Mánudagur, 27. september 2010
Á nú að fara að banna heimskuna líka?
Heimskan er afar hvimleiður en hundtryggur fylgifiskur mannsins og svo hefur verið frá örófi alda. Heimskan fer ekki í manngreiningarálit, hún leggst jafnt á háa sem lága. Margir af greindustu mönnum sögunnar hafa orðið að lúta í lægra haldi fyrir henni mislengi á sinni æfi.
Meðan fjármagn flæddi hér í stríðum straumum átti heimskan góða daga hér á landi. Fáir voru ósnortnir af þessum vágesti. Menn áttuðu sig ekki á því, að það þarf framleiðslu til að skapa fjármagn, lánsfé dugir ekki til langframa.
Ríkisstjórnin sem ríkti á árunum fyrir hrun var svo illa haldin af heimskunni, að hún snarjók ríkisútgjöld og gleymdi öllum þeim góðu gildum sem sjálfstæðisstefnan boðar. Samfylking og Framsókn tóku heimskunni einnig fagnandi og töldu hana óskaplega skynsamlega og góða. Heimskan getur nefnilega virst ansi gáfuð, þess vegna blekkir hún svona marga.
Einnig má færa rök fyrir því að margir stjórnmálamenn veiti heimskunni hjá sér öruggt skjól, fyrstu heimskupör stjórnmálasögunnar voru nefnilega ekki framin hér á Íslandi á liðnum árum þótt margir virðast telja svo vera.
Ég hef þá trú að allflestir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa séu grandvarir og heiðarlegir einstaklingar. Þess vegna finnst mér æði vafasamt að lögsækja þá fyrir heimsku. Birtingamynd heimskunnar er vissulega fólgin í vanrækslu ýmiskonar og fyrst og fremst að sjá ekki veruleikann eins og hann er.
En ef það á að varða við lög, þá er hætt við að þörf sé á fleiri fangelsum.
Heimskan hættir nefnilega ekki að blekkja stjórnmálamenn þótt reynt sé að banna það með lögum. Hún finnur sér alltaf nýjar leiðir
Athugasemdir
Hún reiðir ekki við einteymng heimskan sem núverandi ríkisstjórn sýnir. Það finnst mér heimskum manninum að minnsta kosti.
Gunnar Heiðarsson, 28.9.2010 kl. 10:15
Hvernig getur þú fengið það út að þaulskipulagt samsæri um að arðræna land og þjóð tengist heimsku á einhvern hátt? Það var unnið markvisst að þess til margra ára, selja eignir ríkissins, leggja niður eftirlitsstofnanir, koma innvígðum í mikilvægar stöður, breyta lögum og svo á endanum stela öllu steini léttara.
Skipulögð glæpastarfsemi og ekkert annað, þeir stjórnmálamenn sem áttu að standa vaktina vissu upp á hár hvert stefndi en gerðu ekkert, vegna þess að þeim var borgað fyrir það.
Tómas Waagfjörð, 28.9.2010 kl. 11:35
Gunnar Heiðarsson, ég er sammála því sem þú segir og fyrst þú segist vera heimskur, þá bendir það til þess að þú sért það einmitt ekki. Þeir sem þykjast gáfaðir eru oftar en ekki illa haldnir af heimskunni.
Tómas Waagfjörð, ég get engan veginn fallist á þitt sjónarmið. Sjálfum finnst mér það alls ekki gott, þegar einstaklingar eru sakaðir um glæpi án þess að haldgóður rökstuðningur liggi að baki.
Eðlilegar leikreglur réttarríkis segja að enginn sé sekur uns sekt sé sönnuð. Sem betur fer er það sjónarmið sem þú setur fram ekki ríkjandi í samfélaginu þótt það heyrist vissulega annað slagið, en vonandi hafa ekki margir þessa skoðun.
Engu að síður er það þinn réttur að hafa þessa skoðun þótt hún hljómi alls ekki við mín sjónarmið.
Jón Ríkharðsson, 29.9.2010 kl. 08:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.