, þá finnst mér meinlaust að tala um helsjúka ræfla og úrhrakslýð, ég átti við meiðandi persónuleg ummæli eins og ég tók dæmi um, þegar maður kvað það sniðugt að grilla mig á þingvöllum.

Ég er vanur grófu og sterku orðalagi, það kemur ekkert við mig en komi margir fram með sömu skoðun og þú, þá tek ég tillit til þess. En ég nenni ekki að eltast við hverja einustu skoðun sem menn hafa á mínu bloggi, það kemur ekki til greina.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 06:12

26 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Anna mín, þetta er vel orðað hjá syni þínum, enda sýnast mér þessir menn ekki líklegir til afreka.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 06:13

27 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hann var semsagt ekki dæmdur fyrir að hafa fengið peninga með ólögmætum hætti, heldur vegna þess að hann seldi á réttum tíma og hafði betri aðgang að upplýsingum en aðrir.

Þetta er gott dæmi um afneitunina hjá þér. Að versla í skjóli innherjaupplýsinga er jafngilt því að fá fé með ólögmætum hætti. Ef það væri ekki ólögmætt, hefði ekki verið hægt að kveða upp dóminn sem var kveðinn upp gegn Baldri. Það er ekki hægt að dæma menn fyrir að selja á réttum tíma og hafa betri aðgang að upplýsingum en aðrir, annars væri ég á leið í fangelsi, þar sem ég er í skóla.

En vertu sæll og lifðu áfram í þinni afneitun, ég er hættur að tjónka við þig.

Theódór Norðkvist, 11.1.2013 kl. 08:07

28 identicon

Orð í tíma töluð.  Það að taka þátt í skynsamlegri orðræðu krefst þroska, greindar og yfirvegunnar.  Ótrúlega margir hafa ekkert af þessu.

H.T. Bjarnason 11.1.2013 kl. 10:46

29 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta eru átök þarna Jón Ragnar vinur minn,við höldum okkar þema ótrauðir,og svörum réttlátum aðfinnslum en ekki ruddalegum skömum og svörum sem meiða menn,við höfum valdið sjálfir!!!!ekki spurning,við eigum ekki að gjalda mistökin í flokknum viljum báðir bæta hann og það vilja flestir!!!en sumum er ílla við það!!!!!/Kveðja P/S en megum eiinig deila á þessa fugla sem eru að koma landinu okkar á hausinn!!!!sami!!!!!!!

Haraldur Haraldsson, 11.1.2013 kl. 10:53

30 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Já Jón, eins og mig grunað er þetta bara píp upp í vindinn hjá þér. Gangi þér vel með það.

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.1.2013 kl. 12:34

31 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það finnst mér góð hugmynd hjá þér Theódór og endilega stattu við það, það þýðir ekki að tjónka við mig, ég kemst aldrei á þína skoðun.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 15:18

32 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka góðar óskir Svanur Gísli, þú hættir þá væntanlega að lesa mín skrif, enda gera þau þér greinilega ekkert gott.

Ég les bara það sem mér finnst gott og gefandi, ég held að það sé farsælast. Kíki reyndar stundum á síður sem mér þykja leiðinlega, það er svona til að átta mig á umræðunni, en að mér detti í hug að kommentera, það kemur aldrei til greina.

Ég hef aldrei skilið þessa áráttu að þurfa að láta menn vita hvað þeir eru vitlausir eða skrítnir. Engin dæmi þekki ég sem benda til þess að svoleiðis ábendingar hafi virkað, það býr í versta falli til illindi og í besta falli virkar það ekki neitt.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 15:22

33 Smámynd: Jón Ríkharðsson

H.T Bjarnason, þetta er allt hárrétt hjá þér og engu við það að bæta.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 15:23

34 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta kalla ég ekki átök Halli minn, menn eru bara að segja sínar skoðanir. Við gjöldum vissulega fyrir mistökin í flokknum okkar og ekkert við því að gera. Við vinnum að því að bæta hann í sameiningu.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 15:26

35 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Jæja Hilmar Hafsteinsson, þú hefur á fengið að segja þitt síðasta á þesari ip tölu. Mér finnst þú satta að segja afskaplega leiðinlegur og nú loka ég aftur á þig.

Ég vildi sjá hvort athugasemdir þínar vektu einhver viðbrögð, en einu viðbrögðin sem ég sé eru svipuð og mín. Ég er ekki einn um að finnast þú afskaplega leiðinlegur, flestir hunsa þig og ég geri það líka.

Gangi þér svo vel að finna nýjar ip tölur og ég óska þér góðs gengis í barnakennslunni. Vonandi ertu kurteisari við börn og foreldra í skólanum sem þú kennir við.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2013 kl. 15:29

36 Smámynd: Marteinn Sigurþór Arilíusson

Ef það er rétt að þessi Hilmar Hafsteinsson sé kennari er spurning hvort þartilgerð yfirvöld ættu ekki að skoða manninn.Það er greinilega eitthvað mikið að hjá honum.

Marteinn Sigurþór Arilíusson, 11.1.2013 kl. 19:21

37 identicon

Komið þið sæl; sem fyrr !

Matti; forni félagi (kl. 19:21) !

Þrátt fyrir; agnúa þá meinta, sem sumt fólk þykist finna, í fari Hilmars Þórs Hafsteinssonar, stórfrænda míns úr Eyjum, verð ég að játa, að fremur gæti Austur- Þýzkra STASI viðhorfa hjá þér - úr allsendis óvæntri átt, fornvinur góður.

Og annað Matti; hvaða ''þartilgerð yfirvöld'' áttu annarrs við, í því stjórnlausa glæparíki, sem Ísland er, Matti minn ?

Ríki; sem hæfði frekar Svartholum veraldarinnar - fremur en Sólkerfinu, að mér sýnist, allavega.

Með; þeim sömu kveðjum - sem öðrum fyrri /  

Óskar Helgi Helgason 11.1.2013 kl. 21:07

38 identicon

Komið þið sæl; enn - og aftur !

Hilmar Þór !

Þrátt fyrir; marga góða spretti þína, í gegnum tíðina, hefir þú málað þig út í horn, að langmestu leyti, frændi.

Hið versta þykir mér; að þú skulir ekki geta hamið ólund þína, út í þá Jón síðuhafa - svo og Martein fornvin minn, frá Stokkseyri; þér, að segja.

Þeir; eru ekki þeir einu, því miður - sem ENNÞÁ telja Sunn- Mýlzka óbermið, Davíð Oddsson til einhvers konar 1/2 Guðs, Hilmar frændi.

Þar; eiga þeir vitaskuld báðir, ærið margt ólært - um siðferði - siðfræði, sem og almenna siðmenningu, reyndar / Jón, og Matti.

Allar götur frá því; að þessi bölvaldur - Davíð Oddsson, var hafinn upp til skýjanna, af þessum dapurlega frjálshyggju söfnuði sínum, Vorið 1991, þar sem honum dugðu víst ekki vegtyllur Borgarmeistara (Borgarstjóra) Reykjavíkur, sá ég út undan mér, hvað í vændum kynni að verða - sem og varð; ekki sízt í ljósi þess, að aðrir tveir höfuðglæpamenn, síðari hluta 20. aldarinnar - Jón Baldvin Hannibalsson, sem og Halldór Ásgrímsson, náðu undir eins, þeim samhljómi við Davíð, sem orsakaði það allt, sem til leiddi, Haustið 2008.

Það; er ómótmælanleg staðreynd - þó huglægur KúKlúxKlan lýðurinn íslenzki, fáist seint til þess, að viðurkenna það.

Þeir; Jón síðuhafi - sem og Marteinn Sigurþór, eru þeim árunum yngri en ég, að árum, að ég vil fyrirgefa þeim báðum, þekkingarleysi þeirra, á raunverulegri þróun mála; hérlendum, á síðari hluta 20. aldar - til byrjunar þeirrar 21.

Davíð Oddsson; er okkur jafn mikill viðbjóður - sem Pol Pot reyndist hinum ágætu Kambódíumönnum á sínum tíma, gott fólk.

Þar um; ei meir að tala - eins og Jón heitinn Indíafari Ólafsson hefði orðað það, á hverjum kaflaskilum Reisubókar sinnar, forðum.

Sízt lakari kveðjur; þeim öðrum fyrri - og áður / 

Óskar Helgi Helgason 11.1.2013 kl. 22:00

39 identicon

Sýndu mér vini þína, Óskar Helgi Helgason, og ég skal segja þér hver þú ert!

Ef þú ert þeirrar gerðar að vilja fyrirgefa FLokksdónunum Jóni Ríkharðssyni og Matta Ára himinhrópandi "þekkingarleysi þeirra á raunverulegri þróun mála, hérlendum, á síðari hluta 20. aldar - til byrjunar þeirrar 21." (og reyndar á sagnfræði almennt) þá er þér frjálst að sýna mannvitsbrekkunum meðvirkni.

Það hefur aldrei borgað sig fyrir Íslendinga að láta FLokkinn stýra þjóðarskútunni. Skipið hefur komið misjafnlega laskað úr þeim hremmingum og síðasta sigling þjóðníðinganna endaði með þjóðarstrandi.

Hilmar Hafsteinsson 12.1.2013 kl. 10:11

40 Smámynd: Marteinn Sigurþór Arilíusson

Sæll Óskar það sem ég átti við með þartilgerðum yfirvöldum var að í hverjum skóla hljóta að vera einhverjir sem ráða kennara til starfa Og þessir sömu aðilar hljóta að eiga að meta hvort kennararnir séu starfi sínu vaxnir.Og miðað við hvernig Hilmar Hafsteinsson hagar sér á blogginu er hann ekki hæfur til að kenna börnum.Og ég held að Davíð Oddson komi því máli ekkert við.Með bestu kveðjum frá ströndinni.

Marteinn Sigurþór Arilíusson, 12.1.2013 kl. 10:16

41 identicon

Eftirfarandi greining á mestu meinsemd Íslands er eins og sniðin fyrir hægri kristna öfga rasista eins og Jón Ríkharðsson og skoffínið Matta Ára:

"Frá stofnun árið 1929 hefur FLokkurinn átt þátt í 22 ríkistjórnum af 31 sem myndaðar hafa verið. FLokkurinn hefur státað af glæstri efnahagsstjórn og skilgreint sig sem vörð frelsis og fullveldis. Á landsfundi árið 2007 sagði formaður FLokksins og forsætisráðherra, Geir Haarde, að undir sextán ára stjórnarforystu FLokksins hefði tekist „að styrkja efnahagslegu stöðu þjóðarinnar með þeim hætti að aðdáun hefur vakið víða um heim. Þau viðfangsefni sem við glímum nú við í efnahagsstjórninni hér á landi þættu flestum öðrum ríkjum öfundsverð [...] Ísland er orðið það sem við sjálfstæðismenn lofuðum - land tækifæranna“. Á innan við tveimur árum hafa þessi orð snúist upp í algjöra andstæðu sína. Engum dylst að Sjálfstæðisflokkurinn er sá stjórnmálaflokkur sem mesta ábyrgð ber á þeirri óvissu sem nú hrjáir íslenska þjóð. FLokkurinn hringsnýst sem vindhani á bjálka þar sem stefna hans og hugmyndafræði við hagstjórn landsins og í Evrópumálum hefur hrunið. Og „vindhanar verða aldrei áttavitar, hvorki til sjós né lands“, svo vitnað sé í orð Davíðs Oddssonar á þingi Verslunarráðs árið 2001."

(http://www.evropa.is/2008/11/29/hid-fullvalda-lydveldi-island/)Ath. Höfundur, Úlfar Hauksson, er stundakennari og doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands

Hilmar Hafsteinsson 12.1.2013 kl. 10:21

42 identicon

Komið þið sæl; sem jafnan - og áður !

Kær fornvinur minn; Matti !

Ætíð; hefi ég metið einurð þína - sem samkvæmni alla, síðan við kynntumst niður á Stokkseyri sem ungir drengir, en vita skaltu, sem allir aðrir landsmenn, að Davíð Oddsson er eitthvert hið skelfilegasta meinvarp, sem til Íslandssögunnar má telja, og hefir hann eitrað og gegnsýrt okkar samfélag ALLT; skólastarf dreifbýlis, sem þéttbýlis einnig, Matti minn - sem á öllum öðrum sviðum þjóðlífsins.

Þess vegna; meðal annarrs, vísa ég hiklaust austur til Kambódíu, til tíma skeiðs Pols Pot, og hans manna - og víðar jafnvel, fornvinur góður.

Þar í; liggja mín sjónarmið, að sönnu.

Læt mig hlakka; til næstu Kaffi samverustundar okkar, niður við ströndina, að sjálfsögðu, ágæti drengur.

Hilmari frænda mínum; vil ég benda eindregið á, að ekki hyggst ég í neinu draga úr snörpum árásum á þann flokks fjanda, sem mengað hefir og spillt - með liðsinni hinna 3ja flokka skriflanna, svo; einnig fram komi hér, aldeilis.

Og Hilmar; vita skaltu, að þú skaust langt niður fyrir beltisstað, með því að skimpast að voðaatburðunum á Þingvöllum. þann 10. Júlí 1970. Þeim ógnar degi gleymi ég aldrei, þó svo aldrei hafi ég verið aðdáandi Bjarna Bnendiktssonar eldra - fremur en; þess yngra, í okkar samtíma, því síður.

Ekkert síðri kveðjur; þeim fyrri - og áður /

 

Óskar Helgi Helgason 12.1.2013 kl. 13:23

43 Smámynd: Elle_

Eg bjóst ekki við að heyra frá Theódóri að það væri fyrst núna að eitthvað réttlæti væri að ná fram að ganga í þjóðfélaginu, þó ég hafi oft verið sammála honum (mest gegn kúguninni ICESAVE), eins og nokkrum öðrum að ofan. 

Hvað sem flokkar gerðu einu sinni, hefur ekkert nema ofbeldi og ranglæti náð fram að ganga undir stjórn hins hroðalega Jóhönnuflokks, og Steingríms og nokkurra hans forherðinga.  Núna eru alvöru gerendur ranglætis við völd.  Gerendur sem við munum væntanlega losna við alveg á næstunni.

Elle_, 12.1.2013 kl. 15:55

44 Smámynd: Jens Guð

  Ég kann vel við tóninn í bloggfærslunni.  Sjálfur er ég fæddur og uppalinn í Sjálfstæðisflokknum í Hólahreppi í Skagafirði.  Pabbi var þar oddviti.  Í svo fámennu og nánu samfélagi var ekki svigrúm fyrir hatrammar flokkspólitískar deilur.  Allir þekktu alla og tengdust meira og minna fjölskylduböndum.  Umræða um pólitík var alltaf á vinsamlegum nótum.  Hvar menn stóðu í afstöðu til stjórnmálaflokka hafði í ekki mikil áhrif á viðhorfa til skólaaksturs,  sundkennslu (á Sauðárkróki), prósentuútsvars og svo framvegis.  Besta vinafólk minna foreldra og fjölskyldu var bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins á Sauðárkróki,  Stefán heitinn Guðmundsson, forstjóri ÁTVR á Sauðárkróki. 

  Það var alveg nýtt fyrir mér þegar ég fór að taka þátt í pólitík í Reykjavík þessi svokallaða átakapólitík.  Ég gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn (og núna Dögun).  Í millitíðinni var ég reyndar um tíma langt til vinstri er ég vann í Straumsvík og tók þátt í verkalýðsbaráttu þar.  En átakapólitík er vont fyrirbæri.  Mér hugnast betur að taka þátt í pólitískri umræðu þar sem fólk ræðir saman án upphrópanna og bara spjallar saman af vinsemd án þess að reyna að kaffæra viðmælandann í orðhengilshætti.  Hvar í flokki sem menn standa þá má ætla að flestir séu með von um að bæta samfélagið.  Okkur öllum til góðs þegar upp er staðið.  Okkur greinir á um leið að markmiðinu.  En fæst okkar hafa alltaf rangt fyrir okkur.  Við höfum gott af því að heyra rök þeirra sem við erum fyrirfram ekki sammála.  Hlustum á rök hinna,  setjum okkur í þeirra spor.  Kannski verðum við ekki sammála.  En kannski er gott að heyra önnur sjónarmið og hugsanlega er besta leið að mætast á miðri leið?  

Jens Guð, 12.1.2013 kl. 23:05

45 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég tek undir það sem þú segir Elle, þetta kemur svolítið á óvart að hann skuli hrósa ríkisstjórninni, eftir Icesave.

En það er í lagi að hafa sínar skoðanir og Théódór má það eins og aðrir.

Jón Ríkharðsson, 13.1.2013 kl. 00:14

46 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir þína athugasemd Jens og það er best að ég upplýsi það, að ég kannast við þá stemmingu með þú lýsir úr Skagafirðinum. Ég er giftur frænku þinni, hún er sonardóttir Guðmundar í Hlíð, dóttir Jóa.

Ég veit að Guðmundur heitin var framsóknarmaður ogmpabbi þinn sjálfstæðismaður, þeir voru alltaf góðir vinir þrátt fyrir ólíkar skoðanir á pólitík, en í þeirra tíð var ekki gott á milli þesarra tveggja flokka.

Ég hef ekki komist á ættarmótin hjá ykkur síðan árið 2001, ég er oftast úti á sjó. En á því ættarmóti átti ég gott samtal við foreldra þína, sannarlega elskulegt fólk.

Ég er semsagt kvæntur Katrínu dóttur Jóa frá Hlíð. Að sjálfsögðu eigum við að geta sýnt hvert öðru velvild þótt við séum ekki sammála í pólitík. Ég efast um að þú finnir eitt dæmi, þar sem ég veg að pólitískum andstæðingi að fyrra bragði, það geri ég aldrei. En svara fyrir mig ef að mér er vegið.

Jón Ríkharðsson, 13.1.2013 kl. 00:21

47 Smámynd: Jens Guð

  Jón,  þetta eru skemmtilegar fréttir:  Að þú sért tengdasonur Jóa frá Hlíð.  Þess frábæra frænda míns.  Á mínum uppvaxtarárum var náinn samgangur á milli Hlíðar og Hrafnhóls.  Stutt var á milli bæja,  systir afa bjó í Hlíð og ég og mín elstu systkini vorum á svipuðum aldri og Gunna og Magga í Hlíð.  Við fylgdumst að í skólagöngu í gegnum barna- og gagnfræðiskóla.  Til að mynda vorum við Gunna samtímis í heimavistarskóla á Steinsstöðum.  Það var alltaf sterkur frændsyskkina kærleikur á milli okkar.  

  Ási og Jói eru töluvert eldri.  En það er ekki langt síðan við mamma rifjuðum upp að þeir bræður fluttir suður til Reykjavíkur komu aldrei í Hlíð öðru vísi en heilsa upp á okkur í Hrafnhóli í leiðinni.

  Guðmundur í Hlíð sat í hreppsnefnd Hólahrepps sem fulltrúi Framsóknarflokksins.  Það kom aldrei upp ágreiningur á milli þeirra pabba um eitt einasta atriði á hreppsstjórnarfundum.  Enda voru þeir góðir vinir og náfrændur.  Vissulega veltu þeir stundum fyrir sér hvenær eða hvort ætti að ráðast í þessi eða hin verkefni sveitarfélagsins.  Það var alltaf rætt á vinsamlegustu nótum án átaka.  Enginn reyndi að valta yfir annan.  Allar ákvarðanir voru teknar í fullri sátt við öll sjónarmið í fullri vinsemd.

  Þú ert lukkunar pamfíll að eiga Jóa frá Hlíð sem tengdaföður.  Það eru ekki mjög mörg ár síðan ég átti samtal við konu sem vann hjá honum.  Hún dýrkaði hann.  Sagði alla á vinnustaðnum elska hann.  Það kom mér ekki á óvart.  Áður sá ég um auglýsingar og markaðsmál fyrir tengdaföður hans.  Sá var af annarri kynslóð og erfiður um margt.  Ég þurfti að stimpla mig inn í sérstaka stemmningu til að mæta kallinum á hans línu.  Það tókst alveg vel þegar ég áttaði mig á hans töktum.  En hann hefði ekki átt upp á pallborð í samráðspólitík.  Engu að síður skemmtilegur náungi þegar maður hafði áttað sig á honum.

Jens Guð, 13.1.2013 kl. 08:44

48 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Get tekið undir það Jens, ég er mjög heppinn með tengdaföður, Jói er sérstakt góðmenni og öll hans systkini. Einnig náði ég að kynnast Guðmundi heitnum frá Hlíð, alveg sérstakur maður, svo ljúfur og blíður.

Eins og ég sagði í síðustu athugasemd, þá hitti ég þína foreldra árið 2001, á ættarmótinu og átti gott spjall við þau. Pabbi þinn flutti skemmtilega ræðu og hann var ansi orðheppinn og góður húmoristi.

Ég held að bloggarar og hinir virku í athugasemdunum gætu lært margt af frændunum úr Hjaltadal. Þeir höfðu ólíkar stjórnmálaskoðanir en kunnu þá list að virða skoðanir annarra. Ég er kvæntur inn í góða fjölskyldu, við höfum reynt að fara amk. einu sinni á ári norður á Sauðárkrók og dvalið ýmist hjá Möggu eða Gunnu og þar er engum í kot vísað eins og þú veist.

Það skrítna er með hann Davíð sáluga, að við náðum alltaf mjög vel saman, frá fyrstu tíð. Flestir í fjölskyldunni báru mjög mikla virðingu fyrir honum og það virtust allir hálf þvingaðir nálægt honum.  Ég hef alltaf verið hreinskilinn og opinn, skaut einhverju á kallinn í gríni, í einum að fyrstu skiptunum sem við hittumst, allir svitnuðu en sá gamli tók því mjög vel. Við gátum fíflast með allt mögulegt, en hann var ekki allra, það veit ég. Mér er hinsvegar alltaf hlýtt til hans, eflaust vegna þess að hann hleypti mér nær sér en mörgum öðrum, af einhverjum ástæðum sem ég ekki skil.

Jón Ríkharðsson, 13.1.2013 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband