Mánudagur, 9. ágúst 2010
Allt upp á borðið.
Nú situr við völd ríkisstjórn sem gaf það út í upphafi að hún vildi hafa allt upp á borðum. Þótt ég teljist seint aðdáandi vinstri manna, þá fannst mér þetta nú ágætis hugmynd hjá þeim. Einnig fór fram þjóðfundur sem kallaði eftir heiðarleika.Ekki man ég betur en að "hinni tæru vinstri stjórn" hafi hugnast sú niðurstaða nokkuð vel.
Mér finnst kominn tími á efndir, ég er nefnilega mjög hrifinn af því að hafa gegnsæi á sem flestum sviðum. Nú langar mig að koma með smá tillögur, því ég veit að Jóhanna og Steingrímur Joð eru í hópi minna tryggustu lesenda.
Það væri ágætt að byrja á því að rannsaka allt varðandi Icesave, frá því að Indriði og Svavar voru valdir og til dagsins í dag. Það er margt í því máli sem hefur valdið mér hugarangri og ég veit að ég er ekki einn um það.
Svo væri ágætt að fara aðeins yfir kostnaðinn í kring um það mál sem og kostnað og framkvæmd aðildarviðræðna við ESB. Það þarf að rannsaka þessi mál vandlega og fá allt upp á borðið, ég veit að margir eru mér sammála.
Einnig finnst mér ýmislegt undarlegt varðandi ráðningu og brotthvarf umboðsmanns skuldara. Það er talið rangt að maður í mikilvægu embætti hafi þegið lánakjör umfram það sem almenningur átti kost á. Félagsmálaráðherra á að hafa einnig þegið lán á betri kjörum en ég ræfillinn á kost á. Þetta er ekki öfund hjá mér, ég er ekki áhugasamur um lántökur því ég er svo gamaldags að eðlisfari, mér finnst betra að eiga fyrir hlutunum.
Mér finnst bara svo skrítið að félagsmálaráðherra muni ekki hvað hann fékk margar milljónir, ef það er rétt eftir honum haft. Maður eins og ég, sem telst ekki minnugri en gengur og gerist, ég gæti þulið upp öll þau lán sem ég hef fengið í gegn um tíðina, núna strax. En þar sem að það hvílir ekki upplýsingaskylda á hásetablókum eins og mér, þá leyfi ég mér að halda mínum fjármálum fyrir mig. Þau eru heldur ekkert áhugaverð.
Kæru vinir Steingrímur Joð og Jóhanna, ef þið eruð að lesa núna, eða þegar þið hafið tíma til að lesa þennan pistil.
Gerið það fyrir okkur alþýðuna að láta rannsaka öll ykkar verk. Það á ekki að óttast sannleikann, hann kemur í ljós á endanum. Fyrst þið voruð svona áhugasöm um að láta rannsaka allt hjá "helvítis íhaldinu" eins og þið segið stundum, hvers vegna ekki að rannsaka allt sem að ykkur snýr?
Við alþýðan eigum skýlausa kröfu á að vita allt um ykkar embættisfærslur. Allt pukur er óásættanlegt.
Og að lokum til ykkar þvargara, þá vil ég líka að mínir menn, sjálfstæðismenn verði rannsakaðir ef grunsemdir eru uppi um eitthvað misjafnt. Ég vil að allir verði rannsakaðir sem hafa eitthvað vafasamt í sínum fórum.
Allir, óháð pólitískum skoðunum.
Athugasemdir
Þetta eru orð sem mér líkar að lesa.
Eiríkur Harðarson, 9.8.2010 kl. 02:39
Þakka þér fyrir, þú gamaldags að eðlisfari og velkomin í klúbbinn.
Hrólfur Þ Hraundal, 9.8.2010 kl. 09:28
Þakka ykkur báðum innlitið, það er alltaf gaman að fá viðbrögð frá greindum og málefnanlegum mönnum.
Jón Ríkharðsson, 9.8.2010 kl. 19:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.