Auðvitað þykir mér vænt um Jón Gnarr - nema hvað?

Í ljósi síðustu pistla frá mér gæti einhver haldið að mér væri illa við Jón Gnarr, en það er auðvitað della. Hann er þrælfyndinn og mjög góður leikari, einnig óskaplega vænn og góður drengur.

Ég á hinsvegar bágt með að þola hann sem borgarstjóra.

En vissulega hefur hann vakið athygli á ýmsu sem hollt er fyrir stjórnmálamenn að hugsa um.

Greinilega þrá flestir kjósendur nánara samband við stjórnmálamenn, en þeir eru oft ansi fjarlægir og tala tæknimál sem fáir skilja. Pólitíkusar eru ansi stífir með sig og vont að spóla þá í fíflagang.

Svo má ekki gleyma, þótt það sé ekki endilega sanngjarnt, að traust á stjórnmálamönnum og hefðbundnum flokkum hvarf þegar bankarnir hrundu. Stjórnmálamenn geta ekkert vælt yfir því, það er þeim sjálfum að kenna.

Þeir vissu ekki að samband við kjósendur þarf að rækta oftar en á fjögurra ára fresti.

Svo kemur Jón Gnarr og  honum tekst að hitta kjósendur beint í hjartastað. Reyndar er hann óþarflega villtur fyrir margra smekk, en hann er einlægur og alltaf hann sjálfur. Stundum klaufalegur og illa að sér, en viðurkennir það bara og ypptir öxlum.

Þetta eru hans kostir og enginn tekur þá frá honum.

Hinsvegar er það mín skoðun og eflaust er ég ekki einn um hana, að mér finnst hann ótrúverðugur sem stjórnmálamaður. Þeir stjórnmálamenn sem standa upp úr fluttu sitt mál af svo mikilli visku að orð þeirra standa áratugum seinna og stöðugt er vitnað til þeirra, nægir að nefna Churchill og Lincoln.

Jón Gnarr hefur ekki þá dýpt til að koma með meitlaðar setningar sem hitta fólk í hjartastað, heldur segir hann það sem margir hugsa, bætir engu við.

Þegar stjórnmálamaður segir það sem margir hugsa þá virkar það sem háfleyg og djúp speki. Þegar þörfin fyrir stjórnmálamenn sem sýna áhuga á fólki er orðin að svona djúpstæðri þrá, þá sættir fólk sig við hvað sem er, bara ef stjórnmálamaðurinn sýnir góðvild.

Jón Gnarr fer tæplega hálfa leið til að uppfylla þarfir kjósenda. Hann sýnir þeim athygli, kann að spjalla á léttum nótum, tapar sér stundum í vitleysu en fólk horfir framhjá því.

En hann sleppir því að taka þátt í dýpri stefnumótun á pólitísku sviði, þ.e.a.s. rækja hlutverk framkvæmdastjóra sem er eitt af skilgreindum hlutverkum borgarstjóra.

Ef við fáum stjórnmálamann sem lætur kjósendur finna sanna umhyggju, er skemmtilegur og hnyttinn í tilsvörum og til í að hitta fólk oftar en á fjögurra ára fresti, þá á hann mikla möguleika.

Og ef viðkomandi er snjall í rekstri og úrræðagóður almenn, þá höfum við einstakling sem neglir næstu kosningar sem um munar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jám, en er einhver svoleiðis kall í boði? Pæling...

Skúli 24.9.2013 kl. 01:41

2 identicon

(eða kona auðvitað:))

Skúli 24.9.2013 kl. 01:42

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ekki í sjónmáli því miður Skúli, enda erfitt að fá þungavigtafólk í pólitík.

Umræðan er óvægin og oftast frekar vitlaus. Afburðarfólk, sem hefur þessa kosti kýs frekar vinnu í einkageiranum, ýmist hjá öðrum eða stofna fyrirtæki.

Jón Ríkharðsson, 24.9.2013 kl. 08:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband