Mánudagur, 2. ágúst 2010
Það er erfitt að dæma mannanna verk.
Fyrirsögnin speglar ágætlega mína skoðun varðandi hæfileika manna til að dæma sjálfa sig og aðra.
Fyrir hartnær tvöþúsund árum lifði og starfaði maður í Mið-austurlöndum sem gefið var nafnið Jesú og hlaut heiðursnafnbótina Kristur þegar líða tók á hans annars stuttu æfi. Góðir menn hafa bent á þá staðreynd að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og hef ég enga ástæðu til að draga það í efa, enda er ég kristinnar trúar og mjög einarður í þeirri afstöðu.
Sá góði maður var algerlega gallalaus, en hann fékk nú að líða fyrir það, enda vissum hluta mannkyns afar illa við gáfaða menn, þeir sem fara með völd tilheyra gjarna þessum parti mannlífsins. Hann var nefnilega krossfestur eftir að hafa þolað hinar ýmsu kvalir af völdum óvandaðra manna.
Þar sem Jesú var fullkominn í alla staði þá var hann mjög glöggur á mannlegt eðli. Í einni af sinni frægu ræðum, "fjallræðunni" benti hann okkur á þá staðreynd, að við eigum ekki að dæma hvert annað.
En einhverja leið þurfum við að hafa til að geta lifað saman í þokkalegri sátt. Fyrir daga frelsarans höfðu menn reyndar komið sér upp ágætis aðferð til að tryggja öryggi manna. Þeir bjuggu til það sem við þekkjum sem lög og reglur, til að gæta sín á rangtúlkunum tóku menn upp á að skrásetja lög. Síðan þróaðist réttarríki, dómsstólar osfrv. Að mínu viti þá eru dómsstólar hæfastir til þess að dæma, eftir að þar til bærir einstaklingar hafa eytt miklum tíma í að rannsaka málin.
Engum dettur til hugar að segja að dómsstólar komist alltaf að réttri niðurstöðu, þeir eru nefnilega samansettir af mönnum. Allir menn hafa þann djöful að draga að geta gert mistök, heimurinn er ekki fullkominn.
Mörgum kann að þykja það undarlegt að skrifa á þessum nótum, þetta ættu að vera svo augljósar staðreyndir. Já, þótt Jesú hafi varað okkur við á sínum tíma, þá er eins og sumir skilji þetta ekki enn jafnvel þótt langt sé um liðið. Enn þann dag í dag er verið að fella harða dóma yfir einstaklingum, bæði hér í bloggheimum sem og annarsstaðar. Dómstóll götunnar dæmir menn sem glæpamenn, landráðamenn, þjófa osfrv. Það er hægt að gruna marga um fyrrgreinda glæpi, en samkvæmt fornum venjum þá hljóta menn ekki þann vafasama titil að vera glæpamenn nema að dómur að undangenginnni rannsókn hafi farið fram.
Dómstóll götunnar byggir fyrst og fremst á tilfinningum en nánast engum rannsóknum, í það minnsta mjög takmörkuðum. Menn hljóta hina þyngstu dóma í kjölfar grunsemda og gleymist þá oft, að ekki er verið að dæma viðkomandi einstakling eingöngu, heldur einnig hans nánustu.
Hægt er að gera sér í hugalund sálarstríð barns sem les það í fjölmiðlum að faðir þess sé glæpamaður. Þá hefur dómstóll götunnar valdið saklausu barni óþarfa vanlíðan, sem oft getur verið ansi sár.
Þess vegna legg ég til að menn segi upp störfum í dómstóli götunnar og láti fagmenn sjá um verkin.
Athugasemdir
Skemmtilega skrifaður pistill, eins og þín var von og vísa, nafni minn,
... og glöggur, ekki skal gleyma því.
Jón Valur Jensson, 3.8.2010 kl. 01:17
Þakka þér hólið kæri nafni og innlitið.
Jón Ríkharðsson, 3.8.2010 kl. 01:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.