Föstudagur, 1. október 2010
Seinheppin forsætisráðherra.
Mikið lifandis skelfing getur háttvirtur forsætisráðherra verið seinheppin persóna, það virðist allt snúast öfugt miðað við það sem hún segir.
Hún vildi slá skjaldborg um heimilin.
Ekki leið langur tími þar til það loforð var gefið að heimilin urðu fyrir verulegum búsifjum, afborganir lána hækkuð vegna hennar aðgerða osfrv., það er eins og ekkert gangi upp hjá konugreyinu.
Svo eftir allt streðið ákvað hún að friða aðeins almenning og setti á fót hina víðfrægu "Atlanefnd" til þess að svala hefndarþorsta fólks og sýna fram á að ríkisstjórnin vildi draga fólk til ábyrgðar.
En eftir að hún hafði nýlokið við að skipa þessa nefnd rann upp fyrir henni leiðinda staðreynd, hún sat náttúrulega í þeirri ríkisstjórn sem nú átti að taka til ábyrgðar.
Í snatri var leitað til spunameistara flokksins og þeir látnið skera hana úr snörunni. Hún las á þingi það sem ritað hafði verið fyrir hana um að nefndin sem hún skipaði gætti sennilega ekki nægjanlega vel að mannréttindum sakborninga.
Þetta er að verða eins og besti farsi, loksins þegar vesalings konan hélt að hún hefði friðað almenning og myndi hugsanlega uppskera smá vinsældir í skoðanakönnunum þá kom áfallið.
Þessi aðgerð hennar til að staðfesta fyrir þjóðinni að hún hefði ekki alveg tapað sinni frægu réttlætiskennd hefur nú orðið til þess að fjöldi manns segir sig úr flokknum, meira að segja sonur forvera hennar á formannsstóli er svekktur og hættir í flokknum ásamt mörgum dyggum stuðningsmönnum flokksins.
Flestir myndu nú gefast upp eftir alla þessa óheppni, en ekki Jóhanna. Nei, hún lifir ennþá í þeirri sjálfsblekkingu að þjóðin þarfnist hennar.
Kannski væri reynandi fyrir fjölmiðla að hvetja hana eindregið og hrósa henni fyrir vel unnin störf?
Þá myndi hún kannski hætta því hún er svo óttalega öfugsnúin þessa dagana blessunin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.