Mánudagur, 25. október 2010
Kolröng forgangsröðun.
Brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar ætti að vera framkvæmdir aðgerða sem stuðla mun að aukinni verðmætasköpun í samfélaginu, einnig þarf að finna leiðir til að koma til móts við skuldavanda landsmanna. Á tímum sem þessum er mikilvægt að skapa eins mikla sátt og hægt er, en mikil reiði ásamt miklum ótta ríkir hjá mörgum um þessar mundir.
En í stað þess að vinna að mikilvægustu verkefnunum þá taka stjórnarherrarnir uppá því að reyna að lögsækja forvera sína og búa til þras um ESB aðild ásamt því að afneita hinu raunverulega ástandi.
Það er ekki mikið fjárhagslegt svigrúm um þessar mundir, þannig að nauðsynlegt er að stilla eyðslunni í hóf á flestum sviðum. Þá fara þau að búa til ný störf í opinbera geiranum og ný embætti. Svo til að almenningur fái það á tilfinninguna að hann hafi eitthvað um málin að segja, þá er farið út í stjórnlagaþing og boðað til þjóðfundar.
Þjóðin er í sárum út af hruninu sem varð. Reitt fólk í sárum er ekki vel til þess fallið að taka afdrifaríkar ákvarðanir um stjórnarskrána svo dæmi sé tekið. En reiðin getur orðið drifkraftur ef staðið er rétt að málum. Ef ríkisstjórnin opnaði fyrir gáttir sem leiða myndu til atvinusköpunar, þá kæmu í kjölfarið vinnufúsar hendur sem og frjóir hugar menntamanna.
Með því að bjóða upp á hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki með lækkun skatta og tryggingargjalds þá er ágætt skref stigið í endurreisninni. Síðan mætti stórauka fiskveiðar til muna og veita fólki tækifæri með því að gefa handfæraveiðar frjálsar og fylgjast um leið með afleiðingunum.
Mörgum bregður við tillögur um stórauknar fiskveiðar, en með því að skoða umræður síðustu misseri um fiskveiðimál er það ljóst að áhættan er ekki mikil.
Haustið 2007 var farið í miklar skerðingar á aflamarki sökum of mikillar veiði árin á undan. Þrem árum seinna virðist þetta vara farið að skila árangri þannig að óhætt er að auka veiðar á ný.
Það á að fara á fullt í að auðvelda fólki hverskyns atvinnusköpun, ekki með ríkisstyrkjum heldur með skattaívilnunum og hagstæðum reglum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.