Hvað liggur að baki ESB umsóknarinnar?

Ekki er ólíklegt að eitthvað hafi farið framhjá mér í þessu ESB umsóknarferli, þannig að ég óska eftir leiðréttingum ef ég fer með rangt mál.

Í málflutningi aðildarsinna hefur helst heyrt um hvað ESB getur gert fyrir okkur. Í samningaviðræðum er heppilegra að báðir aðilar hafi upp á eitthvað að bjóða, því ef íslendingar ætla að vera eingöngu í hlutverki þiggjanda, þá er hætt við að málið minni óþægilega mikið á atburðina sem áttu sér stað árið 1262. 

Þær aldir sem við lutum erlendum yfirráðum þurftum við að þola lítilsvirðingu af hálfu okkar erlendu herra. Það var ekki vegna þeirra mannvonsku, heldur vegna þess að íslendingar höfðu ekki upp á neitt að bjóða, vildu bara þiggja.

Eitthvað hefur heyrst þess efnis að við hefðum upp á svo góða þekkingu að bjóða í fiskveiðistjórnun. Það hljómar líkt og þegar við höfum tekið þátt í Eurovision og einnig þegar við vorum í framboði í öryggisráðinu. Útlendingar voru spurðir álits og vitanlega sýndu þeir kurteisi. Það er ekki ósvipað og þegar góðleg kona með einfeldningssvip og í forljótum kjól spyr menn álits á kjólnum. Enginn vill særa vesalings konuna og menn segja að kjóllinn sé fínn.

ESB hefur gefið í skyn að við fáum enga sérmeðferð í fiskveiðimálum. Í diplómatískum samningaviðræðum tala menn oft undir rós. Ef talað yrði hreint út, myndi þetta væntanlega þýða að okkar auðlyndamál yrðu meðhöndluð eftir því sem heildarhagsmunir ESB segðu til um í framtíðinni.

Það er heldur ekkert sjálfgefið að þeir í sambandinu gleypi allt hrátt sem við segjum varðandi fiskveiðimál. Það getur allt brugðist til beggja vona. ESB leggst alfarið gegn hvalveiðum, ólíklegt er að við hefðum einhver áhrif á það sjónarmið.

Við þurfum svo sem ekkert að skammast okkar fyrir menntun og þekkingu á ýmsum sviðum, en að halda að við stöndum öðrum þjóðum framar, það er barnaskapur. Benda má á nýlegt dæmi, en fyrir skömmu síðan þá töldu íslendingar sig geta kennt öðrum þjóðum ýmislegt varðandi fjármál og viðskipti ásamt nýjum vinnubrögðum varðandi kaup á fyrirtækjum. Fáir eru á þessari skoðun í dag.

Við erum lítil þjóð með ágæta þekkingu á veiðum og vinnslu sjávarfangs. Þar stöndum við mörgum þjóðum framar. Einnig eigum við möguleika í álframleiðslu, okkur hefur gengið ágætlega á því sviði einnig.

Við eigum enn langt í land, enda erum við ungt lýðveldi með stutta sögu. En það þýðir líka að við eigum möguleika á að finna upp nýjungar á sviði stjórnsýslu, jafnvel nýjar stefnur í pólitík. Frjór hugur landans bíður upp á endalausa möguleika. En samhliða því þurfum við einnig að þróa það sem við þegar kunnum, einhvers staðar þarf að fá tekjur.

Sökum smæðarinnar eru boðleiðir einfaldari og styttri. Sem sjálfstætt lýðveldi höfum við fleiri tækifæri á viðskiptum við þjóðir utan ESB, það er ekki hyggilegt að klúðra því í fljótfærni.

Svo ein spurning að lokum, hvað höfum við upp á annað að bjóða handa ESB en okkar auðlyndir? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband