Gott framtak hjá Björgólfi.

Tekið skal fram að Björgólf Thor Björgólfsson þekki ég akkúrat ekki neitt. En ég er ánægður með þegar menn sýna vilja til að bæta fyrir sín brot. Það var líka góð hugmynd hjá honum að opna vefinn og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Ég geri ráð fyrir að þeir sem lesa þennan pistil í framhaldi af hinum fyrri, þar sem ég var að einhverju leiti að verja Davíð Oddson, haldi að nú sé ég orðinn besti vinur allra sem eru mest hataðir hér á landi.

Jafnvel eru einhverjir spunaglaðir sem sjá samsæri í hverju horni farnir að ímynda sér að ég ræfillinn sé jafnvel farinn að þiggja greiðslur fyrir að blogga um ofangreinda einstaklinga. Ég veit ekki hvort ég eigi nokkuð að leiðrétta í því samhengi, ég hef nefnilega gaman af samsæriskenningum og áhugavert væri að fá einhverja svoleiðis um mig. 

En að öllu gamni slepptu, þá finnst mér allir eiga skilið að fá tækifæri ef þeir sýna iðrun og það hefur Björgólfur gert. Ekki kannski með því orðalagi sem allir fella sig við, en ég sé ekki ástæðu til annars en að trúa honum þar til annað kemur í ljós.

Fyrir mér eru nefnilega allir jafnir og allir eiga jafnan rétt. Ég tek málstað allra sem höllum fæti standa og stend með þeim sem vilja bæta sitt ráð.

Á sjóinn leita oft menn sem hafa lent upp á kant við lögin, stundum fyrir alvarlega glæpi. Þeim finnst þægilegt að komast í burtu frá gömlu félögunum, sumir vilja ná sér í pening osfrv.

Reynsla mín af þessum mönnum er undantekningarlítið mjög góð. Það eru nefnilega mistökin sem þroska menn. Oft er þessum mönnum mikið í mun að sýna að þeir vilja bæta sig, þannig að þeir eru víkingar til vinnu. Einnig eru þetta yfirleitt greindir menn sem hafa fengið dýpri sýn en margur á lífið. Ég hef margt lært af þessum mönnum og margir þeirra hafa komið sér upp fjölskyldu og lifa heiðarlegu lífi í dag.

Vilji til sátta er mikilvægur og hann skapar frið. Mér finnst að Björgólfur eigi að fá annað tækifæri þótt margir telji sig eiga um sárt að binda af hans völdum. Hrunið er til staðar og reiðin breytir því ekki. Fólk fær ekki sitt til baka með reiðinni og heldur er ég ekki að segja að fólk tapi meira með reiðinni. En óneitanlega veldur hún vanlíðan og lífið er of stutt til að burðast með hana.

Það koma aldrei svör við öllum þeim spurningum sem á okkur brenna. Og ef það koma svör þá er fólk tregt til að trúa. Það er eðlilegt því óneitanlega upplifir fólk sig svikið.  

Ég er sjaldan á sömu línu og aðrir, mér finnst ég ekki hafa verið svikinn af öðrum, ég gerði það sjálfur. Hafi ég sýnt skynsemi og ráðdeild væri ég vel stæður peningalega í dag. En ég trúði glaðlegum unglingum sem sátu bak við skrifborð í banka, þannig tapaði ég mörgum milljónum. Græðgin varð mér að falli. Græðgi er nefnilega slæm, mjög slæm.

Björgólfur lét græðgina líka fella sig, þannig að ég skil hann vel. Ég vona að hann læri af sínum mistökum.

Ef hann gerir það, þá verður það þjóðinni til góðs. Hann hefur góð sambönd úti í heimi, það er okkur dýrmætt um þessar mundir.

En ég er ekki að ábyrgjast það að hann sé að segja allan sannleikann, það get ég ekki því ég þekki manninn ekki neitt. En ég er bjartsýnn að eðlisfari og það hefur reynst mér vel til þessa að treysta fólki. Jafnvel þegar ég treysti glaðlegu unglingunum í bönkunum.

Það var dýr skóli, en hverrar krónu virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Jón; æfinlega !

Láttu ekki blekkjast; Jón minn.

Björgólfur Þór Björgólfsson; er einhver mesti loddari, hver; til sögunnar hefir komið, í seinni tíma sögu.

Ef einhvern tíma; hefði verið ástæða til tortryggni, gagnvart bröskurunum - þá er það nú, á hinum verstu tímum, og síðustu.

Með beztu kveðjum; sem jafnan /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason 25.8.2010 kl. 00:30

2 Smámynd: Elle_

Hann er líklegur til að opna lygavef um sig sjálfan, Jón.  Maðurinn getur ekki orðið trúverðugur, í það minnsta ekki fyrr en hann borgar Icesave og annað tjón. 

Elle_, 28.8.2010 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband