Er einhver munur á "fjórflokknum"?

Þetta hugtak "fjórflokkurinn" er afar sérstætt, því í eðli sínu eru þetta fjórir ólíkir flokkar með ólíkar stefnur. Það er talsverður munur á þeim.

Ekki skal farið út í að kryfja þetta mál til mergjar, heldur bornir saman tveir flokkar sem telja sig báðir burðarásinn, hvor á sínum armi stjórnmálavængjanna tveggja.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stigið fram og viðurkennt mistök sín, án þess að benda á sök annarra flokka. Fyrrum varaformaður sagði ummæli sín algerlega óafsakanleg, það var þegar hún sagði útlenska sérfræðinga þurfa á endurmenntun að halda. Flestir forystumenn flokksins eru sammála um að ríkisútgjöld hafi verið aukin allt of mikið og harmað það, að hrunið hafi gerst á þeirra vakt. Sjálfstæðismenn lögðu það einnig til, fljótlega í kjölfar hrunsins, að set yrði á fót Rannsóknarnefndalþingis sem skilaði svo skýrslu sinni sl. vor.

Sjálfstæðismenn eru breyskir og þeir misstíga sig oft, eins og mannkyn allt. En þeir þora að horfast í augu við þá staðreynd. Þess vegna vilja þeir takmörkuð ríkisafskipti, þeir gera sér grein fyrir því, að of mikil afskipti stjórnmálamenna hafa oftar en ekki neikvæð áhrif. Einnig gera þeir sér grein fyrir því að of háir skattar eru íþyngjandi fyrir fólk, auk þess þá valda þeir mikilli eyðslugleði hjá stjórnmálamönnum.

Svo er það andstæði póllinn, Samfylkingin. Hún er andstæður póll meðan vinstri stefna er enn í tísku, með hækkandi sól og bættum hag eru þau vís með að færa sig til hægri, ef atkvæðin liggja þar.

Þau dásömuðu útrásina mjög á sínum tíma og vildu allt gera til þess að auðvelda auðmönnum lífið. Fyrrum formaður þakkaði sínu fólki  útrásina og vöxt fjármálakerfisins. Þegar í ljós kom að það var rangt, þá fóru þau í flækju. Einfaldast var að kenna sjálfstæðismönnum um allt, en viðurkenna ekki sín eigin mistök sem og glámskyggni. Það eina sem þau biðjast afsökunar á er að þau hafi ekki verið nógu ákveðinn við sjálfstæðismenn er þau voru í samstarfi við þá.

Með sömu rökum geta sjálfstæðismenn ásakað Samfylkinguna fyrir aukin ríkisútgjöld, það virðist liggja beint við. Þeir gera það ekki, því ærlegir menn axla sínar byrðar með sóma og læra af mistökunum.

Svo eru það "áhangendurnir" úr háskólasamfélaginu.

Þórólfur Matthíasson, Þorvaldur Gylfason og Stefán B. Ólafsson hafa allir komið með rangfærslur. Þeir hafa sagt að hér á landi væri ójöfnuður meiri en annarstaðar, það var fundið út með því föndra við Gini-stuðla til að sanna sitt mál, einnig hafa þeir sagt að allt færi á annan endann ef Icesave samningarnir yrðu ekki samþykktir á sínum tíma osfrv. Aldrei hafa þeir komið fram og viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér. Það lýsir ekki stórmennsku.

Háskólaprófessor sjálfstæðismanna Hannes Hólmsteinn Gissurarson dásamaði útrásina og fjármálamarkaðinn í heild sinni. Hann sýndi glámskyggni á góðæristímanum.

En hvað gerði hann þegar í ljós kom að hann hafði rangt fyrir sér?

Hann viðurkenndi það umbúðarlaust.

Við erum í einhverskonar vegferð til þroska í þessum heimi, sem ég kann ekki að skýra. Öllum verður á að gera mistök og þeir sem bera mikla ábyrgð, þeirra mistök verða afdrifaríkari en annarra.

Þeir verða ávallt sigurvegarar sem horfast óttalaust í augu við gerðir sínar, en þeir sem kenna öðrum um sín mistök, þeir þroskast afskaplega seint, ef þá nokkurn tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband