Þriðjudagur, 21. september 2010
Virkar vinstri stefnan?
Ávallt hef ég opin huga fyrir nýjum sjónarmiðum, því ég lít svo á að alltaf sé hægt að breyta um skoðun ef það finnst önnur betri. Það er ekkert nema þröngsýni og heimska að móta sér skoðun fyrir lífstíð og neita að láta af henni þótt hún reynist röng.
Snemma komst ég að raun um það, að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú besta fyrir þjóðina sem fram hefur komið. Sú skoðun hefur styrkst á síðustu árum til muna. En því er ekki að neita að á sumum tímabilum hefur mönnum verið mislagðar hendur við að framfylgja henni. Það skýrist af því að ómögulegt er að finna fullkominn einstakling til starfa við landsstjórnina, þetta eru víst allt menn og konur af holdi og blóði.
Í kjölfar hrunsins héldu margir að það væri gott að fá vinstri stjórn, sumir lifa enn í þessari blekkingu af einhverjum ástæðum. Vinstri stefna hefur aldrei virkað svo ég viti til að byggja upp samfélag. Það er vegna þess að hún er fyrst og fremst eyðslustefna sem gleymir því að það þarf að vinna fyrir peningum til að skapa verðmæti.
Sumir halda því fram að Svíþjóð og Danmörk séu dæmi sem afsanni ofangreindar fullyrðingar en svo er ekki.
Ástæða þess að vinstri stefnan gat gengið í þessum löndum er vitanlega sú, að kapítalismi og frjáls markaður ásamt gömlum sjóðum varð til þess að hægt var að búa við vinstri stefnu. Opinberi geirinn hefur vaxið mun meira heldur en einkageirinn í þessum löndum og það skapar af eðlilegum ástæðum ekki nýtt fjármagn. Enda hefur velferðakerfi þessara þjóða sem vinstri stjórnin okkar þráir svo heitt verið að sliga þær oft á tíðum og þörf hefur verið að draga úr því.
Enginn viti borinn maður hefur haldið því fram að heimurinn sé réttlátur eða að allir séu í raun jafnir. Samt vilja vinstri menn reyna að jafna fólk með því að taka meira af þeim sem hærri tekjur hafa. Það gengur ekki til lengdar vegna þess að hver maður vill njóta ávaxta erfiðis síns. Það er ákveðið réttlæti í því fólgið og ekkert annað en óréttlát frelsissvipting að leyfa fólki ekki að græða með lögmætum hætti.
Þær þjóðir sem hafa byggt sitt á vinstri stefnu þykja okkur ekki góðar fyrirmyndir. Þar ríkir stöðugur ófriður og oftast sár fátækt auk þess sem sjálfsögð mannréttindi eru oft fótum troðin. Þar er ég að vísa í ríki S-Ameríku en þar ríkir víða sósíalisminn sem margir vinstri menn virðast þrá. Það er sennilega vegna þess að þeir hafa búið við velsæld hér á landi sem þakka má farsælli stjórn Sjálfstæðisflokksins frá lýðveldisstofnun.
Þó skal ekki gleyma því að sjálfstæðismenn sofnuðu á verðinum og ofþöndu ríkisbáknið á árunum fyrir hrun, en það var ekki sjálfstæðismennska heldur einhvers konar vinstri villa. Sjálfstæðisstefnan boðar ekki mikinn ríkisrekstur eins og flestir vita.
Vinstri menn eru staurblindir á mannlegt eðli þegar þeir segja að sjálfstæðismenn vilji ekki hugsa um þá sem minna mega sín. Það er alvarleg ásökun í ljósi þess, að allir vilja hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum sem ekki eru haldnir mannvonsku eða siðblindu á háu stigi. Ekki er hægt að segja að vinstri menn hafi hugsað betur um lítilmagnann, enda er hin sára staðreynd sú að það er erfitt að halda uppi góðu velferðarkerfi. Einnig hefur öryrkjum fjölgað mjög á undanförnum árum.
Vinstri menn hafa skorið niður á heilbrigðis og velferðarsviði á sama tíma og tekið var lán upp á tugi milljóna til að setja á fót einhverja fjölmiðlastofu sem enginn knýjandi þörf er á um þessar mundir. Á sama tíma er verið að henda fé í hin og þessi gæluverkefni og ráða góðvini og flokksfélaga í tímabundin störf utan hefðbundins ráðningaferlis.
Af hverju heyrist ekkert um niðurskurð í utanríkismálum? Það má selja helling af sendiráðum og leggja niður tugi starfa sem myndi spara stórfé er hægt væri að nota á skynsamlegan hátt.
En vinstri menn munu seint geta rekið þjóðfélag af nokkru viti. Það er auðvelt að eyða fullt af peningum til að gleðja kjósendur, en öllu erfiðara að búa til frjóan jarðveg fyrir erlent fjármagn og skapa hér verðmæti.
Ef litið er yfir sögu vinstri manna hér á landi, þá sést það glöggt að þeir voru ansi duglegir við að sækja fé í vasa atvinnurekenda og knýja fram launahækkanir, stundum án þess að framleiðslan stæði undir þeim.
En aldrei hafa þeir komið með hugmyndir né hrint af stað neinni verðmætasköpun. Öflun verðmæta er þrátt fyrir allt besta velferðaraðstoð sem hægt er að veita. Þess vegna urðu allar þessar framfarir þegar frjáls markaður fór að virka í heiminum. En það er mikið verk óunnið við að slípa hann til, samt borgar sig engan veginn að leggja hann af.
Hvers vegna rekur ríkið byggingavöruverslun í samkeppni við aðra á sama markaði? Hægt er að koma með fjölmörg dæmi sem styðja það eitt, að vinstri stefna hefur aldrei virkað við uppbyggingu samfélagsins. Það er ekki hennar eðli að skapa verðmæti.
En hún getur virkað tímabundið þegar hægri stefna og frjáls markaður hefur byggt grunninn. En spurningin er, til hvers þurfum við hana?
Hægri menn eru engu minni mannvinir en þeir sem halla sér til vinstri eins og dæmin sanna.
Athugasemdir
Þetta er prýðileg pæling. Annars er ég nýbúinn að setja nýjustu Þjóðmálagreinina mína, „Sagt skilið við skynsemina“ inn á síðuna mína, en þar fer ég í svipuð efni og þú ert að tala um. Vinstri menn eru, hafa alltaf verið og munu alltaf verða innri óvinir Vesturlanda.
Vilhjálmur Eyþórsson, 21.9.2010 kl. 17:50
Ég var rétt í þessu að enda við að lesa greinina þína og mér fannst hún mjög góð.
Það er annars merkilegt að í upplýstu nútímasamfélagi skuli vera til þokkalega greindir einstaklingar sem aðhyllast þessa draumóra og telja hana vera stjórnmálastefnu.
Jón Ríkharðsson, 21.9.2010 kl. 18:13
Sæll og blessaður
Hressileg grein - við munum eftir samyrkjubúunum í Sovétríkjunum sálugu. Ætlar fólk aldrei að læra?
Var að horfa á Kastljós í kvöld - viðtal við konu frá Akureyri.
Bankarnir duglegir að rukka og rukka. Ætla að græða og græða og það með röngu að mínu mati.
Vinstri stjórn og ekkert gert til að leiðrétta eitt eða neitt. Stjórn almúgans - litla mannsins :-(
Ekki finnst mér það miðað við það sem við heyrum í fréttum.
Guð veri með þér
Shalom/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.9.2010 kl. 20:58
Þakka þér innlitið Rósa mín og góða athugasemd, ég er sammála þér.
Fyrirgefðu hvað ég svara seint, ég var að koma í land, netið um borð var eitthvað að stríða okkur.
Jón Ríkharðsson, 26.9.2010 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.