Mánudagur, 25. október 2010
Af hverju fær almenningur ekkert skjól?
Heyrst hefur að fyrirtæki í eigu útrásarvíkinga hafi fengið afskriftir lána til að þau geti haldið velli. Fyrrum útrásarvíkingar og fjármálafurstar eiga vel til hnífs og skeiðar og þurfa ekki að kvíða því að geta ekki átt fyrir mat á morgun. Einnig hafa einstaklingar úr þessum hópi verið í vinnu við að endurskipuleggja fyrirtæki sem þeir settu á höfuðið.
Þeir sem komu þjóðfélaginu á hliðina eru ósnertanlegir, ja nema Björgólfur Guðmundsson, það mátti gera hann gjaldþrota, sennilega vegna þess að hann er ekki vinur Samfylkingarinnar.
Svo er það hinn almenni launamaður sem þarf að borga allt upp í topp og jafnvel meira til. Um leið og fólk úr þessum fjölmenna hópi telur sig geta andað léttar vegna rýmri fjárhags um stund, þá kemur ríkið og hirðir viðbótina í sína botnlausu hít.
Nú á tímum þarf einhver að tapa hluta af sínu, það er sár staðreynd.
Eru lífeyrissjóðir og útbólgnir bankar þá ekki betur í stakk búnir til að tapa heldur en almenningur sem hefur ekki yfir miklu fjármagni að ráða?
Ríkisstjórnin hefur talað fyrir því að láta breiðu bökin axla byrðarnar. Það eru afskaplega mjó bökin hjá almenningi þessa lands.
Samt er harðast gengið að þessum örmjóu bökum og breiðu bökin, um þau er slegin þétt skjaldborg og passað vel upp á að þau tapi sem minnstu.
Bágt á ég með að skilja þessa svonefndu fyrstu "tæru vinstri stjórn" lýðveldisins, en eitt er deginum ljósara.
Hún er ekki til staðar fyrir heimilin í landinu, nema kannski í hátíðarræðum forystum,anna hennar.
En á tímum sem þessum duga innihaldslaus orð og frasar afar skammt, það er kominn tími á efndir.
Gallinn er sá að vinstri mönnum leiðast efndir, þeir kunna betur við að mæla falleg orð á hátíðarstundum en að vinna í þágu þjóðarinnar.
Athugasemdir
Heyr, heyr þarna er ég sammála þér..
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.10.2010 kl. 17:03
Þakka þér fyrir Jóna Kolbrún.
Jón Ríkharðsson, 25.10.2010 kl. 18:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.