Mánudagur, 29. nóvember 2010
Stjórnlagaþing, til hvers?
Þessi tæra vinstri stjórn sem nú ríkir viðhefur hin ýmsu sálfræðitrikk í þeirri vona að hægt sé að róa almenning. Það nýjasta er víst hið víðfræga stjórnlagaþing, sem engan tilgang hefur.
Stjórnmálamenn móta sína eigin stefnu og þegar þeir spyrja ráða, þá eru þeir oftar en ekki að leita staðfestingar á sínum eigin skoðunum. Ef stjórnlagaþingið kemur með ályktun sem brýtur í bága við skoðanir ríkjandi stjórnvalds, þá verður hún felld. Stjórnlagaþingið er ekkert annað en óþarfa bruðl og það hefur engan tilgang annan en þann, að ríkisstjórnin vill telja fólki trú um að hún virði óskir þess.
Pirrað gamalmenni sem gegndi stöðu ritstjóra í áraraðir telur íslendinga vera fífl. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en stenst varla skoðun. Hann er vitanlega argur yfir litlum stuðningi við stjórnlagaþingið, enda vildi hann komast á það í þeirri von að geta drýgt þann rýra lífeyri sem öldruðum er skammtaður hér á landi.
Það er búið að leggja í mikinn kostnað við að halda þjóðfund. Niðurstaða hans var ekkert annað en ágæt lífspeki sem hefur verið þekkt lengi og hefði verið hægt að nálgast með litlum tilkostnaði, jafnvel engum. Það þarf bara aðeins að setjast niður og hugsa, en stjórnarherrum er það víst ekki tamt um þessar mundir.
Svo á að eyða peningum í þetta gæluverkefni sem stjórnlagaþing kallast. Það er víst gamall draumur forsætisráðherra, en þegar draumar hennar verða uppfylltir, þá ætti þjóðin að kvíða.
Hvað gerðist ekki þegar hennar tími loksins kom?
Þá settist við völd ein vanhæfasta og skrítnasta ríkisstjórn sem mannkynssagan þekkir og er þó af nógu þar að taka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.