Sögur af sjónum.

Mig langar til að hvíla mig aðeins á hinu pólitíska þvargi um stund. En ég er í sagnastuði núna, sögur af sjónum hafa ekki mikið sést hér í bloggheimum.

Það er svolítið sérstakt umhverfi sem menn lifa í úti á sjó, lítið við að vera, sömu kallarnir og sama vinnan. Til að þola þetta umhverfi dunda menn sér við ýmislegt sér til gamans. Eitt af okkar áhugamálum er að gera örlítið grín að byrjendum. Það er einnig ágætis uppeldisaðferð og herðir þá upp. Til að geta verið til sjós þurfa menn að koma sér upp ákveðinni hörku.

 Einum nýliða var ég með sem var mikið snyrtimenni og þótti gott að ilma vel eftir sturtuna. Ég kom að honum þar sem hann var ný rakaður með rakspíraglas í hendi. Á glasinu stóð "Pour 'homme" á frönsku, en það þýðir víst"fyrir karlmenn". Ég spurði hann hvort hann vissi hvað þetta þýddi. Hann yppti öxlum og ég benti honum á þessi orð og sagði að þetta þýddi púra hommi. Hann taldi sig ekki af þeirri gerð, þannig að hann bölvaði móður sinni mjög fyrir að hafa gefið sér glasið. Vitanlega tóku allir undir þessa þýðingu mína, þannig að móðir hans hefur eflaust fengið það óþvegið er hann kom í land. 

Þessi skemmtilegi siður er ekki nýr af nálinni. Einn af gömlu árabátasjómönnunum var kallaður Stjáni blái. Hann þótti með afbrigðum handsterkur maður. Oft gerði hann sér það til gamans að klípa hraustlega í handlegg yngri sjómanna, þegar þeir veinuðu sagði hann gjarna; "ég hélt að vöðvarnir hafi styrkst af árinni lagsi, en það er víst spauglaust með meyjarholdin". Hægt er að ímynda sér að menn hafi ekki verið glaðir með athugasemd Stjána.

Svo er sagt frá því í einum stað í bókaröðinni "Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson að ungir menn og nýtrúlofaðir tálguðu gjarna þvottaklemmur fyrir unnustur sínar. Þeir vönduðu sig mjög við verkið, því ef það var óhönduglega gert sögðu hinir eldri að þeir ættu ólögulegar unnustur.

Strákagreyin gátu ekkert sagt því á átjándu öldinni voru engar myndavélar og þeir voru oftast langt frá heimahögum.

Það er gaman að velta því fyrir sér hvað margir hlutar mannlífsins breytast lítið í aldanna rás. Enn þann dag í dag dunda menn sér við að grínast við nýliða. Ég fékk einnig aðeins að finna fyrir svona móttökum þegar ég byrjaði til sjós. Það sleppa fáir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband