Er borgarstjórinn lagður í einelti?

Fólk sem ýmist hefur lifað frekar stutt eða þjáist af gullfiskaminni telur gagnrýni mína og fleiri sjálfstæðismanna á Jón Gnarr og hans störf vera gróft einelti. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að við sjálfstæðismenn séum svo örvæntingafullir vegna þess að hann náði stólnum og hefur furðulega mikið fylgi.

Að mati margra er hann vanhæfur borgarstjóri því hann nennir ekki að starfa sem slíkur, heldur velur út skemmtilegustu verkefnin. Slíkir menn þekkjast til sjós. Þeir vilja gjarna vera í léttustu störfunum, stökkva á næstu spilstöng til að sleppa við átök og bras. 

Á alvöru skipum verða slíkir menn sjaldan kosnir starfsmenn mánaðarins.

Ef við hverfum aftur til ársins 1994, þá náði Ingibjörg Sólrún völdum og henni tókst það merkilega afrek að halda þremur flokkum saman í tólf ár.

Það var miklu meira áfall fyrir sjálfstæðismenn en Jón Gnarr og Besti flokkurinn. Sjálfstæðismenn hafa ekki náð almennilegum völdum í borginni síðan Davíð var borgarstjóri. Þannig að tapið er ekki eins tilfinnanlegt núna og það var fyrir tuttugu árum.

Enginn efast um að Ingibjörg Sólrún hafi verið sterkur leiðtogi, hún uppfyllti allar skyldur borgarstjóra og gat tekið ákvarðanir án þess að þurfa stöðugt að treysta á embættismenn.

Ef maður á borð við Jón Gnarr hefði tekið við völdum á sama tíma og Ingibjörg Sólrún, þá eru viðbrögðin í dag meinlaus miðað við þau sterku viðbrögð sem komið hefðu þá, því áfallið fyrr sjálfstæðismenn árið 1994 var sannarlega miklu meira en árið 2010.

Niðurstaðan er alltaf sú sama, Jón Gnarr veldur ekki því stóra embætti sem hann var kosinn til að gegna. Vorkunnsemi og þreyta á stjórnmálamönnum almennt breyta ekki þeirri staðreynd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ingibjörg Sólrún er skarpgáfuð,það munar um minna,fyrir Samfylkinguna. Enginn í sjálfsstæðisflokknum er hálfdrættingur á við Davíð Oddsson. Að hafa sterkan leiðtoga sem dregur með sér fylgi er hverjum flokki nauðsynlegt. En kannski vaxa þessir stjórnmálamenn og mest um vert er að þeir ræki skyldu sína,sem er að auka hagsæld á Íslandi.

Helga Kristjánsdóttir, 22.9.2013 kl. 23:19

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Helga, þótt ég sé sjálfstæðismaður og á öndverðum meiði við Ingibjörgu Sólrúnu í flestu, þá get ég ekki annað en viðurkennt hana sem einn af öflugustu leiðtogum þjóðarinnar. Það var afrek að halda saman þremur flokkum í tólf ár.

Hinsvegar kemst Jón Gnarr aldrei nálægt því að vera stjórnmálamaður, hann er góður leikari og lunkinn listamaður.

Jón Ríkharðsson, 23.9.2013 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband