Minniháttar bókhaldsbrot?

Bubbi Morthens og Ólafur Arnarson eru tveir af afkastamestu pistlahöfundum Pressunnar.

Báða met ég mikils, Bubba hef ég fylgst með allan hans feril, ég var staddur á fyrstu tónleikunum sem hann spilaði á í Kópavogsbíói árið 1980. Hann hefur átt sínar hæðir og lægðir, en það kemst enginn með tærnar þar sem hann hefur hælanna í textagerð, margir af hans textum eru í hópi fegurstu ljóða sem samin hafa verið hér á landi.

Einnig er margt til í því sem hann skrifar á Pressuna, oft bendir hann okkur á að rækta með okkur jákvæðni, sáttfýsi og hvetur okkur til að fyrirgefa.

Ólafur Arnarson skrifar líka af mikilli þekkingu, hann upplýsti m.a. um skjaldborgina sem var afhent erlendum vogunarsjóðum osfrv.

En tilfinningarnar bera þá ofurliði þegar kemur að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og föður hans, þá er ekkert vit í því sem þeir skrifa.

Bubbi heldur því statt og stöðugt fram, að Jón Ásgeir hafi ekkert með hrunið að gera. Þeir Bónusfeðgar eru góðvinir Bubba, þannig að hann álítur þá strangheiðarlega í alla staði.

Ekki er hægt að fullyrða um eðli þeirra feðga, vel getur verið að þeir hafi heiðarlegt innræti, en stundum brenglast margt hjá mönnum þegar þeir fá peninga og völd í hendur og heiðarleiki virðist ekki hafa verið ríkjandi hjá feðgunum, meðan þeir voru hvað mest áberandi í hinni frægu útrás.

Ólafur var að ergja sig á Birni Bjarnasyni í einum pistlinum og vildi meina að Jón Ásgeir hafi fengið vægan dóm fyrir minni háttar bókhaldsbrot.

Bókhaldsbrotið sem hann áleit minniháttar fólst í því, að Jón Ásgeir lét Jón Gerald skrifa fyrir sig rangan og tilhæfulausan kreditreikning upp á sextíu og tvær milljónir króna.

Í maímánuði árið 2007, þegar dómurinn var uppkveðinn ríktu aðrar aðstæður hér á landi.

Almenningsálitið var sannarlega hliðhollt þeim Baugsfegðum og sextíu og tvær milljónir þótti ekki há upphæð þá, vegna þess að stöðugt var verið að fjalla um hundruði milljarða í öllum fréttatímum.

En bókhaldsbrotið er ekki minniháttar, sextíu og tvær milljónir er ekki lítil upphæð og gjörningurinn lýsir einlægum brotavilja Jóns Ásgeirs. Meðvirkni samfélagsins á þessum tíma með útrásarvíkingunum var slík, að allir sem gagnrýndu þá, voru rakkaðir niður á götunni og í fjölmiðlum þjóðarinnar. Þess vegna getur verið að dómarar hafi hreinlega ekki þorað að taka fast á þeim feðgum, án þess að hægt sé að fullyrða um það.

Flestir hljóta að geta fallist á það, að ef forsvarsmaður fyrirtækis lætur falsa fyrir sig reikning, þá lýsir það ásetningsbroti, en slík brot eru alvarlegri en önnur, eftir því sem lögfróðir menn segja.

Þannig að bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs var ekki minniháttar, heldur frekar alvarlegt, þótt upphæðin hafi ekki þótt há á þessum tíma.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband