Ber Samfylkingin höfuðábyrgð á hruninu?

Vitað er að Samfylkingin þáði mikið af auðmönnum á árunum fyrir hrun. Einnig sagði fyrrum formaður það berum orðum að þakka beri jafnaðarmönnum fyrir það, að útrásin og stækkun bankakerfisins væri möguleg.

Jón Baldvin hefur einnig sagt það að hann hafi beitt sér mjög fyrir því að fá sjálfstæðismenn til að samþykkja að ganga til viðræðna varðandi EES samninginn.

Sá hluti EES samningsins sem fjallaði um reglur varðandi bankamál voru meingalaðar eins og síðar kom í ljós, þannig að hægt er að ímynda sér að hrunið hefði ekki orðið svona sárt ef við hefðum aldrei tekið upp EES samninginn.

Ennfremur var það svo, að þegar Þingvallastjórnin var mynduð þá lagði Samfylkingin á það áheyrslu að lög yrðu hagstæð fjármálageiranum til handa, það væri nauðsynlegt að styðja við bakið á auðmönnunum svo þeir gætu grætt meira.

Þetta er enginn tilbúningur hjá mér, heldur staðreyndir. Hægt er að finna ræðu Ingibjargar Sólrúnar á vef Samfylkingar þar sem hún flutti á landsfundi árið 2007 .

Þar sagði hún að þakka megi sjálfstæðis og framsóknarmönnum það eitt, að hafa fylgt fordæmi jafnaðarmanna varðandi opnun fjármálamarkaðar að hætti ESB.

Þegar allt svo hrundi þá eiga sjálfstæðismenn að bera þeirra sök á þessu máli ásamt sinni eigin.

En geta ber þess að hvorki samfylkingarmenn né sjálfstæðismenn bera höfuðábyrgð á hruninu þótt þessir flokkar hafi vissulega gert mistök, heldur voru að glannalegir fjármalamenn bæði frá Íslandi og öðrum löndum sem bera höfuðábyrgð þar á.

Hverjum hefur dottið til hugar í Bandaríkjunum að lögsækja ríkisstjórn sína fyrir undirmálslánin, Enron osfrv?

Að sjálfsögðu engum, það þekkist ekki í hinum vestræna heimi, nema á Íslandi að ásaka stjórnvöld fyrir óvandaðar fjárfestingar og aðra gjörninga manna sem blindaðir voru af einskærri græðgi. Hafi einhver talað um Ísland sem bananalýðveldi, þá gæti það átt við í tíð þessarar ríkisstjórnar sem nú er við völd.

Samfylkingarfólk á ekki að draga fyrir dóm og dæma fyrir lögbrot eða ámælisverða vanrækslu, það er engum hagur í því. Fyrrum ráðherrar í fangelsi auka ekki hagvöxt né gera nokkuð fyrir samfélagið, ef eitthvað er þá tapast nokkrar krónur því það þarf að gefa þeim að borða og greiða fyrir þá húsnæði á meðan.

Nú þarf að nýta okkar færustu sérfræðinga til að finna raunhæfa lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja, það þarf að finna nýjar lausnir í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.

Það þarf að efla útflutningsgreinarnar og finna fleiri, það þarf að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Það að hækka skatta í kreppu er eitt það versta sem nokkur ríkisstjórn getur gert.

Eina útflutningsgreinin sem þessi blessaða ríkisstjórn eflir er útflutningur á atvinnuleysi.

Hann felst í því að hrekja duglegt fólk til Noregs og annarra landa, af því leiðir náttúrulega minna atvinnuleysi en hefði getað orðið.

En varla skapar sá útflutningur hagvöxt, nema að Stefán B. Ólafsson eða Indriði H. Þorláksson hafi talið ríkisstjórninni trú um það.

Það hljómar ótrúlega en við hverju er hægt að búast af mönnum sem telja sjálfum sé trú um að skattahækkanir þurfi ekki að minnka vinnugleði fólks og að þau fyrirtæki sem greiða hæstu skattanna séu vita gagnslaus fyrir hagkerfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Þú ert með flotta grein. Landsfundur 2007 - var það ræðan í Borgarnesi?

Hver skildi nú trúa því að Kommúnistar á Íslandi myndu breytast yfir í að dýrka Mammon. Hér áður fyrr þá voru allir fyrirlitnir sem áttu smá meira en aðrir. Ef einhver hafði dug og þor - fór út í einhvern fyrirtækjarekstur þá voru þeir hinir sömu fyrirlitnir af Kommúnistum.

Takk fyrir fallega kveðju á facebook - gaman að vera á facebook á svona dögum eins og 30 sept :-)

Guð veri með þér

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.10.2010 kl. 02:29

2 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Hvert ríki innan EES er ábyrgt fyrir sinni hagstjórn.  Það gildir líka hér á Íslandi.

Það stendur svart á hvítu í skýrslum Seðlabanka Íslands að til að "kæla" hagkerfið (þ.e. að skapa atvinnuleysi til að kollsteypa ekki hagkerfinu) til að hér væri hægt að reisa stóriðjur og heimila 100% lán þá þyrftum við að safna erlendum skuldum og sætta okkur við amk. 4,5% hækkun skulda umfram verðbólgu í eðlilegu árferði.  Það eru fyrst og fremst þessar erlendu skuldir og verðbólgan sem eru að sliga landið.  Ég veit ekki betur en að meirihluti almennings hafi viljað þetta og fáar gagnrýnisraddir heyrst nema þá frá "sérvitringum". 

Ris og hrun bankanna er birtingarmynd, en ekki orsök, þeirrar brjáluðu efnahags- og peningastefnu sem rekin var hér á landi.  Ráðandi ríkisstjórnir bera höfuðábyrgð á hverjum tíma á hagstjórninni en ekki stjórnarandstaðan.

Hins vegar er margt rétt sem þú bendir á og augljóst að við eigum enn eftir að læra af hruninu sem varð.

Lúðvík Júlíusson, 1.10.2010 kl. 07:32

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Rósa mín, ég hef engu við þitt innlegg að bæta, þakka þér fyrir það.

Júlíus, ég þakka þér einnig fyrir þitt innlegg, þó ég sé ekki sammála því að öllu leiti, þá er það samt sem áður ágætlega framsett og fullkomlega rökrétt hugsun þar að baki.

Það er alveg rétt hjá þér, hvert ríki er vissulega ábyrgt fyrir sinni hagstjórn hvort sem það er með EES samninginn eða hluti að ESB.

Frelsi það sem boðaða var af fyrrverandi ríkisstjórn var gott að mínu mati, en auðvelt er að misnota það eins og áfengið sem líka er í eðli sínu gott fyrir þá sem kunna með það að fara.

Það virðist kannski undarlegt að nefna áfengi í þessu samhengi, en margir vilja banna það með öllu sökum þeirra miklu hörmunga sem það hefur valdið.

Ekki vil ég bannað áfengið, þótt ég hafi séð marga fara ansi illa vegna of mikillar drykkju.

Frelsi fjármálamönnum til handa álít ég nokkuð gott, það hefði getað orðið  mikil og varanleg lyftistöng fyrir samfélagið.

En þeir komu óorði á frelsið eins og þekkt er, það þýðir samt ekki að við þurfum endilega að trúa því að allir muni gera það, ég vona að fólk læri á þessum stóru mistökum sem gerð voru.

Peningastefnan sem rekin var hentar illa í opnu og litlu hagkerfi, henni þarf að breyta.

Öll ríki í heild sinni eru ófullkomin, við erum í stöðugri þróun. Öllu fylgja bæði kostir og gallar, en ég mun seint, eflaust aldrei telja stjórnmálamenn bera ábyrgð á mínu lífi svo dæmi sé tekið. Við berum öll ábyrgð á okkur sjálf.

Jón Ríkharðsson, 1.10.2010 kl. 09:16

4 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ég las blogg um daginn sem ég man því miður ekki hver skrifaði og þar líkti hann frelsinu fram að hruni á þann veg að heiðarlegt fólk hafi byggt hús með stórum gluggum til að hleypa inn ljósi. Þessa stóru glugga hafi innbrotsþjófar notað til að brjótast inn. Nú næst ekki í þjófana en þá er reynt að lögsækja husbyggjendurnar. Mér finnst þetta frábær samlíking.

Vandinn var að við vorum of græn og blaut bak við eyrun og regluverkið sem við smíðuðum umhverfis frelsið var gagnslaust. Eigum við þá að smíða betra regluvirki eða eigum við að loka á frelsið? ég vil frelsi og hægri miðju stefnu. Ég vil ekki þennan útflutning á mannauð.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 1.10.2010 kl. 11:52

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég þakka þér gott innlegg Adda, þetta er allt satt og rétt sem þú segir.

Vitanlega hefur það sína galla að hafa hægri stefnu og frelsi, en það er þó margfalt betra en að hafa vinstri stefnu. Hún hefur að mínu mati enga kosti, ekkert nútíma samfélag er byggt upp af vinstri stefnu.

Þær þjóðir sem geta leyft sér að lifa af vinstri stefnu hafa byggt sig upp með frjálsum markaði og hægri sinnaðri hugsun svo Svíþjóð sé tekið sem dæmi, en eitthvað eru þeir orðnir leiðir á vinstri stefnunni eftir öll þessi ár. Meira að segja eru þeir farnir að vilja lækka skatta og þeir hafa verið lækkaðir að einhverju marki.

Það var rétt sem Churchill sálugi sagði, "kapítalisminn er ójöfn skipting lífsgæða en jafnaðarstefnan er jöfn skipting á örbyrgð". Hvort viljum við jafna skiptingu á örbyrgð eins og núverandi stjórn boðar eða ójafna skiptingu á lífsgæðum?

Jón Ríkharðsson, 1.10.2010 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband