Þriðjudagur, 7. desember 2010
Fangi í eigin draumi.
Vesalings formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands er hlekkjaður fangi í eigin draumi og kemst ekki út úr honum. Það er þekkt með mikla ákafa menn sem eru hallir undir náttúru og dýravernd að þeir tapa algerlega öllu því sem talist getur raunveruleikaskyn.
Það er svo sem í lagi að festast í draumheimum ef það er ekki verið að ergja saklaust fólk á sínum draumum , sem oftar en ekki, eru fjöldanum hvimleiðir mjög. En það gerði einmitt formaðurinn hugumstóri, hann leitaði liðsinnis Bandaríkjamanna, en þeir eru margir eins og þessi ágæti maður, kominn langt frá náttúrunni og þannig fólk heldur gjarna að kjöt og fiskur verði til í matvörumörkuðum heimsins.
Það er oft betra að leyfa skynseminni að hafa hönd í baga þegar verið er að velta fyrir sér hinum ýmsu málum, tilfinningar geta verið varasamar ef þær eru látnar ráða för.
Mannskepnan er þeim takmörkunum haldin að vera bundin í holdi og holdið þarf mat til að geta lifað. Þetta hefur verið vitað lengi, enda ein af frumþörfum þeirra sem jörðina byggja.
Þótt ég hafi starfað í áratugi við fiskveiðar og drepið gríðarlegt magn af fiski, þá er mér alls ekki illa við dýr hafsins. Þegar maður sér blessaða fiskanna synda rólega undir yfirborði hafsins, er ekki laust við að maður finni til væntumþykju þeim til handa. Enda þykir mér vænt um flest sem lífsanda dregur. Samt ber að varast að tengjast fiskunum ekki of nánum tilfinningaböndum, því þá ætti ég afar erfitt með að sinna mínu starfi og myrða heilu fjölskyldurnar.
Hvalkjöt er prýðismatur og hollur mjög. Það er talað um offjölgun jarðar og væntanlegan matarskort, á sama tíma vilja sumir banna veiðar á hvölum, allt út af einhverri tilfinningasemi. Þetta hefði í eina tíð verið kallað að haga sér eins og "hjartveikur aumingi"
Að berjast á móti því að smáþjóð geti drýgt tekjur sínar og notið góðs matar, kallast það ekki bara heimska?
Athugasemdir
Alltaf spurning: Hver er fangi í sínum draumi?
http://www.youtube.com/watch?v=Z81k6u7pc4Y&feature=fvsr
~ o ~
Vilborg Eggertsdóttir, 7.12.2010 kl. 22:47
Við erum öll fangar í draumi.
Hörður Þórðarson, 8.12.2010 kl. 08:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.