Umræða í rulsflokki.

Ekki er það undarlegt, að hægt gangi að endurreisa samfélagið, þegar umræðan er illa ígrunduð og órökstudd. Hún samanstendur af gífuryrðum sem eru innihaldslaus með öllu.

Vissulega eru margir málefnalegir í umræðunni, en þeir fá lítinn hljómgrunn, því fólk er hrifnara af lyginni.

Þvættingurinn um Sjálfstæðisflokkinn er með ólíkindum.

Flokkurinn hefur vissulega verið lengi við völd og gert mörg mistök, en að segja hann spilltari en aðrir flokkar, það hefur aldrei verið rökstutt af neinu viti.

Við búum í litlu samfélagi, ættartengsl liggja víða og það veldur vissum vandræðum.

Það hafa allir flokkar tekið þátt í að hygla sér og sínum, en það er erfitt að sanna hvað hefur verið gert rangt í því efni og hvað hefur verið gert rétt. Um það eru deildar meiningar.

Allir flokkar hafa átt fulltrúa í sendiherrastöðum, oft einstaklingar sem virðast ekki hafa neina sérþekkingu á utanríkismálum. Þeir virðast hafa fengið þessar stöður á silfurfati, oft í skiptum fyrir ýmsar tilslakanir og málamiðlanir á hinum pólitíska vettvangi.

Allir þekkja hugarfar Samfylkingar á árunum fyrir hrun, það átti að efla fjármálastarfsemi til muna og útrásina líka. Sjálfstæðismenn eru ekki saklausir af því og ekki framsóknarmenn heldur.

Vinstri grænir eru að vissu leiti undanskildir, því sá flokkur hefur aldrei vilja að fólk græði.

Allir flokkar, að VG undanskildum  , tóku þátt, af fullum þunga, í að dásama bóluhagkerfið og dást að útrásarvíkingunum.

En hvað gerðu sjálfstæðismenn þegar allt hrundi?

Þeir ákváðu að skipa rannsóknarnefnd til þess að rannsaka það sem gerðist. Geir H. Haarde lagði til, að kosningum yrði frestað þar til rannsókn á aðdraganda hrunsins væri lokið.

Enginn hefur sagt með óyggjandi hætti að Geir sé óheiðarlegur maður, heldur þvert á móti.

Benda má á, að Steingrímur Joð sendi hann fyrir landsdóm "með sorg í hjarta", því hann áleit Geir vera heiðarlegt góðmenni.

Við þurfum mörgu að breyta hér á landi, en það gerist ekki með órökstuddum fullyrðingum og rifrildi, heldur með upplýstri umræðu, sem reyndar fáir íslendingar kunna.

Þeir einstaklingar úr háskólasamfélaginu sem fjölmiðlar leita til, í þeim tilgangi að upplýsa þjóðina, verða til þess, að sverta ímynd háskóla þessa lands all verulega.

Prófessorar sem hóta "Kúpu norðursins", segja að við förum á sama stað og Norður Kórea ef við samþykkjum ekki afarkosti Breta og Hollendinga, eru ekki marktækir í upplýstri umræðu.

Þeir minna um margt á kommúnista sem ég var með til sjós fyrir hartnær þrjátíu árum, en hann hataði sjálfstæðismenn svo mikið, að hann kvað Albert Guðmundsson aldrei hafa getað neitt í fótbolta, þetta er allt saman lygaáróður íhaldsins að hans mati.

Vissulega þurfum við að skoða allt með opnum huga, upplýsa um spillingu ef hún er til staðar, hvort sem um er að ræða Sjálfstæðisflokkinn eða aðra flokka.

En þá þarf að rannsaka mál með viðunandi hætti, en ekki draga ályktanir af fyrirsögnum blaða sem menn sjá snemma morguns, hálfsofandi eða taka mark á kjaftasögum sem settar eru fram til að þjóna pólitískum markmiðum spunameistara.

Aldrei hef ég t.a.m. efast um heiðarleik Jóhönnu og Steingríms, eingöngu rætt um vanhæfni þeirra og skort á vitsmunum. Það velur sér víst enginn gáfur þegar hann hefur sína vegferð í þessum heimi og vitað er, að þeim sem litlar gáfur hafa hættir oft til að ofmeta eigin getu.

Við þurfum að taka umræðuna úr ruslflokknum og fara að ræða málin á vitrænum nótum.

Öðruvísi breytist ekkert hér á landi, við verðum áfram föst í sömu hjólförunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband