Nokkrar staðreyndir um Sjálfstæðisflokkinn.

Þótt sumir leitist við að sannfæra sjálfa sig og aðra um það vafasama sjónarmið, að Sjálfstæðisflokkurinn sé rót alls ills hér á landi, þá tala staðreyndirnar sínu máli.

Enginn deilir þó um það, að í rúmlega áttatíu ára sögu flokksins hafa verið gerð mistök, en kosturinn er sá, að sjálfstæðismenn kannast við mistökin og vilja læra af þeim.

En vissulega er ekki hægt að útiloka það, að óheiðarlegir menn séu í Sjálfstæðisflokknum eins og í öllum öðrum flokkum.

Sjálfstæðisflokkurinn varð fljótlega jákvæður á að hafa hér á landi erlendan her. Það voru verulegar kjarabætur verkamönnum til handa og nauðsynleg viðbót við fábreytt atvinnulíf landsmanna á þeim árum. Vinstri flokkarnir mótmæltu hersetunni harðlega eins og allir vita.

Sökum velvilja sjálfstæðismanna í garð Bandaríska herliðsins, þá fengum við ríkulega Marshall aðstoð sem var veruleg búbót fyrir landið og skapaði fjölda starfa bæði til sjós og lands. Vinstri flokkarnir hefðu aldrei náð þessu, sökum afstöðu þeirra til herliðsins hér á landi.

Höft voru hér allsráðandi eftir að kreppan skall á, þau voru bæði íþyngjandi og sköpuðu talsverða spillingu. Sjálfstæðismenn stóðu vitanlega fyrir afnámi haftanna. Sumir vilja reyndar þakka Gylfa Þ. Gíslasyni það einum, en lesa má greinar eftir Ólaf Thors frá fjórða áratugnum, þar sem hann fordæmir bæði höft og ríkisrekið atvinnulíf, Jón Þorláksson talaði á sömu nótum.

Þó voru til sjálfstæðismenn, svo því sé til haga haldið, sem vildu höftin af ýmsum ástæðum, en formenn flokksins voru alla tíð andvígir þeim.

Svo var lagður grunnur að álveri í Straumsvík, vinstri menn voru á móti því, en fengu sem betur fer ekki að ráða í því máli.

Álverið braut blað í sögu verkalýðsmála, því íslenskir verkamenn höfðu aldrei haft eins góð laun og hlunnindi eins og þeir fengu í álverinu á sínum tíma. Nefna má einnig að álframleiðsla hefur veruleg áhrif á efnahag þjóðarinnar, bæði í formi útflutningstekna, skattgreiðslna og sköpun starfa, beinna og afleiddra.

Sjálfstæðisflokkurinn stuðlaði að EFTA samningum sem var veruleg búbót á sínum tíma og síðar að EES samningum. Sumir vilja eingöngu þakka Jóni Baldvin samninginn, en komið hefur fram hjá honum sjálfum, að Sjálfstæðisflokkurinn var sá eini sem vildi taka þátt í gerð hans á sínum tíma.

Svo má nefna, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn árið 1991, kom í kjölfarið eitt lengsta hagvaxtarskeið lýðveldistímans.

Ef litið er framhjá  hruninu, þá voru það vitanlega skattalækkanir til fyrirtækja sem urðu til þess, að það varð meira svigrúm fyrir þau til að hagnast. Í framhaldinu nutu launþegar hagnaðaraukningarinnar í formi hærri launa.

Mörgum vinstri manninum dettur eflaust í hug, að þakka vinstri stjórn Steingríms Hermannsonar fyrir lága verðbólgu og nefna "Þjóðarsáttina" frægu til sögunnar.

Þjóðarsáttin var ekki ríkisstjónrinni að þakka, heldur voru aðilar vinnumarkaðarins orðnir þreyttir á víxlhækkun vöru og kaupgjalds, ríkisstjórnin gerði lítið annað en að hlýða samtökum atvinnurekenda og launþega á þessum tíma.

Eins og í öllu stórum málum er þjóðina varða, þá átti Sjálfstæðisflokkurinn vitanlega hlut þar að máli, þótt hann hafi ekki verið í ríkisstjórn þá. 

Þjóðarsáttin var "stétt með stétt" í verki, samvinna allra stétta, en það er eitt af slagorðum Sjálfstæðisflokksins og sá sem fékk viðurnefnið "bjargvætturinn" í þjóðarsáttinni var vitanlega sjálfstæðismaðurinn góðkunni, Einar Oddur kristjánsson heitinn.

Ef einhver efast um ofangreindar fullyrðingar og telur þær einhverskonar áróðursbragð "náhirðarinnar", þá skal viðkomandi bent á ágæta bók sem skrifuð var af vinstri manninum Illuga Jökulssyni, en hún heitir "Ísland í aldanna rás 1900-2000" og ætti að vera aðgengileg á flestum bókasöfnum landsins.

Í þeirri bók kemur flest fram sem að ofan er ritað, sem betur fer þá eru ritaðar samtímaheimildir sem aðgengilegar eru fyrir alla og þær er betra að styðjast við, heldur en að taka mark á bullukollum sem þvarga á netinu.

Sögulegar staðreyndir sýna það og sanna með óyggjandi hætti, að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir aðra flokka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband