Nokkrar staðreyndir um sjómenn.

Sjómannastéttin hefur stundum verið sveipuð ákveðnum ævintýraljóma, ástsælustu söngvara þjóðarinnar hafa sungið um menn sem njóta þess að takast á við hafið, standa í stormi og stórsjó og vinna sitt göfuga starf í þágu lands og þjóðar, margir hafa talað um "hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar". Einnig hafa fjölmiðlar oft slegið fram feitletruðum fyrirsögnum þar sem rætt er um allar þær milljónir sem sjómenn eru að þiggja í laun fyrir tiltölulega stuttan tíma.

Þetta sem sungið er um ber að líta á sem ævintýrasöngva, því þrátt fyrir áratugasjómennsku, þá hef ég aldrei vitað til þess að nokkur maður njóti þess að vera í brjáluðum veltingi og látum úti á reginhafi langt frá fjölskyldu og vinum.

Allavega hefur mér aldrei þótt gaman af að vera í svona látum þótt ég sé í þessu starfi og hafi verið ansi lengi. Sjómenn eru eins og aðrir menn, okkur þykir vænt um okkar fjölskyldur og vini og viljum gjarna njóta mikilla samvista við okkar fólk.

En við veljum þetta sjálfir og hvers vegna?

Vegna þess að við höfum möguleika á því að þéna vel, en það er alls ekki án fyrirhafnar.

Þau skip sem eru að koma með mikinn afla að landi t.a.m. frystitogarar hafa menn innanborðs sem eru búnir að vinna mikið án þess að fá einn frídag í 5-6 vikur og oft hafa þeir staðið margar frívaktir að auki. Þessir peningar koma svo sannarlega ekki af sjálfu sér og menn hafa unnið vel og mikið fyrir hverri einustu krónu.

Til þess að geta verið til sjós þurfa menn að temja sér ákveðna hörku. Sjómenn sem lesa þetta eru mér örugglega sammála.

Í landi getur fólk hringt inn veikindi ef það fær flensu, úti á sjó er það ekki í boði.

Það er ekki vegna mannvonsku, heldur er þetta það erfið vinna að hver hönd skiptir máli, ef það fækkar um einn á vakt, þá leggst mikið aukaálag á hina. Þess vegna verða menn að harka af sér og bíta duglega á jaxlinn.

Svo eru það launin.

Þau fara eftir verði á mörkuðum og því aflamagni sem veiðist hverju sinni. Það er aldrei á vísan að róa. Menn geta haft góðar tekjur, jafnvel himinháar í sumum tilfellum.

Um leið og verð á mörkuðum lækkar, gengið verður mjög sterkt eða veiðin minnkar , þá verða þessir sömu menn að þola mikla tekjuskerðingar.

Hvers vegna er enginn skipstjóri í hópi ríkustu manna landsins, en þeir hafa tvöfaldan hlut, ef launin eru alltaf svona góð eins og margir halda?

Á síðustu árum fyrir hrun þá var gengið mjög hátt skráð. Á þessum tíma var nær ómögulegt að manna fiskiskip og þeir sem komu um borð voru oft algerlega gagnslausir og jafnvel hættulegir sjálfum sér og öðrum.

Úti á sjó getur ein hugsun eða hreyfing oft skilið á milli lífs og dauða. Þess vegna þarf flotinn að vera mannaður af þjálfuðum og reyndum sjómönnum. Þeir láta ekki bjóða sér lág laun ef það er hægt að hafa það betra í landi.

Það vilja nefnilega flestallir menn vera á þurru landi með sinni fjölskyldu.

En menn eru tilbúnir til að leggja mikið á sig fyrir góð laun, þess vegna þarf að borga hærri laun til sjómanna heldur en þeirra sem vinna í landi, til að hægt sé að manna skipin á sómasamlegan hátt.

Allavega meðan sjávarútvegurinn vegur enn svona þungt í útflutningi landsins.

.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Mikið er þatta rétt hjá þér Jón, og svo má ekki gleyma olíunni sem við þurfum að taka þátt í. Ég er búinn að vera 28 ár á sjó en er nú kominn í land og á eftirlaun svo ég veit að þetta er rétt hjá þér. Gangi þér vel.

Eyjólfur G Svavarsson, 3.10.2010 kl. 17:13

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég þakka þér fyrir innlitið Eyjólfur, ég vona að þú njótir þess að vera í landi og getir ræktað þín áhugamál og styrkt fjölskyldu og vinabönd.

Ég gleymdi þessu með olíukostnaðinn, vitanlega er fáránlegt að launþegar taki þátt í rekstrarkostnaði.

Mér finnst okkar sjónarmið vanta í þessa umræðu um ofurlaun sjómanna osfrv.

Ætli þeir sem gapa hæst um þessi mál skipti ekki um skoðun ef þeir lenda í því að taka trollið inn á öðrum endanum í brjáluðum stormi með sjóinn fossandi yfir sig og allt á fleygiferð, það er nefnilega ekki þægileg buna sem kemur yfir þessa dalla oft á tíðum. Einnig hefðu þessir einstaklingar gott af því að fara einn mettúr á frystitogara og koma í land vansvefta og þreyttir eftir fimm vikna stanslausa törn, þá finnst þeim örugglega kaupið ekki vera of hátt.

Jón Ríkharðsson, 4.10.2010 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband