Af hverju fæddist ég á Íslandi?

Þeir sem eiga því láni að fagna að fæðast í friðsömu og litlu landi eins og Íslandi, ættu að spyrja sig þessara spurningar og jafnvel fyllast þakklætis yfir því, að hafa fæðst á Íslandi.

Hvers vegna fæddumst við ekki í Palestínu, þar sem enginn er óhultur um líf sitt eða barna sinna. Það er ískaldur raunveruleiki Palestínsku þjóðarinnar, að börn eru skotin og öll börn eiga foreldra sem, bera sorgina alla sína ævi.

Það getur enginn mannlegur hugur svarað þessum spurningum. Ekki er hægt að halda því fram að við séum betra fólk hér á landi heldur en þeir sem búa í Palestínu, Írak eða Afganistan. Við erum öll af sama meiði, höfum sömu þrá eftir góðu og friðsælu lífi.

Fyrir okkur er friðsælt líf veruleiki sem okkur finnst sjálfsagður, fyrir hin löndin sem nefnd eru að ofan, þá er friðsælt líf fjarlægur draumur sem rætist kannski aldrei.

Ef við viðurkennum þá staðreynd að við eigum engan æðri rétt en þeir sem í stríðshrjáðum löndum búa, þá ættum við að vera nokkuð sátt.

En það einkennilega við lífið er, að sumir eru aldrei sáttir. Það kallast frekja og óraunhæfar væntingar.

Ætli við fengjum mikla samúð frá þeim sem búa í stríðshrjáðum löndum ef við sílspikuð og sælleg færum að nöldra yfir fjármálakreppu? Þau hafa aldrei þekkt neitt annað en fjármálakreppu. Reunar er varla hægt að tala um kreppu hjá þeim, því þau hafa ekki þekkt neitt góðæri, þannig að þar er enginn samdráttur.

Nei, hætt er við að það yrði svipað og  að sitja við sjúkrabeð deyjandi manns með ólæknandi sjúkdóm barmandi sér yfir þrálátu kvefi.

Með því að vera stöðugt kvartandi yfir eigin örlögum, þá stöðvast eðlilegt hugsanaflæði sem fundið getur lausnir við vandanum. Reiði og skrílslæti lengja kreppuna, því þá myndast lítið tóm til annarra verka.

Ef við getum andvarpað af feginleik og jafnvel þakkað Guði þá miklu náð að hafa fæðst hér á landi, þá höfum við strax stigið mikilvægt skref til endurreisnar. Ef við náum að fyrirgefa þeim sem okkur finnst hafa á okkur brotið, þá finnum við til léttis. Þetta snýst ekki um aðra, heldur okkur sjálf. Reiðin sem við berum í garð útrásavíkinga, svo dæmi sé tekið, bitnar á okkur sjálfum og jafnvel okkar nánustu. Sennilega fáum við seint tækifæri til að skamma þá beint, og þó svo væri, þá myndi reiðin ekki hverfa. Hætt er við að viðkomandi útrásarvíkingur myndi láta hjá líða að biðja okkur fyrirgefningar á mistökum sínum. Hægt er þá að ráðast á viðkomandi og fá frítt fæði og húsnæði í boði hins opinbera, í skiptum fyrir frelsið.

Það er ekki stjórnlagaþing sem fær okkur til að líða betur. Ekki heldur meira fé. Á góðæristímanum voru ekki allir syngjandi glaðir dag hvern. margir voru pirraðir yfir að geta ekki grætt nógu mikið, aðrir hræddir um að tapa því mikla sem þeir græddu osfrv.

Þakklæti, kærleikur, jákvæðni og gleði, það er hin sanna endurreisn sem varir hvað lengst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Góð hugleiðing hjá þér Jón.

Þórir Kjartansson, 9.12.2010 kl. 08:54

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Þórir.

Jón Ríkharðsson, 9.12.2010 kl. 09:07

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Já orð í tíma töluð. Við eigum ekki að hlusta á úrtöluliðið sem vill afsala okkur fullveldinu !

Nú þurfum við að horfa fram á veginn full bjartsýni með trú á land okkar og þjóð !

Gunnlaugur I., 9.12.2010 kl. 09:26

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér innlitið Gunnlaugur, ég er sammála þér.

Þjóðin nefnilega barðist fyrir sjálfstæði í mörg hundruð ár, því þá fann hún hverning það var að lúta stjórn annarra.

Þjóðin nefnilega afsalaði sjálfstæðinu árið 1262, með fúsum og frjálsum vilja. Það var vitanlega röng ákvörðun.

Við höfum sýnt það og sannað að okkur eru allir vegir færir ef við stöndum saman.

Jón Ríkharðsson, 9.12.2010 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband