Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Kreppan er alþjóðlegt fyrirbæri.
Þótt ýmsir hafi fjallað um kreppuna hér á landi og gefið í skyn að hún sé einna dýpst hér hjá okkur, þá sleppa afar fá ríki við hana. Það er einnig huglætt mat og erfitt að sanna með óyggjandi hætti, hvar hún kemur verst niður.
Það er engum til góðs að skammast út í fyrrum stjórnarherra og eftirlitsstofnanir, þekkt er að heimurinn var steinsofandi á verðinum og þar af leiðandi Ísland líka.
Biðraðir eftir matargjöfum segja sumir vera sér íslenskt fyrirbrigði. Ég hef samúð með því fólki sem þarf að þiggja matargjafir, en við því miður erum að upplifa erfiða tíma og þeir verða ekkert auðveldari þótt fólk skammist út í allt og alla.
Í Danmörku er líka kreppa þótt margir hafi dásamað Norræna velferðarkerfið sem þar ríkir. Í danska blaðinu "Politiken" er sagt frá því, að 200.000. manns lifa við eða undir fátæktarmörkum og þar af séu 107.000. manns sem séu langt undir fátæktarmörkum.
Biðraðir eftir matargjöfum hafa aldrei verið lengi og talsmaður Hjálpræðishersins í Danmörku segir að það þurfi að neita barnlausum um matargjafir, því miður.
Erfitt er að segja til um hvort Davíð Oddson hafi eitthvað komið að stjórn mála í Danaveldi eða Geir H. Haarde, en að sögn sumra eru þeir helst ábyrgir fyrir flestum ef ekki öllum afleiðingum kreppunnar.
Nei þetta gerist í Danmörku, þrátt fyrir að jafnaðarmenn hafi ríkt þar lengi. Fjármálahrunið bitnar á öllum heiminum, þótt nokkrir þröngsýnir einstaklingar hér á landi haldi annað.
Haldi einhver að nöldur, skammir og ofbeldismótmæli komi okkur út úr kreppunni, þá er það misskilningur.
Besta leiðin er sú að halda ró sinni og rækta vonina. Erfiðir tímar taka alltaf enda.
Við þurfum að auka gjaldeyristekjur og virkja hugmyndaflugið, öðruvísi komumst við ekki út úr kreppunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.