Sunnudagur, 16. maí 2010
Tvær þjóðir í þessu landi.
Í þessu litla landi búa tvær þjóðir. Það er hin sanna íslenska þjóð og lítill hópur vanmáttugra æsingamanna sem kallar sig "þjóðina". Ekki ætla ég að gera lítil úr þessum tiltölulega fámenna hópi, þetta er prýðisfólk, en lætur stjórnast um of af reiði. Íslenska þjóðin notar hins vegar reiði og vonbrigði til að byggja sig upp og vinna, hún veit að forfeður okkar börðust hart við óblíða náttúru, tókst á við ungbarnadauða og ástvinamissi með sorg í hjarta og baráttu í huga. Þá var bitið á jaxlinn og barist áfram, í þeirri vona að lífið muni breytast á betri veg.
Vissulega voru tvær þjóðir í þessu landi, þá sem nú. Minnihlutahópurinn "þjóðin", það voru flækingarnir og þeir sem nenntu ekki að taka þátt í baráttunni, meðan hluti íslensku þjóðarinnar lét lífið og hlaut ævarandi örkuml í hinni erfiðu lífsbaráttu fyrri alda.
En íslenska þjóðin var menntuð og læs. Forfeður okkar fengu innblástur af hetjusögum fornalda, þeir voru margir höfðingjadjarfir og hnarreistir, stoltir af sjálfum sér og upprunanum. Í dag njótum við góðs af þeirra baráttu.
Það var dugnaður og elja genginna kynslóða sem skilaði okkur á þann stað sem við erum á í dag. Við erum sjálfstætt lýðveldi, með fyrirmyndar heilbrigðiskerfi, gott velferðarkerfi og mikla samkennd. Við stöndum þétt saman þegar eitthvað bjátar á. Við urðum ein af ríkustu þjóðum heims, við værum enn á þeim stalli ef dómgreindarskertir og vanþroskaðir útrásarvíkingar hefðu farið sér hægar.
Hin hvella skyldunnar rödd hrópar til hinnar dugmiklu íslensku þjóðar, að berjast með forfeðranna þrótti, til að við náum að vera fremst meðal þjóða á ný. Við látum ekki örþreytta vinstri stjórn draga úr okkur máttinn. Leyfum þreyttum að sofa, þau sofna fyrr en varir. Meðan þau dorma í vökuástandi skal hin íslenska þjóð brýna sín sterkustu vopn, sem eru vilji, vit og skynsemi. Þau sigra þessa litlu fyrirstöðu sem ríkisstjórnin er. Við látum ekki reiðina ná tökum á okkur, við bítum á jaxlinn, bölvum í hljóði og sigrum.
Hin sanna íslenska þjóð hjálpar "þjóðinni" á fætur á ný, án þess að hrósa sér af því. Við erum kristin þjóð, minnug orða frelsarans; "það sem þér gjörið yðar minnstu bræðrum, það gjörið þér mér".
Það er tilhlökkunarefni að geta sagt barnabörnunum sögur af þeim tímum sem við lifum á, en í framtíðinni hefur þjóðin sem heild þroskast frá villu vinstri stefnu og heldur í hina sönnu sjálfstæðisstefnu. Það verður fyrir börn framtíðarinnar að heyra sögur frá þessum tíma, svipað og fyrir okkur að heyra sögur af skömmtunarseðlum og haftastefnu liðinna ára.
Athugasemdir
Heill og sæll; Jón minn, æfinlega !
Þér að segja; skal ég játa fúslega, hvar; ég er afkomandi þeirra Kveldúlfs úr Hrafnistu, og svo Valgarðar hin Gráa (föður Marðar), á Hofi á Rangárvöllum, að mér mun alls ekki renna reiði og gremja mín, fyrr en fúasprekum frjálshyggu flokkanna : B - D - S og V listanna, allra; sem eins, hefir fyrirkomið verið. Með allsherjar útlegð; cirka 1500 - 2000 afætna, víðs vegar úr samfélaginu, eða þá, með öðrum hætti.
Og það skaltu vita einnig; Jón minn, að ENGINN kristileg fyrirgefningar arða, leynist í mínu hugskoti, ágæti drengur.
Glæpa öflunum; á að refsa, á hinn grimmilegasta máta, sem verðugt er, og verðskuldað, framtíðar svindlurunum, til nokkurrar viðvörunar.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi, sem jafnan /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 17.5.2010 kl. 01:56
Sæll Óskar minn og þakka þér hressileg viðbrögð.
Þú ert að sjálfsögðu hluti hinnar sönnu íslensku þjóðar, aldrei dytti mér annað í hug. Orðkyngi þín og kraftur skín í gegn um skrifin.
Þót ég þekki þig ekki utan bloggheima, þá segir mér svo hugur, að þú sért ekki maður sem öskrar og æpir, né beitir fólk líkamlegu ofbeldi. Reiðina notar þú frekar að ég held, til framdráttur fremur en niðurrifs.
Íslendingur ertu sannur Óskar , og ég ber virðingu fyrir þínum skoðunum, í mörgu erum við sammála en ekki öllu.
Þeim sem glæp fremja ber að refsa, um það erum við sammála. Einnig að útrásarvíkingar eru óttalegir fábjánar og eiga skilið harða dóma.
En þú ert íslenskur í gegn og heldur fast í íslenskuna, forn í skapi. Það mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar.
Og bestu kveðjur til Árnesþings frá höfuðstaðnum Óskar minn.
Jón Ríkharðsson, 17.5.2010 kl. 02:27
Já Það Verður Gaman að segja Börnum okkar frá því þegar við seldum ísland fyrir sukk
Það verður gaman að segja börnum okkar að við skuldsettum þau fyrir sukk
það verður líka gaman að segja bornum okkar að við höfum ekki verið reið bara einhverjir minnihlutahópar
Það verður gaman að segja börnum okkar að við gerðum ekki neitt.
Bara Snilld
Strax farið að hlakka til
Kveðja
Æsir 17.5.2010 kl. 22:00
Sæll Jón.Það verður að segja eins og er,að staða þjóðarinnar er ekki sú,sem hún ætti að vera.Við tilkomu framsal á kvóta fundu menn lykt af seðlum.Hugur margra snerist,líkt og í gullgrafaraævintýri.Kvótinn hækkaði í verðmæti,vegna þess að hann mátti leiga á markaði leiguverð hækkaði vegna eftirspurnar.Það skilur enginn hvernig sjómenn voru tilbúnir að greiða jafnhátt leiguverð og þeir fengu fyrir fiskinn.
Ég sagði að menn höfðu fundið lykt af seðlum.Því var farið að einkavæði allt sem þjóðin átti,bankanna,orkuna og verksmiðjur.Pétur H.Blöndal átti stofnfjárbréf í Spron,og vildi ólmur að stofnfjárbréf sparisjóðanna færu á markað.Þetta var orðið æði,allir vildi græða.Lífeyrissjóðarnir sem og aðrir landsmenn keyptu hlutabréf,fengu lánað og keyptu meira,við það hækkaði gengið ogallir voru að græða.Mikið framboð á seðlum og allir fengu lán fyrir hverju sem var.Unga fólkið fekk nú lán fyrir öllu,og ÁTTU nú allt,sem við sem eldri eru létu okkur dreyma um að eignast einhvern tíma á ævinni.
Svo fellu skýjaborgirnar á stuttum tíma,og flestir misstu allt sitt,bæði þeir sem allt vildu eiga og hinir sem fóru sér hægt,en töpuðu samt sparifé sínu og er enn að tapa vegna sífellda skattlagningu ríkisstjórnar og skerðingu lífeyris.
Nú svo komið,að auðlindir okkar,sem á að vera okkar trygging fyrir sjálfstæði,eru seldar erlendum aðilum,aðilum sem ekkert er vitað um stöðu á.Það liggur þó alveg ljóst,að enginn fer í slíkar fjárfestingar nema til að græða á.Enn eiga þessir fjárfestar nokkuð skapaðan hlut,eru þeir ekki að leika sama leikinn og okkar útrásarvíkingar.
Ingvi Rúnar Einarsson, 18.5.2010 kl. 00:04
Þú ert sérdeilis góður penni, Jón, en ég er ekki alveg viss um að ég fylgi þér eftir hérna.
Frásögnin er góð, og boðskapurinn virðist: Bítum á jaxlinn og komumst í gegnum þetta allt saman með því að sigrast á erfiðleikunum. Skrif þín eru góð hvatning til þess.
Vissulega er reiðin ein til lítils nýt. Við þurfum að virkja réttlætiskenndina með sameiginlegu átaki, ekki með byltingu, heldur með því að hafna flokksræði spilltra flokka. Nú eru síðustu forvöð fyrir þá til að gera siðbót fyrir kosningarnar!
Lifðu heill, og haltu áfram að skrifa!
Jón Valur Jensson, 18.5.2010 kl. 03:23
Þakka ykkur öllum innlitið.
Misjafnt höfumst við mennirnir að, Æsir , þú ætlar að segja börnunum þínum að þú hafir selt Ísland fyrir slikk og skuldsett þau. Þetta með minnihlutahópinn, ég hef engar áræðanlegar tölur varðandi fjölda reiðra og ekki reiðra, þannig að þessi pistill er ekki árangur djúpra rannsókna.
En ekki er ég vitund reiður svo mikið er víst. Það voru gerð alvarleg mistök og reiðin leiðréttir þau ekki. Við þurfum að þroskast og besta leiðin til þroska er að gera mistök, við lærum af þeim. Margar af mestu framförum heimsins, eru afleiðingar mistaka.
Börnin mín og barnabörn el ég upp í bjartsýni, trú og sigurvilja. Kraftmikla unga kynslóðin sem nú vex úr grasi sigrast auðveldlega á þessum skuldum .
Ingvi, þeta er allt saman rétt hjá þér, nú byggjum við bara alvöruborgir í framtíðinni.
Jón Valur, spilling er því miður hluti af mannlegu eðli, þar af leiðandi fylgir hún stjórnmálastéttinni. En flestir læra af mistökunum. Þjóðin þarf öll að gera siðbót, þar með talinn ég. Ég gerði líka mistök í hrunadansinum og dansaði í gleðivímu kring um gullkálfinn í þeirri fullvissu að peningar héldu áfram að vaxa á trjánum. Nú veit ég að það þarf að vinna fyrir þeim. Það er dýrmæt vitneskja.
Jón Ríkharðsson, 19.5.2010 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.