Laugardagur, 31. júlí 2010
Heilræði handa hinni tæru vinstri stjórn.
"Hin tæra vinstri stjórn" hefur bent á þá staðreynd að það þurfi að skapa samstöðu og frið í samfélaginu. Ég er sammála því, enda mikill friðarsinni. Þess vegna langar mig til að rita nokkur heilræði stjórnarliðum til handa, svona í mestu vinsemd. Ekki geri ég ráð fyrir að hin háttvirta "tæra vinstri stjórn" geti gefið sér tíma frá erfiðum verkum til að lesa bloggið mitt. En ég veit að margir í bloggheimum styðja hana og eru henni hliðhollir. Þeir gætu kannski komið þessu til skila?
Í fyrsta lagi, þá er nú ágætt að kunna skil á hinum, ýmsu stjórnmálastefnum ef maður vill starfa í pólitík. "Hin tæra vinstri stjórn" heldur að frjálshyggjan hafi valdið hruninu. Annað hvort er þreytu um að kenna eða vanþekkingu. Frjálshyggja hefur aldrei verið framkvæmd á Íslandi. Það hafa verið skrifaðar margar bækur um frjálshyggjuna og hægt er að nálgast þær á bókasöfnum og glugga í þær, svona aðeins til að átta sig á hvað frjálshyggja er.
Svo þarf að passa sig á hvað maður segir á opinberum vettvangi. Ef maður er í stjórnarandstöðu þá skiptir það ekki eins miklu máli og ef maður er í ríkisstjórn. Elskurnar mínar, þið hefðuð átt að passa ykkur á að tala minna um gegnsæi þegar þið voruð í stjórnarandstöðu. Þetta er allt að koma í bakið á ykkur núna. Þið skömmuðust líka yfir pólitískum mannaráðningum, svo lendið þið í því að ráða mann í embætti umboðsmanns skuldara og ganga framhjá konu með meiri starfsreynslu á þessu sviði.
Ókey, ég veit að Runólfur hefur verið góður við ykkur, hann reddaði jobbinu fyrir, æ ég man ekki hvað hún heitir, en hún sat á þingi fyrir Samfylkinguna. Það þurfti að rýma sæti fyrir Ingibjörgu á þessum tíma. Þetta var fallega gert af honum, ég veit það. En þið hefðuð átt að tékka aðeins betur á bakgrunni umsækjandans. Maður gerir það alltaf þegar maður er að ráða einhvern í vinnu. Ókey ég skil, þið voruð þreytt og illa sofin.
Svo er líka gott að kunna að lesa þjóðina eins og hún er. Steingrímur minn Joð, auðvitað væri betra fyrir þig ef íslendingar væru líkari Svíum og hefðu gaman af að borga skatta. En þetta áhugamál ykkar Indriða að hækka skatta, þið eruð voðalega einangraðir í þessu máli. Ég get alveg skilið að þér finnist gaman af að hækka skatta. Það er ekkert skrítnari þráhyggja heldur en gengur og gerist. En maður þarf að hafa hemil á sér vinur.
Það er eðlilegt að vera hræddur stöku sinnum, en það má ekki láta óttann ná tökum á sér. Bretar og hollendingar eru ansi frekir og ég veit að þið mætið illa andstöðu. Ykkur finnst þægilegra að allir séu sammála ykkur. Ég skil það, margir eru þannig. En þegar maður er í ríkisstjórn þá verður maður að standa með landinu sínu.
Svo varðandi ESB. Það hefði nú verið betra að bíða aðeins og athuga vilja þjóðarinnar í svona stóru máli. Össur minn, þú mátt ekki vera svona óþolinmóður. Ég veit það vel að þetta er svona þráhyggja hjá þér, þetta ESB mál. En það er til fullt af góðum sálfræðingum sem hjálpa mönnum sem eru haldnir svona vandamálum. Þú og Steingrímur Joð gætuð kannski fengið afslátt hjá sama sálfræðingnum, ég held að þið þurfið ansi marga tíma, hann með skattahækkanaþráhyggjuna og þú með ESB. En þið getið örugglega sigrast á þessu, það er bara að viðurkenna vandann.
Fyrst við sitjum uppi með ykkur greyin mín, þá væri gott ef þið mynduð huga að hagsmunum þjóðarinnar. Ég veit að þið rugluðust aðeins með skjaldborgina sem átti að vera handa heimilunum. Vegna þreytu þá slóguð þið henni utan um fjármálastofnanir. Það er alveg hægt að leiðrétta það með góðum vilja.
Elskurnar mínar, kæru stjórnarliðar. Ég ákvað að vera blíðmáll við ykkur núna í þeirri von að þið gætuð lært eitthvað af þessum heilræðum. Við þurfum nefnilega að standa saman.
Athugasemdir
Afbragðsgóður pistill, þarna fengu þeir ráð af heilindum gefin og gratís í þokkabót, en ætli þeir yrki nokkra bragarbót á eigin illa kveðnu vísum hingað til?
Þú kannt að koma fyrir þig orði, nafni, en það góða við alla þessa fyndnu framsetningu þína er nú það, hve alvaran er djúp, sjónin hvöss og viljinn trúr að hjálpa sinni þjóð.
Jón Valur Jensson, 31.7.2010 kl. 02:56
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.7.2010 kl. 02:59
Slök finnast mér heilræðin. Víst olli frjálshyggjan hruninu, og sem á eftir kemur í grein þinni er sæmilega vel skrifuð grautarkend hugleiðing sem á að vera fyndinn en vegna innihaldsleysis handónýt.
Eitt skref til vinstri og eitt skref til hægri - og svo snúa sér öll í hring, söng Ómar eitt sinn. Er stjórn hægri krata og IMF tær vinstri stjórn? Að mínu mati ríkir hér harðvítug hægristjórn.
Dingli, 31.7.2010 kl. 05:08
Þakka ykkur innlitið Jón Valur og Rósa.
Dingli minn, þetta er gott hjá þér vinur, menn eiga að hafa sínar skoðanir á hlutunum. Þú þarft ekkert að notast við skilgreiningar þeirra sem hönnuðu frjálshyggjuna, þú mátt hafa þína eigin. En það gildir annað um starfandi stjórnmálamenn þú skilur.
Þau segjast nú sjálf vera vinstri stjórn, þannig að ég tek það bara trúanlegt. Þú mátt auðvitað alveg hafa þínar skilgreiningar á hægri og vinstri. Ég það það hugmyndasnauður að ég notast við þessa hefðbundnu.
En þú ert mjög flinkur og duglegur Dingli minn, þetta eru voða flottar myndir sem þú sendir mér, gul andlit með svona skemmtilegan svip, takk fyrir það.
Jón Ríkharðsson, 31.7.2010 kl. 11:02
Jón, frjálshyggja, nánar ofur-frjálsyggja og meðfylgjandi kæruleysi, þegar gjörsamlega óhæfir menn fengu að stýra bönkunum í friði gegn nánast öllu eftirliti meðan þeir tæmdu þá að innan, olli falli bankanna með stuðningi utanaðkomandi ofur-frjálshyggju-mafíósa. Hvaða orð viljið þið nota þarna ef ekki ofur-frjálshyggju? Haldið þið að íslensku bankarnir hefði fallið ef þeir hefðu verið ríkisbankar? Kanada rekur ríkisbanka og ekki féllu þeir.
Elle_, 31.7.2010 kl. 11:04
Þarna þarf Elle að fara í læri til Ómars okkar Geirssonar. Hann hefði bent henni á það (af miklu meiri krafti en ég), að hvergi í Evrópu var það málið, að bankar ættu að vera ríkisbankar – þvert á móti var stefnan á einkavæðingu þeirra. Áratuga reynsla okkar af því, að ríkisrekstur á bönkunum gæfist illa og væri farvegur spillingar, olli því, að það var verulegur hljómgrunnur – ekki bara í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki – fyrir a.m.k. einkavæðingu annars bankans. Vinstri menn gagnrýndu að vísu kaupverðið og hverjir keyptu, en fæsta grunaði, hversu miklu verr þessir einkareknu bankar myndu reynast en ríkisbankaformið áður.
Var það "ofurfrjálshyggja", að ríkisbankar yrðu einkareknir? Ef svo var, á þá flest að vera ríkisrekið? Er sósíalisminn rétta módelið? Er ekki fylgifiskur hans jafnan uppdráttarsýki og stöðnun?
Er ekki málið frekar hitt, að Evróputrúaðir stjórnmála- og embættismenn gleyptu við því að taka við stórvarasömum reglugerðum frá Evrópubandalaginu? Mesta "frelsisvæðingin" fyrir græðgi og misnotkunarhneigð hinna nýju eigenda var í því fólgin að lækka standardana í rekstri bankanna, gefa þeim t.d. færi á því að reikna sér "viðskiptavild" til eigna og hagræða hlutum í bókhaldi, jafnvel með hjálp endurskoðenda þeirra. Sjá um þetta eftirfarandi greinar mínar: Alþjóðlegu endurskoðunarskrifstofu-risarnir bera þunga ábyrgð á kerfislægri orsök fjármálabólunnar sem sprakk, hér jafnvel fremur en erlendis – og: Endurskoðunarskrifstofur og nýir staðlar þeirra á ábyrgð ESB ollu hruninu; Íslendingar saklausir.
Kristin stjórnmálasamtök, 31.7.2010 kl. 11:46
Þetta átti nú að vera skrifað í mínu nafni, ekki Kristinna stjórnmálasamtaka (ég var einfaldlega ekki búinn að logga mig út af vefsvæði þeirra; hélt að ég væri bara ég!).
Jón Valur Jensson, 31.7.2010 kl. 11:48
Ég kann alls ekki við að menn segi manni hvað maður þarf að gera. Nei, ég var ekki að segja að það væri ofur-frjálshyggja að einkavæða bankana, heldur að það hafi verið ofur-frjálshyggja og meðfylgjandi kæruleysi þegar gjörsamlega óhæfir menn fengu að stýra bönkunum í friði gegn nánast öllu eftirliti meðan þeir tæmdu þá að innan. Það var það sem ég skrifaði og var ekki að tala um kapítalisma, heldur ofur-frjálshyggju. Og segi enn að ég held að bankar ættu að vera ríkisreknir og í það minnsta að stærri hluta.
Elle_, 31.7.2010 kl. 11:57
Og mér er líka nokkuð sama hver stefnan var í Evrópu. Það er ekki allur heimurinn eins og við vitum.
Elle_, 31.7.2010 kl. 12:07
Afar gott innlegg skrifaði Guðmundur Ásgeirsson kerfisfræðingur á fyrri vefslóðinni, sem ég gaf hér upp, með viðbótar-ábendingu um það, sem varðaði mjög miklu lía um bankahrinið. Lesið orð hans hér á eftir!
"Það eru ekki bara endurskoðunarfyrirtækin sem bera mikla ábyrgð, heldur líka alþjóðleg matsfyrirtæki, þessi með skrýtnu nöfnin eins og S&P, Moody's og Fitch. Það var öðru fremur AAA einkunn sem þau gáfu eitruðum undirmálslánum og leiddi til þeirrar skriðu afskrifta sem setti fjármálahrunið af stað. Hlutur þeirra í atburðarásinni er auk þess merkilegur í ljósi þess að þau mátu íslensku bankana á sama átt löngu eftir að þeir voru í reynd búnir að vera, og gerðu þeim þannig kleift að safna á sig mun meiri skuldum en efni stóðu til." – Guðmundur Ásgeirsson, 13.10.2009 kl. 19:24.
Elle, þetta nánast enga eftirlit kom ekki einfaldlega til af ofurfrjálshyggju Valhallar- og Framsóknarmanna, heldur var einmitt treyst á, að hér væri ríkjandi evrópskt og alþjóðlegt endurskoðunar- og eftirlitskerfi, m.a. af hálfu ESA, og treyst á jákvætt stöðu-, gæða- og öryggismat og meðmæli alþjóðlegu matsfyrirtækjanna – hinna sömu, sem síðar hafa reynzt áberandi hlutdræg gagnvart okkur í Icesave-málinu, taka afstöðu með Bretum og ætlast til að við borgum hina ólögvörðu rukkun þeirra! (Lítið annars fljótlega á bloggsíðu Þjóðarheiðurs).
Elle, við ÞURFUM ÖLL, en einkum þó vinstri mennirnir, að skoða orð Ómars Geirssonar um þessi mál.
Jón Valur Jensson, 31.7.2010 kl. 12:09
... sem varðaði mjög miklu líka um bankahrunið ... (afsakið flýtinn).
Jón Valur Jensson, 31.7.2010 kl. 12:10
Nei, Jón, maður ÞARF EKKI að gera neitt.
Elle_, 31.7.2010 kl. 12:15
Elle, mörg sjónarmið hafa komið fram í kring um einkavæðingu bankanna. Það sem ég gerði í pistlinum mínum var að miða við túlkun ríkisstjórnarinnar á einkavæðingunni, þetta var jú hugsað sem heilræði handa þeim.
Ef við göngum út frá þeirri forsendu að handstýring ríkisvaldsins hafi ráðið þar för, þá er það mjög langt frá því að vera frjálshyggja, því fátt er fjarri frjálshyggjustefnunni að ríkið hlutist til um hverjir fái hin ýmsu gæði.
En á þeim tíma sem bankarnir voru einkavæddir komu fjölmargar ábendingar m.a. frá OECD þess efnis að heppilegast væri að bankar væru einkareknir. Svíþjóð einkavæddi banka hægri vinstri og seint verða þeir sakaðir um of mikla frjálshyggju.
Einnig voru ríkisútgjöld stóraukin á góðæristímanum svonefnda, en svoleiðis athafnir eru í hrópandi andstöðu við frjálshyggju.
Frjálshyggjan gengur í stuttu máli út á það, að allir hafi frelsi til að gera það sem þeir vilja svo fremi það skaði engan. Frjáls markaður gerir ráð fyrir að kaupendur og seljendur séu jafnréttháir. Enginn getur selt á hærra verði en markaðurinn en tilbúinn að borga. Það þarf sem sagt ákveðið jafnvægi á milli þessara aðila til að frjáls markaður standist.
En það sem gerðist hér á landi var það, að kaupendur keyptu á því verði sem seljendur settu upp, án þess að mótmæla. Menn tóku bara lán.
Winston Churchill sagði eitt sinn að lýðræðið væri besta stjórnskipunin sem menn hefðu fundið upp, en það er ekki fullkomið.
Eins segi ég að frjálshyggjan, ef hún er framkvæmd rétt, þá er hún besta stjórntækið sem hefur verið fundið upp.En hún er ekki fullkomin.
Fullkomin stjórnskipun hefur ekki enn litið dagsins ljós. En að kenna frjálshyggju um allt sem aflaga fór, þegar hún hefur aldrei komist í framkvæmd. Ég get seint tekið undir það sjónarmið.
Jón Ríkharðsson, 31.7.2010 kl. 12:24
Jón: Ég veit vel um endurskoðunarfyrirtækin og hlut þeirra í falli bankanna, enda skrifaði fyrst að ofan: Með stuðningi utanaðkomandi ofur-frjálshyggju-mafíósa. Og ég var ekki að tala um neina vissa flokka. Hallast að því að þú hafi ekki skilið það sem ég skrifaði fyrst. Og síðasta commentið mitt ætti að hafa verið: Maður þarf ekki að gera neitt nema maður sjálfur kjósi það eða vilji. Enginn stýrir hvað önnur manneskja þarf. Og nú er ég hætt. Jón Ríkh: Er ekki búin að lesa síðasta svarið þitt.
Elle_, 31.7.2010 kl. 12:28
Þú þarft ekkert að notast við skilgreiningar þeirra sem hönnuðu frjálshyggjuna, þú mátt hafa þína eigin.
Þú vísar til þess sama í greininni, að frjálshyggjan eins og hún var/er hugsuð, hafi verið afbökuð svo í framkvæmd að vart geti frjálshyggja talist. Ég held þetta rétt hjá þér.
Ég held líka að Kalli Marx & F. Engels hafi gleymt þeim möguleika að glæpamenn stælu hugsjóninni og breyttu henni í martröð.
ESB þráhyggja Sammó er allt að því sjúkleg, því er ég sammála. Steingrím tel ég klókari en margir halda. Hann og VG hafa fengið ótrúlega mikið fyrir ESB-snúðinn og fara sínu fram í forsjárhyggju og formúlu-heimsku.
Dingli, 31.7.2010 kl. 12:36
Vinstri menn þurfa náttúrlega ekkert að opna augun, Elle. Þeim finnst betra að hafa þau lokuð.
(Hafðu þetta svona, Jón minn, taktu út klaufa-innleggið!)
Jón Valur Jensson, 31.7.2010 kl. 12:37
Jón, ég er ekki vinstri maður og endurtek að ég var ekki að skrifa um neina vissa flokka að ofan. Jón Ríkh skrifar: Frjálshyggjan gengur í stuttu máli út á það, að allir hafi frelsi til að gera það sem þeir vilja svo fremi það skaði engan. Já, skaði engan. Og það sem ég var að lýsa að ofan var OFUR-FRELSI sem skaðaði heilt land af fólki.
Elle_, 31.7.2010 kl. 12:55
Dingli, ég hef aldrei verið hrifinn af kenningum Marx og Engels. Þær stríða gegn eðli mannsins, en við erum fyrst og fremst einstaklingsmiðuð og höfum misjöfn sjónarmið. Í frjálshyggjunni mega allir gera það sem þeir vilja, svo fremi það sé löglegt.
Jón Ríkharðsson, 31.7.2010 kl. 13:06
Elle, ég var alls ekki að halda því fram, að þú væriri vinstri maður. Bið þig innilega afsökunar, ef þú hefur tekið orð mín þannig!
Jón Valur Jensson, 31.7.2010 kl. 13:27
Elle, ég skildi fullvel hvað þú meintir í upphafi. Við erum samherjar Elle, þannig að ég vil ekki gera óþarfa ágreinig við þig. Það sem ég meinti með mínum skrifum var, að mér finnst allt of mikið um afbökun hugtaka. Menn tala um mannréttindabrot hér á Íslandi, stjórnarskrárbrot, frjálshyggju osfrv. Þessi hugtök eru allt of oft notuð til að leggja áheyrslu á sitt mál og eru þá komin langt frá sinni réttu merkingu.
Ef ég af einhverjum ástæðum móðga þig Elle, þá biðst ég afsökunar á því. Það er sannarlega ekki ætlun mín. Þó við séum ekki sammála um orðalag, þá þarf það ekkert að þýða neinn meiriháttar ágreining frá minni hálfu.
Jón Ríkharðsson, 31.7.2010 kl. 13:41
Jón Ríkh., ég meinti ekki þig, heldur Jón. Held hann hafi misskilið mig fyrst, miðað við svörin hans um einkavæðingu og flokka. En ég var ekki að kenna einkavæðingunni um, heldur fáránlega óheftu ofur-frelsi óhæfra og óvandaðra manna, já mafíósa, sem fengu í friði að ryksuga bankana að innan. Og veit líka vel hver var bankamálaráðherra og úr hvaða ömurlega flokki. Held ríkisbankar séu miklu öruggari.
Elle_, 31.7.2010 kl. 14:37
Hér er sagt sitt á hvað: Í frjálshyggjunni mega allir gera það sem þeir vilja, svo fremi það sé löglegt, eða svo fremi það skaði engan.
Hvort er? Mér finnst hér geta munað miklu!
Dingli, 31.7.2010 kl. 15:18
Tilraunir áhangenda frjálshyggjunnar til að afneita því að hér hafi ríkt frjálshyggja eru hlægilegar og minna um margt á hörðustu stalínistana og marxistana eftir fall Berlínarmúrsins er þeir reyndu að þræta fyrir að kommúnisminn hefði lagt Sovétríkin og Austur-Evrópu í rúst.
Rök þeirra voru hin sömu og Jón R. kemur með hér til varnar frjálshyggjunni:
Eflaust má í báðum tilvikum finna tímabil þegar vikið var frá kennisetningum hinna bókstafstrúuðu æðstu presta öfganna í hvora áttina fyrir sig.
En að segja að það hafi ekki ríkt frjálshyggja á tímum hins ríkisrekna áróðurs gegn ríkisrekstri á vegum Hannesar Hólmsteins og það hafi ekki ríkt kommúnismi á tímum Stalíns, Krútsjoffs, Bresnevs og í lokin Gorbachevs, er svipað og að fullyrða að kristnir söfnuðir séu ekki til vegna þess að allir hafi einhvern tímann brotið boðorðin.
Theódór Norðkvist, 31.7.2010 kl. 17:32
ég má til með að blanda mér aðeins í málin, þetta er allt búið og skeð og það sem við þurfum að passa er að þeir sem ollu þessu verði sóttir til saka. Hitt er annað og meira sem ég segi að við stöndum frammi fyrir og það hvað ætlum við Íslendingar að gera í næsta skrefi... Hvernig viljum við að þessir hlutir verði, þetta eru jú okkar peningar sem eru að rúlla í gegnum kerfið og mér finnst ansi mikið gleymast að þetta er okkar... Hvernig getur það verið í lagi að við kjósum okkur fólk sem á að sjá um hlutina fyrir okkur með okkar hag og velferð að leiðarljósi og borgum þeim góð laun fyrir þá vinnu, en stöndum svo frammi fyrir því að þessu fólki finnst allt í lagi að við þjóðin lifi undir fátækramörkum og eigi helst ekki ofan í sig og á... Hver á að ráða hér þegar endan á að ákveða annar en við fólkið sem kjósum...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 31.7.2010 kl. 18:12
Theódór, ég sagði hér fyrir ofan að frjálshyggjan væri besta stjórntækið sem fundið hafi verið upp, en samt ekki fullkomið. Það ætti því að vera ljóst að ég væri opinn fyrir því að eitthvað betra gæti komið, eða væri jafnvel til.
Það sem mér finnst best við hana er að hún boðar náttúrulega frelsi og í gegn um tíðina hefur það sést að mönnum líður best þar sem þeir eru frjálsir að gera það sem þeir vilja, innan löglegra marka að sjálfsögðu.
Hér á Íslandi hafa orðið til stórar samsteypur á ýmsum sviðum sem hafa komið í veg fyrir að samkeppni geti þrifist. Ríkisútgjöld stórjukust á fyrri árum. Það er alls ekki frjálshyggja, enda er Sjálfstæðisflokkurinn ekki frjálshyggjuflokkur. Það eru til menn þar sem eru harðir frjálshyggju menn. Þeir eru mjög óhressir með margt sem gert var og svekktir yfir að þeirra rödd heyrist ekki nægjanlega í flokknum.
Það þarf nú varla að taka það fram ef landsstjórn síðustu ára er skoðuð, að lítið hefur verið hlustað á Hannes í hans "ríkisrekna áróðri" eins og þú talar um. Ríkið rekur t.a.m. útvarp og sjónvarp í samkeppni við einkaaðila.
Ekki er ég öfgamaður að neinu leiti, þeir sem halda því fram þekkja mig ekki vel. Þegar kom að því að ég fór að velta fyrir mér þjóðfélagsmálum þá las ég um allar stefnur, kommúnisma, sósíalisma, jafnaðarstefnu osfrv. Ég komst að þeirri niðurstöðu að sjálfstæðisstefnan hentaði mér best.
Ég er alltaf til í rökræður, en mér leiðist þvarg þegar ég er að ræða alvarleg málefni. Ef þú getur bent mér á eitthvað í frjálshyggjustefnunni sem boðar of mikil ríkisútgjöld og skort á samkeppni þá er ég tilbúinn að skoða það.
Kommúnismi bókstaflega býður upp á þessar hörmungar sem urðu í gömlu Sovétríkjunum. Það er vegna þess að sú stefna boðar það að verkalýðurinn eigi atvinnufyrirtækin og lúti alræðisvaldi flokksins. "Vald spillir og of mikið vald spillir" sagði fróður maður sem ég man ekki nafnið á í svipinn. Kommúnisminn boðar sem sagt vald, þ.e.a.s. stjórna skoðunum manna osfrv.
Þess vegna get ég ekki fallist á það að kommúnisminn sé góð stefna því hann heftir frelsi manna.
Dingli, mér finnst þetta nú svo augljóst að það tekur því varla að nefna þetta. Vitanlega boðar enginn viðurkennd stjórnmálastefna að menn megi framkvæma ólöglega gjörninga. Ef hún gerði það, þá væri það ekki stjórnmálastefna sem hægt væri að nota til að stýra réttarríki.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 00:28
Þér finnst það sem sagt góð stefna sem leiddi til efnahagshruns? Það hefur verið margoft sýnt fram á að fjársveltir á eftirlitsstofnunum og traust á að einkamarkaðurinn sæi um sig sjálfur leiddi til þess að glæpamenn léku lausum hala og rændu þjóðfélagið innan frá.
Þér hefur ekki tekist að koma með nein rök sem hrekur þessa fullyrðingu, þrátt fyrir langan pistil. Aðeins endurtekningar á því að þetta voru bara ekki nógu sannir frjálshyggjumenn sem hér stjórnuðu. No true Scotsman-rökvillan hér á ferð ef mér skjátlast ekki.
Ég hef aldrei haldið því fram að kommúnisminn hafi verið góð stefna, ef þú varst að svara mér. Ég var aðeins að líkja afneitunarsýki frjálshyggjutalsmanna við það sem gerðist hjá hinum sanntrúuðu kommúnismum:
Þetta var ekki kommúnismanum að kenna heldur kommúnistunum! Þeir voru ekki nógu sannir kommúnistar. Hlægilegur kattaþvottur.
Theódór Norðkvist, 1.8.2010 kl. 11:40
Theódór, þetta eru að verða frekar einkennilegar umræður hjá okkur.
Ég get seint tekið undir það að menn ástundi endilega rökvillur þótt skoðanir séu ólíkar.
"Þér finnst það sem sagt góð stefna sem leiddi til efnahagshruns?" Svona spurning er náttúrulega út í hött. Ég er á þeirri skoðun að það hafi ekki verið frjálshyggjan sem slík, heldur misnotkun manna á frelsinu. Það er hægt að mínu mati að misnota góða hluti, en þér finnst það kannski rökvilla.
Það að geta virt sjónarmið annarra er góður kostur sem ekki allir búa yfir, en mjög gott að tileinka sér. Að mínu mati er þessi spurning leiðinda rökfræði sem gengur út á það að koma andstæðingnum í opna skjöldu og fá hann til að líta illa út.
Svoleiðis tíðkast ekki í málefnalegum umræðum.
Stundum eru menn ósammála og þá skiptir engu máli hvað sagt er, engin rök duga.
Ég hef sagt mína skoðun á þessu máli og ef þér finnst hún rökvilla, þá verður að hafa það.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 12:56
Í þeirri gerð kommúnismans, sem tók við völdum í októberbyltingunni 1917, var innifalinn s.k. "demókratískur centralismi" og "alræði öreiganna" sem fólst þó í alræði sovétanna (ráðanna) og kommúnistaflokksins. Þar með var vegurinn varðaður til einræðis og kúgunar. Og þeir stunduðu svo sannarlega ekki kattarþvott á andstæðingum sínum, heldur drápu þá í hrönnum – sem og sína eigin andófsmenn. Lenín ber fulla sök á þessu, hún verður ekki af honum þvegin.
Enginn er ég ofurfrjálhyggjumaður. "Grundvöllur frjálshyggjunnar er trúin á manninn," sagði Jónas Haralz bankastjóri, en ég trúi ekki á manninn, veit af veikleikum hans og hneigð til eigingirni og lyga ti að breiða yfir afbrot sín og áform um önnur meiri. Við þá raunsæju vitneskju miðast íhaldsstefnan (conservatism). Án þess að ég sé að skrifa upp á hana almennt og fortakslaust, stend ég nær henni en laissez-faire liberalism (ofurfrjálshyggju) í þessu tilliti.
Samt er viss frjálshyggja nauðsynleg þjóðfélögum til að starfa vel: atvinnu- og tjáningarfrelsi, einkaeignarréttur og markaðslögmál. En eins og Theódór segir á sinn hátt, má markaðurinn ekki verða gersamlega sjálfala og eftirlitslaus. Í Bandaríkjunum, "landi frelsisins", er frelsið svo sannarlega ekki eftirlits- né takmarkalaust, þar er mikið af reglugerðum sem hefta það (misjafnt eftir ríkjunum) og jafnvel lögum sem banna t.d. auðhringamyndun, fákeppni og einokun. Þetta eigum við að taka okkur til fyrirmyndar – ekki hina áherzluna, sem fekk einmitt of mikið ráðrúm til áhrifa í stjórnartíð demókratanna Carters og Clintons, sem losuðu m.a. um hömlur á lánveitingum lánastofnana, gerðu þeim kleift að lána þeim án veða eða annarrar tryggingar, og þannig urðu til "undirmálslánin" til féminna fólks, jafvel sem partur af félagsmálapakka yfirvalda, sem lögðu áherzlu á, að ekki minna en visst hlutfall lána af þessu tagi færi til fátækra (sbr. blílalán bankanna okkar til félausra unglinga!), en vandi þessara undirmálslána var ein af helztu kveikjunum að bankakreppunni, sem einmitt hófst í Bandaríkjunum.
Vituð ér enn eða hvat?
Jón Valur Jensson, 1.8.2010 kl. 13:31
Þakka þér fyrir nafni. Þú vitnar í Jóna H. Haralz. Ekki veit ég hvort þú sért að vitna til sömu bókar og ég hef fyrir framan mig, en hún heitir Sjálfstæðisstefnan. Þar ritar Jónas um frjálshyggjuna.
Hann segir þar einnig að það þurfi skýran lagaramma og að frjálshyggjan gerði mjög ríkar kröfur til ríkisvaldsins. Einnig segir hann eins og ég, að frjálshyggjan sé hvorki fullkomin né veiti svör við öllu. Það hefur komið fram í mínum skrifum.
Auðvelt er að sjá að fyrri ríkisstjórn bjó ekki til þennan skýra lagaramma sem talað er um, að því leit var frjálshyggja ekki framkvæmd. Einnig, svo ég endurtaki mig, þá var einkavæðing bankanna smkv. skilgreiningu margra á þeirri framkvæmd ekki frjálshyggja hafi kaupendur verið handvaldir.
Þó að menn framfylgi ákveðinni stefnu, þá þarf líka að beita skynsemi. Ekkert mannana verk er fullkomið.
Jónas segir orðrétt; "því fer víðs fjarri að frjálshyggjan afneiti mikilvægi ríkisvaldsins. Hún ætlar því þvert á móti mikið og áríðandi hlutverk. En það hlutverk er fólgið í því að mynda hinn almenna grundvöll efnahagslífsins, að sjá fyrir sérstakri þjónustu og að móta og framkvæma samræmda heildarstefnu í efnahagsmálum".
Svo geta menn skoðað hvort stjórnvöld hafi gert það. Þótt menn geri eitthvað í anda frjálshyggju, þá þýðir það ekki endilega framkvæmd stefnunnar í heild.
Nú væri ágætt, því ég tel það góða rökfræði að nota heimildir máli sínu til stuðnings, að menn komi með skýr dæmi, þ.e.a.s. vitni í frjálshyggjustefnuna og spegli hana við aðgerðir stjórnvalda. Þá er kannski hægt að finna það út, hvort frjálshyggja hafi ráðið för eður ei.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 14:13
Jón Ríkharðsson, ég kannast ekki við að hafa sýnt þér eða þínum skoðunum einhverja óvirðingu. Hinsvegar hef ég beðið um rökstuðning fyrir þeim skoðunum, enda reikna ég með því að þeir sem skrifa opinberlega um sínar skoðanir séu að kalla eftir umræðu.
Þú neitar því í upphaflega pistlinum að hægt sé að kenna frjálshyggjunni um hrunið. Ég bað einfaldlega um rök fyrir því þar sem það blasir við hverjum sem kynnir sér málin að hér óðu uppi postular frjálshyggjunnar (mikið til ríkisreknir eins og Hannes Hólmsteinn) og kröfðust frelsis og takmarkaðs eftirlits.
Lestu í því samhengi pistil Jónasar Kristjánssonar frá í gær þar sem hann sýnir fram á að Viðskiptaráð hafi barist fyrir einkavæðingu, eftirlitsleysi og taumlausri gróðafíkn og þetta hafi valdið hruninu.
Þú kemur með mjög vafasama fullyrðingu um að þetta sé ekki frjálshyggjunni að kenna heldur því að frjálshyggjumennirnir voru ekki sannir frjálshyggjumenn!
Þegar menn koma með svona furðulegar yfirlýsingar sem eru gjörsamlega á skjön við allt sem blasir við okkur, er til of mikils mælst að þeir færi einhver rök fyrir þeim? Felst óvirðing í því að biðja um rökstuðning?
Jón Valur, góðir punktar, litlu við þetta að bæta.
Theódór Norðkvist, 1.8.2010 kl. 14:16
Sá ekki svar þitt fyrr en ég hafði sent mitt og vil því bæta við.
Það má kannski segja að frjálshyggjustefnan eins og hún er útlistuð í kennslubókum Miltons Friedmanns hafi ekki verið framkvæmd 100%. En það er langur vegur frá því að fullyrða það og að afneita allri sök frjálshyggjunnar í hruni efnahags landsins.
Það sama má segja um kommúnismann í Sovétríkjunum, hann var aldrei framkvæmdur 100% í neinu ríki, ekki einu sinni Rússlandi.
Var þá bara í fínu lagi með kommúnismann?
Var allt það sem aflaga fór (hungursneyð, kúgun, dráp á milljónum bænda o.fl.) því um að kenna að kommúnistarnir voru ekki sannir kommúnistar?
Theódór Norðkvist, 1.8.2010 kl. 14:23
Theódór minn, ég veit ekki hve miklu er hægt að bæta við. Skilningur manna er mismundi á hinum ýmsu málum.
Ef ég reyni að komast að kjarna minnar skoðunar á þessu þá er hann þessi; ef menn vilja framkvæma frjálshyggju, þá þarf að taka allan pakkann. Ef frelsið er eingöngu aukið án þess að búa til skýran lagaramma, þá er það ekki frjálshyggja. Aðeins hluti af henni. Þess vegna segi ég að frjálshyggjan hafi aldrei verið framkvæmd og sú stefna í heild hafi ekki valdið neinu hruni. Á sama hátt kenna margir kristinni trú um að hafa valdið stríðum og ýmsum hörmungum, jafnvel þó að sú trú boði kærleik og frið.
Ég tel að valda og peningagræðgi mannsins sé frumorsök allra okkar vandræða. Sumir þykjast vera að framfylgja góðum stefnum, án þess að gera það í raun.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 15:07
Svo langar mig aðeins að bæta við Theódór, að eftir að hafa lesið athugasemdir mínar aftur, þá finnst mér ég hafa komið minni meiningu til skila. Í pistli mínum átti ég við frjálshyggjuna eins og hún er boðuð af þeim sem hönnuðu hana, en ekki þá áráttu manna að taka eingöngu það sem betur hentar. Vísa á aths. nr. 4. en þar segist ég notast við skilgreiningu þeirra sem hönnuðu frjálshyggjuna, í aths. nr. 13. kom ég með rök fyrir því að ríkisstjórnin hafi ekki starfað í anda þeirrar hugsunar sem ég vísa til í nr. 4., nr 25. vísa ég til þess, með öðru orðalagi en Jón Valur að stórar samsteypur sem hömluðu samkeppni ættu ekki að myndast væri henni framfylgt rétt.
Vissulega hættir mér til að nota fleiri orð en nauðsynleg eru. En mér finnst ég allavega hafa komið margoft minni meiningu til skila, án þess að gerast sekur um rökvillur.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 15:29
Þannig að þú vilt meina að ef frjálshyggjunni hefði verið framfylgt 100% (en ekki 60-70% eða hvaða hlutfall menn vilja finna út) hefði aldrei orðið hrun og allt gengið vel?
Theódór Norðkvist, 1.8.2010 kl. 15:42
Nei það vill ég ekki meina, satt að segja hef ég ekki hugmynd um það.
Sú einfalda staðreynd, sem varð að löngu þvargi og hártogunum um hugtakaskilning var sú, að mér finnst rangt að kenna stefnu um hrun, sem var ekki framkvæmd, þá meina ég eins og hún var sett fram í upphafi. Ég sagði þetta nú í strax í aths. nr 4., þótt ég hafi aðeins skerytt orðalagið þá mátti vel sjá það út úr orðunum.
Ég hef líka sagt að frjálshyggjan væri ekki fullkominn, einnig að meginorsök okkar vandræða, sem þýðir m.a. hrunsins er valda og peningagræðgi manna.
Það er mikill einfeldningsháttur að halda það að ein stefna hafi svör við öllu. Því hef ég aldrei nokkurn tíma haldið fram.
Eingöngu að frjálshyggjan væri best að því sem fundið hafi verið upp. En þar á ég ekki við seinni tíma túlkun og stefnubreytingu sem sumir kalla ofurfrjálshyggju. Það er munur á þessum tvem stefnum.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 16:00
Til að forðast misskilning, þá vil ég útskýra aðeins betur það sem ég sagði í upphafi síðustu athugasemdar. Vitanlega hefði hrunið orðið á fjármálamörkuðum heimsins þótt við hefðum framfylgt frjálshyggjustefnunni 100%. Við hefðum ekki farið varhluta af því. En mögulega hefði bankakerfið ekki verið svona margfalt stærra en hagkerfið, þá segi ég mögulega ef skýrari lagarammi hefði gilt. Eins og sjá má á spám manna um framtíðina, þá getur hún brugðist til beggja vona. Þess vegna treysti ég mér ekki til að segja hvað orðið hefði ef frjálshyggjunni hefði verið fylgt algjörlega.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 16:10
En vandamálið er að frjálshyggjan fer fram á að lagaramminn sé laus í reipunum.
Eins og Jón Valur bendir ágætlega á hér framar er best að láta ekki stjórnast af kreddum einhverra bókaorma. Mannskepnan hefur bresti og það er betra að reikna með þeim fyrirfram.
Theódór Norðkvist, 1.8.2010 kl. 16:29
Ég er í sjálfu sér sammála þessu og hef einnig margoft tekið fram að mér finnist frjálshyggjan ekki gallalaus.
Ég ætla rétt að vona að menn haldi áfram að þróa stjórnmálastefnur og allt sem tilheyrir mannlífinu. Vonandi kemur fram ný stefna sem er betur þróuð en hinar fyrri.
Eigum við svo ekki að segja þetta gott um þessi mál, við getum svo rætt eitthvað annað í framtíðinni. Ég held að við höfum báðir komið okkar sjónarmiðum til skila.
Ég vil fyrir mitt leiti þakka þér fyrir þínar athugasemdir og ágætt spjall, stundum krefjandi en alls ekki leiðinlegt þegar upp er staðið. Svo vinnum við saman sem einn maður í að mótmæala Icesave þvælunni. Þar erum við þó fyllilega sammála.
Jón Ríkharðsson, 1.8.2010 kl. 17:51
Theódór:
-Tollar
-Innlánatryggingar
-Stóraukin ríkisútgjöld
-Ríkisrekið heilbrigðis-og menntakerfi auk fjölda annarra stofnanna
-Einokun Seðlabanka Íslands á prentun gjaldmiðils.
-Lágmarkslaun
-Ríkisstyrkir til landbúnaðar
- Mörg fíkniefni ólögleg (kemur þó hruninu lítið við)
-FJármagnstekjuskattur
Greinilega taumlaust OFUR-frelsi eins og þú nefnir. Kannski ættirðu að kíkja á Wikipedia og bera kerfið okkar saman við skilgreininguna á "Liberterianism". Einnig ættirðu að fræða þig um hinar raunverulegu orakir hrunsins og hætta þetta lýðskrumi um gráðugu bankamennina sem fengu alltof mikið frelsi og ollu þannig hruninu. Það, Theódór minn, eru ekki rök.
Þorsteinn Friðrik Halldórsson, 1.8.2010 kl. 19:56
Útbelging ríkisbáknsins á valdatíma Sjálfstæðisflokksins – var það í anda kokkabóka frjálshyggjunnar, Theódór? Var ekki krafan "Báknið burt!" krafa frjálshyggjumanna?
Og er ekki meira til í því sem ég sagði í 6. innleggi síðunnar en menn eru reiðubúnir til að viðurkenna hér, þ.e. að nýir bókhaldsstaðlar ESB og EES fyrir endurskoðunarfyrirtækin fólu sí sér kerfisgalla sem bankar o.fl. stórfyrirtæki nýttu sér og orsökuðu þá fjármálabólu sem sprakk, hér jafnvel fremur en erlendis – og að þetta var í raun á ábyrgð ESB fremur en íslenzkra frjálshyggjupostula? Ennfremur brást alþjóðlegt eftirlitskerfi bæði ESA, OECD og erlendu matsfyrirtækjanna gersamlega (sbr. 10. innleggið hér).
En ég viðurkenni, að það var vissulega engin hjálp í því að hafa hér frjálshyggjumenn áhrifamikla í Sjálfstæðisflokknum og sér í lagi, að þeir voru í viðskiptatengslum við stórfyrirtæki og flokkurinn (FLokkurinn!) orðinn mikill styrkþegi Landsbankans o.fl. banka, Flugleiða o.s.frv. og sjálfur framkvæmdastjóri flokksins orðinn bankaráðsmaður í hinum einkavædda Landsbanka.
Nafni minn, flokkur þinn getur ekki þvegið hendur sínar af þessu með öllu. Æ sér gjöf til gjalda, og alvöru-stjórnmálaflokkur á ekki að gefa færi á því að láta það hafa áhrif á hlutverk sitt og frammistöðu á efnahags- og fjármálasviði, að hann sé kominn í sérstök velvildartengsl við sum stærstu fyrirtæki landsins og háður áframhaldandi stuðningi frá þeim. Ekki hefur það stuðlað að því, að menn hefðu varann á sér gagnvart sjálfræðislegri hrokaframgöngu og áhættufíkn þessara skuldsettu ofurfyrirtækja. Og tóku ekki pólitíkusar okkar (jafnvel fleiri en Sjálfstæðisflokks) þátt í því að tala niður og gera lítið úr gagnrýni danskra fjölmiðla o.fl. aðila á framferði stórfyrirtækja okkar og á meint gæði bankakerfis okkar?
Höldum friðinn, félagar, en tölum út um málin.
Með góðri kveðju,
Jón Valur Jensson, 2.8.2010 kl. 01:05
Það sem síðuhöfundur var hálfpartinn búinn að óska eftir að umræðunni yrði lokið ætlaði ég að virða það, en verð að svara fyrst athugasemdum er beint til mín.
Þorsteinn, það er enginn að segja að hér hafi ríkt einhver hrein frjálshyggja enda er hún svo róttæk að ekki er hægt að innleiða hana á fáeinum árum. Ég segi sem betur fer og er það vegna þess að margir stóðu á móti trúboðinu, því annars væri ástandið enn verra.
Hvort sem hér var 30%, 60%, 95% eða hvaða annað hlutfall frjálshyggju verður því varla mótmælt að eftirlitsleysið sem Viðskiptaráð og fleiri grenjuðu alltaf í gegn, ýmist með vælum eða hótunum, t.d. um að héðan yrði öllu fjármagni kippt í burtu, höfðu áhrif til að beygja stjórnvöld til hlýðni. Til viðbótar við auðvitað beina styrki til þeirra.
Jón Valur ég hef ekki kynnt mér öll ákvæði ESB og EES um bókhald (reyndar engin) og get því ekkert sagt til um þetta. Finnst það samt varla vera hægt að kenna ESB um, því þá hefði ástandið verið mun skárra í Bandaríkjunum. En við vitum að þar var geðveikin og spillingin enn meiri en í Evrópu ef eitthvað var.
Theódór Norðkvist, 2.8.2010 kl. 02:00
Mér finnst það sjálfsögð og eðlileg kurteisi af mér að þakka ykkur innlitið Þorsteinn Friðrik, Jón Valur og Theódór. Ég fyrir mitt leiti er búinn að útskýra mín sjónarmið eins og mér er unnt.
Ég hef sem sagt ekkert við neitt að bæta. En við ykkur þrjá vil ég segja að enginn af ykkur er þvargari í mínum huga, þannig að mér líkar það alls ekki illa þótt þið haldið umræðunni áfram, en ég hef allavega tæmt minn poka í þessu máli.
Jón Ríkharðsson, 2.8.2010 kl. 02:44
Theódór, þú þarft að kynna þér þetta mál um alþjóða-endurskoðunarstaðlana betur. Þeir voru ekki innleiddir (fyrir nokkrum árum) í Evrópu einungis, heldur líka vestan hafs og víðar. En ESB átti meginþátt í því, að þeir voru innleiddir hér – Ríkisendurskoðun gerði enga athugasemd við það, enda eflaust útbreitt í ráðuneytunum og stjórnarstofnunum að treysta flestu því sem frá Brussel kemur!
Jón Valur Jensson, 2.8.2010 kl. 04:56
Og ekki amaðist Alþingi við þessu. Þannig er ábyrgðin vissulega líka meðfram á mönnum hér á landi.
Jón Valur Jensson, 2.8.2010 kl. 04:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.