ESB sinnar og Bjartur í Sumarhúsum.

ESB sinnarnir hafa oft líkt okkur sem andstæðir eru aðild við hina frægu sögupersónu Bjart úr Sumarhúsum. Flestir hafa lesið hina góðu bók Nópelsskáldssins "Sjálfstætt fólk", þannig að vitað er að Bjartur var ógurlega þröngsýnn maður sem sá ekkert nema hokur á heiðarbýli. Erfitt er að skilja hvað andstæðingar ESB aðildar eigi sameiginlegt með þessari ágætu sögupersónu, en sjá má margt sameiginlegt með mörgum aðildarsinnum  og Bjarti.

Sumarhúsamennirnir í aðdáendahópi ESB virðast ekki sjá neitt annað en innlimun í sambandið. Einn hámenntaður maður úr hópi aðildarsinna ritaði grein í  Fréttablaðið fyrir skömmu.

Þar benti hann á þá staðreynd að ESB hugsaði fyrst og fremst um sambandsríkin. Brusslemenn vilja helst ekki mikla fjölgun landa innan sambandsins, að sögn menntamannsins fróða. Það kann að vera rétt, en hvers vegna vill sambandið fá okkur inn?

Ekki hafa aðildarlöndin sýnt okkur stuðning í gegn um tíðina og fátt sem bendir til þess að þau séu svo hrifin af þessari þjóð. Jafnvel þótt Sumarhúsabændur hrópi hátt á torgum umvináttu Brusselmanna í okkar garð.

En hver er birtingarmynd vináttunnar?

Hægt er að leita fjóra áratugi aftur í tímann, en þá höfðu íslendingar gert fríverslunarsamning við Evrópu, EFTA samninginn. Skömmu síðar virtist sem samningurinn héldi ekki lengur því Danmörk og Bretland gengu í EB. En það fór betur en á horfðist því EB EFTA ríkin náðu fríverslunarsamningi með iðnaðarvörur, ef ég man rétt.

En við fengum ekki að njóta þessara fríðinda fyrr en fjórum árum eftir að samningurinn var gerður, vegna þess að við áttum í útistöðum við Breta. EB snerist gegn okkur vegna þorskastríðsins.

Í því tilfelli voru deilurnar á milli tveggja þjóða, Breta og íslendinga, við áttum ekki í neinum deilum við önnur ríki á þessum tíma.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um stuðning ESB við Breta og hollendinga í Icesave deilunni.

Í ofangreindum tilvikum er um deilur og mismunandi túlkanir að ræða, en ekki að við höfum verið sek um eitthvað ólögmætt. Þannig er ekki er tilefni til refsiaðgerða gegn okkur samkvæmt almennri túlkun á lögum.

ESB er að stofninum til tolla og viðskiptabandalag. þess vegna er fáránleg þessi árátta Brusselmanna að heimta að aðildarríkin taki upp allskonar reglur sem samdar eru eftir þeirra geðþótta.

Hér fyrr á árum töluðu margir um bananalýðveldi á Íslandi vegna þess að hér mátti kaupa og þamba brennd vín í lítratali, en verslun með bjór var bönnuð. ESB bannar sínum aðildarríkjum að versla með munntóbak og fínkorna neftóbak.

Erfitt er að sjá viðskiptahagsmuni tengda neyslu á munntóbaki, þótt hún sé ekki beinlínis heilsusamleg. Svo eru það reglurnar um hvíldartíma bílstjóra. Það tók talsverðan tíma að útskýra fyrir Brusselmönnum að við værum með styttri vegalengdir en mörg önnur ríki ESB.

Ofangreindar reglur finnst mér bera vott um kjánalega stjórnsemi og hægt er að tína fleira til, en það skiptir ekki máli í heildarmyndinni.

Það sem Sumarhúsamenn eiga bágt með að skilja er, að innan ESB eru aðeins 8% af ríkjum heims, það er frekar lítill hluti af heiminum öllum. En Sumarhúsabændur eru eins og fóstbróðir þeirra Bjartur, hann sá aðeins kotbýlið á heiðinni.

Við sem erum andstæðingar aðildar erum engir andstæðingar sambandsins. Við höfum opinn huga og víðsýni að leiðarljósi og viljum samskipti við 100% af heiminum, því slæmt er að hafa öll eggin í sömu körfu. Við viljum ekki láta útlendinga gera milliríkjasamninga fyrir okkur því við þekkjum okkar hagsmuni betur en þeir í Brussel gera.

En það má segja að Sumarhúsakynið hafi þróast með árunum. Bjartur þráði bara smáblett uppi á heiði til að hokra í og daðra við sérviskuna, Bjartarnir á eftir honum eru þó allavega farnir að horfa út fyrir landsteinanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband