Við eigum ekki einu sinn að ræða flugvöllinn.

Það er fáránlegt að stjórnmálamenn skuli ræða flugvöllinn á þessum tímapunkti. 

Enginn sambærilegur kostur hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu sem flugmenn telja henta jafnvel og Vatnsmýrin. Og finnist sambærilegur kostur er ólíklegt að ríkið hafi efni á að byggja nýjan flugvöll.

Flugvöllurinn skapar fjölda starfa, beinna og afleiddra. Ef flugvöllurinn fer þá tapast þessi störf.

Vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn til að taka við þessum fjölda, framfærsla flestra lendir þá á ríkinu.

Það kann að vera eftir einhver ár að betri kostur finnist, en um það getur enginn sagt.

Það vefst fyrir sumum stjórnmálamönnum að forgangsraða rétt, en að berjast fyrir flutningi vallarins áður en búið er að finna fjármagn til að byggja nýjan og góðan stað fyrir hann, seint teldist það gáfulegt í einkageiranum.

Á sama tíma og við erum í þrengingum vegna hrunsins og þurfum að endurskipuleggja stórnsýsluna ásamt því að huga betur að hagsmunum er snerta borgarbúa beint. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Reykjavíkurborg þarf að kaupa framkvæmdirnar á svæðinu,  ca. 40 milljarða virði.   Ríkið ræður svo hvort að það notar féð í gerð nýs flugvallar eða fer með innanlandsflugið til Keflavíkur.

 Þessi staðreynd gleymist alltaf í umræðunni.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 23.9.2013 kl. 20:04

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ef flugvöllurinn fer og enginn flugvöllur byggður í staðinn tapast störf(vera nákvæmur).Að öðru leiti allt satt og rétt sem þú segir.

Jósef Smári Ásmundsson, 23.9.2013 kl. 20:04

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þótt þetta sé ekki nefnt Hallgrímur, þá er ekki skynsamlegt að nota peninganna í nýjan flugvöll, betra væri þá að borga niður skuldir. En það er önnur umræða.

Flestir vilja hafa flugvöll í Reykjavík, lítill vilji er fyrir innanlandsflugi í Keflavík.

Jón Ríkharðsson, 23.9.2013 kl. 21:19

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þori ekki að vera of nákvæmur Jósef, þá heldur kannski fólk að ég sé fullkominn.

Þú manst að eini fullkomni maðurinn var krossfestur, þá spyr ég eins og skáldið forðum; "úr því að þeir krossfestu þig Kristur, hvað gera þeir þá við ræfil eins og mig?"

Jón Ríkharðsson, 23.9.2013 kl. 21:20

5 identicon

Enginn sambærilegur kostur hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu sem flugmenn búsettir í Reykjavík telja henta jafnvel og Vatnsmýrin. En jafnvel flugmenn búsettir í Reykjavík telja Keflavíkurflugvöll öruggari flugvöll.

Flugvöllurinn skapar fjölda starfa, beinna og afleiddra. Bann við notkun skurðgrafna og mjaltavéla gerir það líka. Að halda í úrelt fyrirbæri bara til að halda í störf sem ekki er raunveruleg þörf fyrir er heimskulegt.

Vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn til að taka við þessum fjölda öllum á sama deginum, framfærsla sumra lendir jafnvel á ríkinu þar til vinnumarkaðurinn tekur við. Vinnumarkaðurinn tekur við margfalt fleiri nýjum vinnandi höndum á hverju ári og ætti ekki að vera í neinum vandræðum með þennan tiltölulega litla hóp.

Það vefst fyrir sumum stjórnmálamönnum að forgangsraða rétt eins og fyrir almenningi, en að gefast upp á flutningi vallarins vegna ómálefnalegrar og illa upplýstrar skammtímahugsunar fjölda sem lætur tískusveiflur móta afstöðu sína þegar fullbúinn og öruggari flugvöllur er stutt frá teldist seint gáfulegt.

Á sama tíma og við erum í þrengingum vegna hrunsins og þurfum að endurskipuleggja stjórnsýsluna ásamt því að huga betur að hagsmunum er snerta borgarbúa, sem fæstir nota nokkurntíman flugvöllinn, beint. Eins og að byggja nær kjarna borgarinnar frekar en í 15 km fjarlægð. Eða eins og Gísli Marteinn segir "Það kostar okkur fjóra milljarða króna á ári að reisa fimmtán þúsund manna byggð austast í borginni frekar en í Vatnsmýri“.

