Miðvikudagur, 4. ágúst 2010
Sungið Guði til dýrðar.
Ég ákvað það eftir að ég söng fyrst fyrir bloggheima að annað slagið skyldi ég lauma inn lagi. Bak við fyrsta lagið var enginn sérstök hugsun, mér finnst bara gaman að syngja það.
En nýjasta lagið "Amaising grace" hef ég ekki sungið nógu oft né önnur lög sem vegsama Drottinn. "Amaising grace" þýðir að ég tel "hin undursamlega náð". En það er hugsun á bak við þann söng og það er sungið af mikilli tilfinningu og einlægu þakklæti til guðs. Hann hefur lengi verið mér góður, þótt ég hafi ekki alltaf átt það skilið, en svona er Drottins náð, hún er ekki alltaf verðskulduð.
Ég þyki fremur sérstæður í augum margra og sjálfum finnst ég vera óttalegur sérvitringur stundum. Ég hugsa að guði finnist það líka. Oft held ég að hann veiti mér þessa miklu náð af því að hann hafi gaman af mér. Mér finnst ég stundum skynja það án þess að geta útskýrt það. Oft í bænum mínum tala ég við hann eins og hann væri maður, nöldra yfir hinu og þessu sem ergir mig osfrv. Þá á einhvern undarlegan hátt skynja ég einhverskonar þægilegan hlátur og ég verð mjög glaður.
Ég geri ráð fyrir að "Vantrúarmenn" glenni upp augun fyrst þeir sjá guð nefndan á nafn, þeir eru einstaklega áhugasamir um allt sem við kemur trúmálaumræðu á netinu. Við þá vil ég segja, að ef þeim finnst vera truflaður maður hér á ferð, þá skal þeim svarað á þann veg, að þessi "truflun" hefur veitt mér það mikla gleði að ég vil alls ekki losna við hana. Ég álít þetta vissulega ekki truflun.
Þetta lag er þakklætisvottur frá mér til hans, einnig sungið í þeirri von að trúaðir geti notið þess líka.
Af virðingu minni við Drottinn vil ég taka það fram, að þótt ég sé alla jafna áhugasamur um þvarg í netheimum og hafi gaman af skrítnum þvörgurum, þá mun öllum þeim ummælum sem túlka má sem gagnrýni á guðstrú eytt.
Ég geri það bara í þetta skipti, því þessi pistill sem er órjúfanlegur hluti af laginu er lofgjörð til guðs. Hana má ekki skemma með óguðlegum ummælum.
Hugsum svo til Drottins og lofum hann fyrir fegurð lífsins.
Smellið svo á spilarann og njótið vel.
Athugasemdir
Mér barst góð ábendingum frá góðvini mínum hér í bloggheimum varðandi stafsetningu mína.
Amaizing grace átti að standa í pistlinum, með z en ekki s. Sem betur fer þá skrifaði ég það rétt á spilarann.
En svona eiga kristnir vinir að vera, benda hver öðrum á. Það er hluti af boðskap Biblíunnar.
Jón Ríkharðsson, 4.8.2010 kl. 00:51
Falleg er rödd þín, Jón, og góð þín lofgjörð til Guðs í tónum og skrifuðum orðum.
Kærar þakkir!
Jón Valur Jensson, 4.8.2010 kl. 00:55
Virkilega vel sungið og tjáning þín til Guðs þíns falleg.
Dingli, 4.8.2010 kl. 01:13
Góður pistill og enn betra lag sem lyfir mannsandanum yfir dægurþras bloggheima.
Guðmundur St Ragnarsson, 4.8.2010 kl. 01:18
Þakka ykkur báðum fyrir áheyrnina Jón Valur og Dingli og hólið.
En þar sem þetta á allt að vera á kristilegum nótum, þá er mín rödd guði að þakka. Ég hef lítið gert til að rækta hana.
En það þýðir eki að ég vilji ekki hrós, mér hlýnar alltaf mjög um hjartarætur þegar ég fæ svoleiðis trakteringar, þær láta ljúft í eyrum.
Jón Ríkharðsson, 4.8.2010 kl. 01:34
Þetta er flott hjá þér Jón og þú hefur góða rödd. Ég get ekki heyrt betur en að söngurinn hjá þér flæði mjög vel með undirspilinu.
Þegar ég verð búinn að læra Amazing Grace á píanóið væri ég alveg til í að taka það með þér, þ.e. spila undir þinn söng.
Theódór Norðkvist, 4.8.2010 kl. 01:50
Þakka ykkur báðum fyrir ykkar ummæli, þau gleðja mig afskaplega mikið, það liggur við að ég roðni eins og smástelpa. En við togarajaxlarnir erum nú óttalega litlir í okkur oft, þótt við förum yfirleitt dult með það.
Theódór, ef þú ert liðtækur á píanó þá er ég meir en til í að hitta þig. Mig hefur alltaf langað til að geta "jammað" með einhverjum. Það getur verið ágæt tilbreyting að spila með öðrum, ég hef alltaf sungið einn, aðallega með sjálfum mér en ég á það nú til að fá strákana um borð til að syngja með mér niðr í lest þegar vel liggur á mér.
Já Guðmundur, lofgjörð til guðs lyftir andanum svo hátt yfir dægurþras bloggheima að auðvelt er að gleyma að það sé til.
Jón Ríkharðsson, 4.8.2010 kl. 02:18
Þakka þér Jón, djúp og karlmannleg rödd og vel til þess fallin að syngja Amazing Grace. Vissulega er náðin undursamleg og ég syng líka undir með:
I once was lost, but now am found,
Was blind, but now I see.
Gúglaði söguna á bak við sálminn svo hægt sé að hafa allt á sömu færslu. Takk.
@ Theódór: hérna eru síðan nóturnar
skemmtið ykkur vel strákar
Ragnar Kristján Gestsson, 4.8.2010 kl. 09:35
Kæri Ragnar, þakka þér innilega fyrir þessa áhugaverðu frásögn um lagið.
Enskukunnátta mín er ekki sterk, hún nægir til að halda uppi samræðum og ég get stautað mig fram úr einföldum texta.
Það er ýmislegt sameiginlegt með mér og höfundi lagsins, báðir sjómenn, hann var reyndar barn síns tíma og lenti í annarskonar raunum en ég.
Þeir sem eru lengi á sjó við Íslandsstrendur komast ekki hjá því að lenda í hættulegum aðstæðum og oft hefur staðið tæpt. Þetta er nefnilega lífshættulegt starf og ein hreyfing getur oft ráðið um hvorum megin tilverunnar maður lendir.
Ég hef ekki þótt verkár á sjónum, ég er óttalegur göslari og geri oft hluti sem eru hættulegir í fljótfærni. Ástæðan fyrir því að ég hef aldrei lent í slysi og er enn á lífi er ekki mín skynsemi og heldur ekki einskær heppni.
Ástæðan er mjög einföld, það er algóður Guð, sá sem skapað hefur alheiminn og allt sem í honum er, hefur á mér stöðugar gætur.
Ég hef oft verið týndur, en ekki týndur fyrir Guði. Það er langt síðan ég var síðast týndur og vonandi er ég hættur svoleiðis vitleysu.
Það skemmtilegasta við Drottinn er þessi yndislega kímni sem ég á einhvern hátt skynja.
Bænir hef ég alltaf beðið, þannig samband mitt við Guð hefur aldrei alveg rofnað. Þegar ég var að rölta á mínum eigin leiðum fannst mér eins og hann brosti og sagði; "jæja vinur, ég bíð rólegur. Þú kemur svo til mín þegar þú ert tilbúinn".
Og alltaf kom ég aftur, en Guð var kyrr á sínum stað og tók við mér án þess að núa mér mistökum mínum um nasir.
Hann er nefnilega umburðarlyndur og lítt gefinn fyrir óþarfa nöldur.
Jón Ríkharðsson, 4.8.2010 kl. 11:57
Sæll og blessaður
Hve dýrleg er Guðs undra náð.
Flott hjá þér. gaman að heyra ykkur spjalla á eftir :-))
Guð veri með þér
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.8.2010 kl. 04:24
Takk fyrir innlitið Rósa mín, þú ert alltaf auðfúsugestur á mína síðu.
Ég er farinn að sakna þess að heyra ekki frá þér, en Guð veri með þér líka.
Jón Ríkharðsson, 5.8.2010 kl. 20:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.