Þriðjudagur, 7. september 2010
Hryllileg hagstjórn "hinnar tæru vinstri stjórnar".
Mörgum er það tamt að beita líkingum úr sjómannamáli og er það góður siður í ljósi þess, að þjóðin hefur byggst upp að stórum hluta vegna auðlynda hafsins.
Oft er talað um "að halda sjó", en þá er skipum snúið beint upp í vindinn og þar er beðið eftir því að veðrinu sloti. Ef keyrt er áfram í snarvitlausum veðrum þá getur skipið sokkið.
Sama lögmál gildir varðandi þjóðarskútuna okkar, það þarf að halda sjó og bíða eftir að veðrinu sloti. Það þýðir að ekki skal ráðist í ný ríkisútgjöld, skorið skal niður eins mikið og mögulegt er, en leitast við að verja velferðarkerfið til hins ýtrasta, því ekki viljum við að þrengingarnar bitni hart á okkar minnstu bræðrum og systrum. Einnig þarf að fara varlega í hækkanir á sköttum og öðrum gjöldum, því svoleiðis aðgerðir þrengja hag þjóðarinnar ásamt því að hækka afborganir lána.
En hvað gerir ríkisstjórnin í storminum?
Það er ráðist í stofnun fjölmiðlastofu og tekin fyrir þeirri aðgerð lán upp á tugi milljóna, flokksgæðingar eru ráðnir í hin og þessi störf sem auka ríkisútgjöld ásamt því að snarhækka skatta og bæta gráu ofan á svart með því að auka flækjustig skattkerfisins. Og hvað er gert í því að bæta ímynd þjóðarinnar?
Það er flogið til Brussel og send inn aðildarumsókn, án vilja meirihluta þings og þjóðar. Það getur ekki verið vel til þess fallið að bæta okkar ímynd, að reyna að sannfæra ESB um það að bráðum verði meirihlutavilji fyrir þessum málum.
Á tímum sem krefjast sparnaðar og aðhalds á ekki að ráðast í breytingar á stjórnskipun, breyta ráðherraskipan osfrv. Þótt þetta séu ekki stórar tölur í heildarsamhengi þjóðarbúsins, þá væri hægt að nýta þessa peninga í að annaðhvort verja velferðarkerfið eða spara þá. Molar eru líka brauð var einhvern tíma sagt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.