Espolin 24.9.2013 kl. 10:12

6 identicon

Eigum við ekki bara að kalla hlutina sínum réttu nöfnum?  Það verður enginn flugvöllur "fluttur", borgarfulltrúar í Reykjavík vilja hins vegar sumir hverjir "loka" Reykjavíkurflugvelli.  Starfsemi sem þar fer fram geti bara farið eitthvert annað, þótt sá staður sé hins vegar ekki til.

Aðrir hafa rakið mikilvægi sjúkraflugs og ég hef engu við það að bæta, færri hafa þó minnst á innanlandsflugið sem ég hef líka áhyggjur af.  Ef af lokun Reykjavíkurflugvallar verður mun innanlandsflug ekki færast sjálfkrafa til Keflavíkur, heldur mun það að líkindum leggjast af í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.

Það verður þess vegna ekki vandamál í framtíðinni að þurfa að aka með drýgstan hluta þeirra farþega sem nú ferðast með innanlandsflugi á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, vegna þess að þeir munu ekki fljúga til Keflavíkur.

Þess í stað munu ferðir margir þeirra sem á annað borð þurfa að ferðast til og frá höfuðborginni færast yfir á þjóðvegi landsins.  Hærri flugfargjöld og lengri ferðatími (flugtími, milliferðir, innskráningartími, vopnaleit, öryggiseftirlit og bið eftir farangri) munu illa geta keppt við samgöngur á jörðu niðri - samkeppnishæfni innanlandsflugs mun þannig skerðast verulega verði því úthýst frá höfuðborginni.

Þeir flugfarþegar sem eftir standa verða tæplega nógu margir til að innanlandsflug geti staðið undir sér og þar með myndu helstu almenningssamgöngur á milli landshluta á Íslandi hverfa.  Þarf nokkuð að velta fyrir sér umhverfis- og þjóðhagslegum áhrifum þess?

Af öðrum afleiðingum má telja líklega hækkun millilandafargjalda, þar sem flugvélar þurfa þá að burðast með umtalsvert meira eldsneyti til að geta flogið til varaflugvallar - annars en Reykjavíkurflugvallar.

Lokun Reykjavíkurflugvallar er álíka gáfuleg og ef Strætó hætti alveg akstri innan Snorrabrautar, Miklubrautar, Hringbrautar og Hofsvallagötu (af þeirri ástæðu að strætisvagnar séu stórir og fyrir íbúunum); þeir sem þangað ættu erindi gætu bara tekið leigubíl, farið fótgangandi - nú eða á reiðhjóli.

Annars skil ég ekki þessa þráhyggju að þurfa einmitt að nota þetta landsvæði undir íbúabyggð - svæði sem einu sinni þótti svo merkilegt að helst átti að friða það.  Man einhver eftir þeirri umræðu?

Ég veit ekki betur en að það séu t.d. tveir golfvellir nánast hlið við hlið í Grafarholti og við Korpúlfsstaði.  Hefði ekki farið betur á því að nýta það land undir íbúabyggð og skikka golfara til að fara bara til annarra bæjarfélaga - eða upp á Hólmsheiði - til að stunda íþrótt sína?

Er ekki líka upplagt að byggja í Laugardal og færa bara Grasagarðinn, Fjölskyldugarðinn og íþróttaaðstöðuna alla upp á Hólmsheiði?  Það væri áreiðanlega ódýrara heldur en að leggja þar nýjan flugvöll - reyndar er ekki víst að gróður yrði þar eins líflegur né heldur nýting íþróttavalla eins góð vegna veðurfars en það er algjört aukaatriði.

Að ekki sé minnst á svæðið sem fer undir Árbæjarsafn - og Elliðaárdalinn eins og hann leggur sig.  Það er alveg hægt að setja ána í stokk og hafa op á nokkrum stöðum til að stunda þar laxveiðar.  Þarna væri heldur betur hægt að byggja þétta íbúabyggð á frábærum stað sem væri mun betur í sveit sett varðandi helstu umferðaræðar.

Til að taka af öll tvímæli þá er mér að sjálfsögðu ekki alvara með ofangreindum uppástungum - þessir staðir eru auðvitað "heilagir" í hugum höfuðborgarbúa og líklega landsmanna flestra.  Mér þykir bara álíka fáránlegt að fórna megi Reykjavíkurflugvelli af þeirri ástæðu einni að þar mætti byggja þétta íbúabyggð og að sú starfsemi sem þar fer fram geti bara fundið sér nýjan stað - sem þó er hvergi til jafngóður.

Enn fáránlegra þykir mér að þeir sem að líkindum nýta sér Reykjavíkurflugvöll sárasjaldan (nema kannski helst til skemmtiferða), geti talist hæfir til að meta áhrif slíkra ákvarðana sinna með fullnægjandi hætti.

Þess vegna legg ég til að borgarfulltrúar afli sér raunhæfrar reynslu af starfsemi þeirri sem fram fer á Reykjavíkurflugvelli (og það er víst ekki eingöngu þægileg innivinna).  Það er ekki víst að það dugi til að vinna á að því er virðist allt að því fordómar í garð flugvallarins en menn verða a.m.k. að sýna lit og kynna sér málin til hlítar og frá öllum hliðum.

Helst þyrftu líka allir borgarfulltrúar að aka (eða taka strætó) til allra þeirra staða úti á landi sem njóta innanlandsflugs og taka flugið til baka.  Þegar lent væri í Reykjavík yrðu þeir svo látnir bíða aukalega í u.þ.b. 15 mínútur (sem er naumt skammtað), síðan færu þeir um borð í rútu í um 40 mínútur áður en þeim yrði að lokum hleypt út á Umferðarmiðstöðinni.  Þaðan gætu þeir gengið í miðbæinn með trefil um hálsinn (eða í gæruúlpu) til að fá sér kaffisopa.

ÞPJ 24.9.2013 kl. 10:42

7 identicon

Borgarfulltrúar í Reykjavík vilja vegar sumir hverjir loka Reykjavíkurflugvelli. Starfsemi sem þar fer fram geti bara farið til Keflavíkur, sá staður er til. Það verður ekki vandamál í framtíðinni að þurfa að aka á milli Keflavíkur og Reykjavíkur með drýgstan hluta þeirra farþega sem nú ferðast með innanlandsflugi, vegna þess að þeir munu ekki þurfa að fara til Reykjavíkur. Drjúgur hluti þeirra sem nýta sér Reykjavíkurflugvöll í dag eru á leið til Keflavíkurflugvallar. Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur gæti jafnvel aukið farþegafjöldann. Landsbyggðarfólk flýgur oftar til útlanda en til Reykjavíkur. Samkeppnishæfni innanlandsflugs gæti þannig batnað verulega verði því úthýst frá höfuðborginni. Og þar með myndu helstu almenningssamgöngur á milli landshluta á Íslandi eflast. Auk þess sem eknum kílómetrum innan Reykjavíkur mundi fækka. Þarf nokkuð að velta fyrir sér umhverfis- og þjóðhagslegum áhrifum þess?

Espolin 24.9.2013 kl. 12:38

8 identicon

Svo það komi fram þá hef ég ferðast mikið með innanlandsflugi í gegnum tíðina og þykist þess vegna þekkja aðeins til.  Síðustu árin hef ég að auki ekið til höfuðborgarinnar vegna vinnudvalar og svo heim aftur að meðaltali á tveggja vikna fresti, um 500 km leið.

Þótt ég hefði gjarnan viljað stytta ferðatímann og nota innanlandsflug á þessum ferðalögum þá er samkeppnisstaða þess ekki sterkari en svo að til að komast í flug og koma bílnum heim aftur og láta svo sækja mig að tveimur vikum liðnum og aka heim, þá er aksturinn samtals orðinn nánast önnur leiðin til höfuðborgarinnar hvort sem er.

Mig langar í ljósi þessa að spyrja á hvaða forsendum þú byggir fullyrðingar þínar um upphafs- og endapunkta og erindi farþega í innanlandsflugi.  Notarðu innanlandsflug reglulega eða þekkirðu fólk sem ferðast reglulega með innanlandsflugi og getur þannig stutt fullyrðingar þínar?

Gengurðu virkilega út frá því að íbúar á höfuðborgarsvæðinu og útlendir ferðamenn noti ekki innanlandsflug og að flest ferðalög í innanlandsflugi eigi sér upphaf og endapunkt á landsbyggðinni?

Geturðu vísað í einhver gögn sem styðja þá fullyrðingu að drjúgur hluti þeirra sem nýta Reykjavíkurflugvöll séu á leið til eða frá Keflavíkurflugvelli - og að þeir farþegar eigi þá ekki erindi í höfuðborgina við sama tækifæri, jafnvel þó að þeir séu á leið í eða úr millilandaflugi?

Geturðu vísað í gögn sem sýna að landsbyggðarfólk fljúgi oftar til útlanda en til Reykjavíkur - eða hvert hlutfall þeirra er sem fljúga innanlands og eru ekki á leið í eða úr millilandaflugi?

Að slá fram slíkum fullyrðingum gerir lítið fyrir umræðuna, það skortir hins vegar á að þessar upplýsingar séu aðgengilegar og það stendur vitrænni umræðu um þetta mál fyrir þrifum.  Þetta er einmitt gott dæmi um skort á rannsóknum tengdum ferðaþjónustu sem leiðir af sér óupplýstar fullyrðingar sem hvorki er hægt að sanna né afsanna.

Hitt er staðreynd að þrátt fyrir tilraunir til tengiflugs á milli Akureyrar og Keflavíkur (sem reyndar verður að viðurkennast að hafa verið fremur hálfvelgjulegar) þá hefur slíkt flug ekki náð fótfestu og það var t.d. aðeins rekið tvo daga í viku í sumar.  Reyndar vill svo til að ég flaug einmitt með slíku tengiflugi í júlí síðast liðnum og held að ég geti fullyrt að við vorum tveir, kannski þrír íslenskir farþegar um borð, aðrir voru útlendingar.

Ég get alveg sagt þér að ég myndi gjarnan vilja sjá slíkt tengiflug daglega allt árið og til fleiri staða heldur en bara Akureyrar.  Ef eftirspurn væri eftir slíku tengiflug þá er nokkuð öruggt að flugrekendur myndu stökkva á slíkt viðskiptatækifæri.  Þú verður þess vegna að spyrja flugrekendur hvers vegna þeir sinna ekki tengiflugi til Keflavíkurflugvallar en það þarf reyndar engan snilling til að giska á svar þeirra.

Ég átta mig ekki á því hvernig þú telur það umhverfis- og þjóðhagslega hagkvæmt að fækka eknum kílómetrum innan Reykjavíkur en margfalda þá utan Reykjavíkur, það er reikningsdæmi sem ég fæ ekki til að ganga upp.

ÞPJ 24.9.2013 kl. 14:58

9 identicon

Ég kýs að standa við mínar fullyrðingar án birtingar gagna rétt eins og þú. Og við getum ekki farið að miða allt við þínar þarfir og sagða reynslu þegar aðrir hafa aðrar sögur að segja. Miðað við mína reynslu þá er megnið af því sem þú heldur fram alger þvæla. Og sennilega getur þú sagt það sama um mínar ábendingar. Hvorugur okkar getur með 100% vissu sagt hvað muni ske og hver þróunin yrði færi flugið frá Reykjavík.

Espolin 24.9.2013 kl. 16:26

10 identicon

Sjáum nú til, ég leiði líkur að því sem ég tel að gæti gerst í framtíðinni og færi rök fyrir þeim ályktunum - það telst ekki vera fullyrðing. Framtíðin ein mun leiða í ljós hvort ég hef rétt fyrir mér, fari svo að Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Með einni undantekningu (um tengiflug þar sem ég var farþegi) fullyrði ég annars hvergi um mælanlega hluti.

Ég set fram mína skoðun byggða á reynslu minni og þekkingu og eðli málsins samkvæmt er ekki í nein önnur gögn að vísa. Þú heldur því fram að það sé að mestu þvæla en bendir þó hvergi á hvar sú gæti verið raunin.

Ef þú telur að fullyrðingar um staðreyndir sem hægt er að mæla séu málstað þínum til framdráttar án þess að vísa í gögn sem styðja fullyrðingarnar, þá er þér mín vegna velkomið að "rökræða" við einhverja aðra með slíkum hætti. Ég hef annað og þarfara með minn tíma að gera en að standa í slíkri endaleysu.

ÞPJ 24.9.2013 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband