Hefur framþróun orðið okkur til góðs?

Það er gott að velta því fyrir sér hvort framþróun síðustu ára hafi orðið okkur til góðs. Þeirri spurningu er hægt að svara bæði játandi og neitandi. En ég tel það rétt að hægja aðeins á þróuninni og vinna í því, að bæta þann skaða sem hún hefur valdið. Á sama tíma getum við notið kostanna.

Andleg líðan landsmanna skiptir miklu máli fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar. Erfitt er að sjá að þessi ágæta þróun hafi bætt andlega líðan þjóðarinnar.

Eitt það mesta lán sem mig hefur hent var að kynnast ömmu minni mjög náið, en hún var fædd skömmu eftir byrjun síðustu aldar og hóf för á önnur tilverustig í byrjun þessarar aldar. Allan tímann sem hún lifði hafði hún góða andlega heilsu og aðdáunarvert minni til hinstu stundar.

Hún kynntist vel ömmu sinni og lærði margt af henni, ég hef það víst frá gömlu konunni að vera gefinn fyrir að hlusta eftir reynslu fyrri kynslóða.Síðustu árin sem hún lifði var farið að bera á umræðu um þunglyndi og önnur vandamál á hinu andlega sviði. Gamla konan var hissa á þessu, hún sagði að þegar hún var ung, þá vissi hún varla af þessum hvimleiðu vandamálum.

Vitanlega var ekki lífið tóm gleði, en fólk tók aðstæðum af meira æðruleysi og var ekki að fara á límingunum út af minnstu frávikum.Hún mundi vel tíma torfhúsa og baðstofumenninguna kannaðist hún vel við. Fólk var í mikilli nánd hvert við annað og sótti styrk hvert hjá öðru.

Vissulega voru fordómar og vanþekking til staðar, hægt er að fallast á að geðfatlaðir og samkynhneigðir eigi betri vist í dag heldur en þá. En lífið hefur aldrei verið fullkomið.Það besta við gamla tímann var kyrrðin og friðurinn, einnig hjálpsemin.

Okkur vantar það í dag, en ef vilji er fyrir hendi, þá getum við skapað þessar aðstæður á ný.Svo er það blessuð kreppan sem allir tala um. Það var líka kreppa hérna á fjórða áratugnum og mikið atvinnuleysi. Faðir minn ólst upp í bragga á Skólavörðuholtinu.

Ég heimsótti bróður hans fyrir skömmu og hann fór að segja mér frá braggalífinu. Þegar hann vaknaði á morgnana, þá var nú ekkert sérstaklega hlýtt, einnig var ekki óalgengt að rottur skriðu yfir sængina hans, þær voru hluti af tilveru fólks sem bjó við þessar aðstæður.En faðir minn og hans systkini komust öll til manns og náðu að lifa prýðis lífi þrátt fyrir aðstæður í æsku sem fáir myndu höndla í dag.

Aðstæður okkar eru margfalt betri í dag en þær voru í kreppunni hinni fyrri. Samt virðist fólk vera með jafnmikinn, ef ekki meiri barlóm í dag. Hvers vegna skyldi það nú vera?

Fyrir mörgum árum voru sýndir í sjónvarpinu þættir sem nefndust "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins".Þjóðinni tókst að slíta af sér hlekkina og hófst til hæstu hæða. Með frekari framþróun gleymdum við okkur, við hlekkjuðum hugarfarið á ný í svartsýni og gremju.

Besta framþróun sem hægt er að hugsa sér í dag snýr ekki að framþróun í tækni né uppgötvun nýrrar þekkingar.Besta framþróun okkar verður, ef okkur tekst að slíta af okkur hlekki hugarfarsins. Þá verðum við frjáls og ekki lengur fangar þess þrúgandi hugarfars sem nú ríkir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Sæll Jón.Það er hverjum manni hollt og lesa hugleiðingar þínar.Þar kemur m.a.fram að framþróun hefur verið mikil frá um miðja síðustu öld,fram á þennan dag.

Mikil fátækt ríkti fyrir stríð og fram á sextugasta ára tug.Undirritaður aldist hjá móðir minni ásamt systkinum.Bjuggum við undir bárujárnsboga við Ægisgarð og Skólvörðuholti,kannast ég við lýsingu föðurbróður þíns rétt.Er mér það minnisstætt að ég gerði það til dundur að telja grýlukertin í loftinu.

Flest af þeim börnum,sem þurfti að alast upp við slíkar aðstæður,urðu að berjast til menntunar á eigin forsendum.Unnið myrkrana á milli á sumrin til að safna fyrir skólagjöldum og námsefni.Mín leiksystkin hafa komist vel til ára,og eru mætir borgarar.Framþróunn þeirra lífs,hefur í sumum tilfellum verið lýgileg.Get ég bent á fólk,sem eru framarlega í þjóðfélaginu.

Svo er til andhverfa  í þjóðfélaginu.Má þar nefna fólk,sem fæddist með gullskeið í munninum.Í mörgum tilfellum hefur það farið til menntunnar fyrir foreldra sína,en ekki fyrir sig.Síðan tekið við góðu búi,en ekki þurft mörg ár til að fara með það allt á hausinn.

Á þessum dæmum má segja að framþróun,sem byggist á hægt og sígandi bata er æskileg.En framþróun sem byggist á miklu fjármagni,sem leiðir að græðgisvæðingu er fjandsamleg.

Ingvi Rúnar Einarsson, 9.8.2010 kl. 18:26

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Ingvi. Ég tel að unga fólkinu væri það hollt að hlusta á þína reynslu sem og allra sem eru af Þinni kynslóð.

Mér fannst síðasta málsgreinin hjá þér ansi góð. Þótt ég sé harðast sjálfstæðismaður landsins, á hef ég aldrei verið hrifinn af peningagræðgi. En ég dáist að vinnusemi og dugnaði og mest dáist ég að skynsömum og yfirveguðum einstaklingum.

Jón Ríkharðsson, 9.8.2010 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband