Þrír menn sem sáu í hvað stefndi.

Margir eftiráskýrendur hafa hlaupið hratt út á ritvöllinn og hrósað sér af visku sinni og spádómsgáfum. Þeir töldu sig hafa séð hrunið fyrir, jafnvel í hinum smæstu atriðum. 

Þremur mönnum man ég eftir sem sáu eitthvað bogið við föndur fjármálafursta og útrásarvíkinga, en þjóðin hlustaði ekki. Það gefur til kynna að þjóðin öll var með dollaramerki í augum og sá ekkert annað en meiri hagnað með hverju árinu sem liði, jafnvel um alla framtíð.

Ég viðurkenni að hafa verið í þessum heimskulega hópi og skammast mín fyrir það, ég var staurblindur á raunveruleikann. Þess vegna get ég ekki kennt öðrum um hvernig fór. Þegar heimskan er ráðandi geta menn sjálfum sér um kennt þegar þeir fylgja henni í blindni.

Mig langar að fjalla um þrjá menn sem létu heimskuna ekki glepja sér sýn.

Fyrstan er að tekja Jón Magnússon hrl., en við höfum verið ágætir vinir í nær aldarfjórðung. Mér fannst hann frekar svartsýnn þegar hann talaði um það að enginn verðmæti stæðu að baki þessu svokallaða góðæri. Hann byrjaði að tala um þetta við mig árið 2004. Einnig skrifaði hann margar upplýsandi greinar um margt sem við hefðum mátt taka mark á.

En á þessum tíma voru erlendir og virtir hagfræðingar að tala um að hagkerfi heimsins væri svo þróað, að ekkert gæti gerst í líkingu við kreppuna á þriðja áratugnum. Heimurinn allur spilaði með og margir útlendingar treystu útrásarvíkingunum okkar og sögðu þá góða og áræðna í viðskiptum. Þessu trúðu nær allir landsmenn.

Svo var það Ragnar Önundarson, en hann kannast ég ágætlega við og veit að hann er vandaður og greindur maður. Hann skrifaði fjölda greina frá árinu 2005 í Morgunblaðið, en enginn lagði við hlustir. Allir voru í gleðivímu dansandi kring um gullkálfinn. Ég heyrði Ragnar segja frá því fyrir skömmu að einn maður í forystu Sjálfstæðisflokksins hafi lagt við hlustir og verið honum sammála.

Hver skyldi það hafa verið?

Það var Davíð Oddson, en hann var aldrei neitt hrifinn af gjörðum fjármálafurstanna. En hann var bara sagður neikvæður og pirraður yfir því að rangir menn græddu fé. Davíð sagði á fundi Viðskiptaráðs árið 2004 að bankarnir þyrftu að fara gætilega í útlánum, annars gæti það haft slæm áhrif á lánshæfimat ríkissjóðs. En enginn lagði við hlustir, menn æstust frekar í dansinum í kringum gullkálfinn og föðmuðust þegar hlé var gert á dansinum og glöddust yfir því, að loksins væri búið að finna upp hagkerfi sem ekkert gæti grandað. Og glöð ungmenni sem nýbúin voru að uppgötva unaðssemdir þær sem felast í nánum samskiptum við hitt kynið, voru ekki í vandræðum með að byggja 300 fermetra einbýlishús ásamt því að kaupa splunkunýjan lúxus jeppa og ferðast til fjarlægra landa. Allt þetta gerðu þau áður en þau hófu framleiðsluferli til að bæta nýjum íslendingi í hópinn.

Davíð á það sameiginlegt með öllum sem eru af holdi og blóði, að sveiflast með umhverfi sínu að einhverju leiti. Þess vegna tel ég hann hafa brostið kjark til að gera það sem þurfti. Enda hefði hann verið hataðasti maður Íslandsögunnar og úthrópaður í fjölmiðlum sem hinn versti óþverri ef hann hefði gert það sem menn segja í dag að hann hefði átt að gera.

Ég held að þjóðin ætti að skammast sín og hætta að kenna öðrum um sínar ófarir.

Þessir þrír menn njóta mikillar virðingar fyrir að hafa séð að ekki var allt í lagi.

Við skulum leggja við hlustir og gaumgæfa það sem þeir segja í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Þörf upprifjun. Nauðsynlegt að halda þessu til haga nafni.

Jón Baldur Lorange, 23.8.2010 kl. 20:42

2 Smámynd: Guðmundur Kristinn Þórðarson

Góð grein í flestu sammála

Guðmundur Kristinn Þórðarson, 23.8.2010 kl. 21:03

3 identicon

Heill og sæll Jón minn; æfinlega - sem og, aðrir gestir þínir !

Mig plagar helzt; sá eiginleiki Ara fróða Þorgilssonar, frænda míns, að vilja ei halla réttu máli, Jón minn, komist ég hjá, þá alvarleg orðræða fer fram.

Davíð Oddsson; hinn Sunn- Mýlzki skálkur, var höfuð paur þeirra ódrengja, (ásamt EES boðberanum; Jóni Baldvin Hannibalssyni og Halldóri Ásgrímssyni)  hverjir skópu æfintýra flónunum þær aðstæður, sem gerðu þeim keyft, að koma okkur í þær andskotans ógöngur, sem við stöndum nú frammi fyrir.

Svo; til haga sé haldið, ágætu drengir. 

Með beztu kveðjum; sem jafnan /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason 23.8.2010 kl. 21:25

4 identicon

kleyft; átti að standa þar. Afsakið; helvítis fljótfærnina, piltar.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason 23.8.2010 kl. 21:31

5 Smámynd: Dingli

Sæll Jón R.

Þú getur kennt lífsreyndum skörfum sem þér, um að hafa ekki kveik á perunni. Að kenna ungu fólki sem gengur út í lífið með góða menntun og góða vinnu, sem í mörgum tilfellum var launuð út úr korti, um fyrirhyggjuleysi finnst mér ekki sanngjarnt.

Unga fólkið gekk sem unglingar inn í heim sem flaut í sméri, og vissi ekki betur en svo yrði áfram. Förustumenn þjóðarinnar kepptust um að dásama góærið,og  fjármála og síðar forsætisráðherrann, Geirharður, steig vart í ræðustól eða birtist á TV án þess að fjasa ekki um skuldlausann ríkissjóð.(var samt að taka hundruð milljara að láni í gegnum ástarbréf)

Ragnar Önundarson og Jón Magnússon gátu varað við, en fyrst engin hlustaði, þá gátu þeir ekki meir. Davíð Oddson hafði alla aðstöðu og völd til að neyða menn til að hlusta, en gerði ekki. Hann fór einnig fyrir klikkaðri! vaxtastefnu, sem allir vissu að var heimskuleg.

Því sem ég hefði svo villjað bæta hér við, er í innleggi Óskars Helga. 

Dingli, 24.8.2010 kl. 01:56

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka ykkur öllum innleggin Jón Baldur, Guðmundur Kristinn, Óskar Helgi og Dingli.

Það hefur náttúrulega hver sínar skoðanir á þessum málum sem eðlilegt er og það hef ég nú líka.

Eins og ég hef bent á í þessum pistli og öðrum, þá ríkti heimskan í heiminum og menn fara flatt á því að fylgja henni. 

Varðandi það Óskar hvort EES hafi verið upphafið á þessum ósköpum, þá get ég tekið undir það. EES samningurinn hefur að mörgu leiti reynst okkur dýr.

En ég minnist þess ekki að, á meðan heimskan ríkti hafi menn verið að tala um það. Allir dásömuðu þennan samning og sögðu hann hafa reddað okkur upp til hæstu hæða.

Enda má segja að tækifærin sem samningurinn bauð hafi getað orðið til góðs, menn misnotuðu hins vegar tækifærin og það varð til ills. Græðgi er aldrei góð.

En ég get tekið það líka fram Óskar, að ég hef alltaf verið ósáttur við þennan EES samning að mestu leiti.

Dingli, vaxtastefnan var ekki góð né heldur peningastefnan, um það eru allir sammála. En það var ekkert annað í boði á þessum tíma. Stýrivaxtahækkanir voru og eru helsta stjórntæki Seðlabankans.

Og það sem þú segir líka Dingli varðandi það að Davíð hefði getað sagt margt og neytt menn til að hlusta, það má vera rétt.

En á þessum tíma sem ríkti og miðað við þann hugsunar hátt sem þá var í gangi ásamt þeim stöðugu árásum sem gerðar voru á Davíð á þessum tíma, þá finnst mér skiljanlegt að hann hafi einfaldlega ekki haft kjark til að taka harkalega á þessum málum. Ég hefði ekki haft það heldur.

Einnig efast ég um að honum hafi órað fyrir því sem átti eftir að gerast raunverulega. Allir töldu að þetta myndi nú blessast á endanum býst ég við og þær upplýsingar sem liggja fyrir varðandi stjórnun bankanna í dag lágu ekki fyrir þá.

Og Dingli minn, þú talar um mig sem "lífsreyndan skarf", það eru orð að sönnu. En hvernig ætli ég hafi hlotið þá lífsreynslu?

Með því að gera stór mistök oft og mörgum sinnum, haga mér eins og bavíani í peningamálum og ýmsu öðru. Þannig lærir maður að lokum, þótt vissulega hafi ég oft viljað hafa verið fljótari að læra. Ég vona að unga fólkið í dag verði fljótara að átta sig en ég var.

En á öllu þessu hef ég lært, að það er góð heilsa hjá mér og mínum nánustu sem skiptir mestu máli. Peningar koma alltaf aftur, en heilsa og glatað líf getur horfið að eilífu.

Menn eiga að vera þakklátir fyrir það sem þeir eiga, peningar eru ekki allt.

Jón Ríkharðsson, 24.8.2010 kl. 09:19

7 Smámynd: Dingli

Rétt er það Jón. Góð heilsa er gulli betri.

Dingli, 24.8.2010 kl. 09:57

8 identicon

Orð og gjörðir Davíðs passa einfaldlega ekki saman.  Seðlabankinn sýndi enga varkárni á þessum árum.

Stefán Júlíusson 24.8.2010 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband