Miðvikudagur, 29. desember 2010
"Fólkið brást en stefnan ekki".
Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú á krossgötum og nauðsynlegt er að velja réttu leiðina.
Hún ætti að vera auðfundin, það stendur allt í stefnuskránni sem rituð var fyrir rúmum áttatíuárum síðan.
Það var drengilegt af forystumönnum flokksins að segja að þeir hafi brugðist, vegna þess að þau gleymdu að fara eftir stefnunni. Þess vegna mun ég fyrirgefa þeim og gefa þeim tækifæri til að framfylgja stefnu flokksins. Hún er besta verkfærið til endurreisnar samfélagsins.
Meginstef sjálfstæðisstefnunnar er frelsi einstaklingsins til athafna, einnig frelsi til að njóta ávaxta erfiðis síns. Vinstri flokkarnir vilja steypa alla í sama mót og leitast við að hækka skatta á duglegt fólk, oftast bitna þeir verst á ungu dugmiklu fólki sem er að stofna fjölskyldur. Þeir hinir eldri sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð, þola betur þessar ósanngjörnu álögur.
Það er líka fleira sem greinir sjálfstæðisstefnuna frá öðrum flokkum. T.a.m. "stétt með stétt".
Vinstri flokkarnir voru stofnaðir til að bæta kjör verkalýðsins. Það er í grunnin göfug hugsjón, en aðferðarfræði þeirra var kolröng.
Með því að reka fleyg á milli atvinnurekenda og launþega, þá er verið að valda deilum sem annars þyrftu ekki að vera til staðar.
Aðilar vinnumarkaðarins hafa sömu hagsmuna að gæta. Launamaðurinn hefur hagsmuni af því að atvinnurekandanum gangi vel, því þá býr hann við meira öryggi. Einnig hefur atvinnurekandinn hag af því að launamaðurinn hafi góða afkomu, því þá nýtist hann betur í starfi. Þetta segir sig sjálft, en vinstri menn hafa þá einkennilegu áráttu að valda deilum á milli stétta og halda að þær bæti eitthvað.
Í áranna rás höfum við búið við verðbólgu sem m.a. er tilkominn vegna þess að fyrirtæki hafa greitt hærri laun en framleiðslan hefur staðið undir. Það tók verkalýðsforystuna langan tíma að átta sig á því, að það er ekki seðlafjöldinn sem skiptir máli, heldur verðmæti krónunnar.
Það var ekki fyrr en sjálfstæðismaðurinn sómakæri Einar Oddur, sem lést of snemma og varð öllum mikill harmdauði, kom að málum og varð helsti höfundur þjóðarsáttarinnar árið 1990, jafnvel þótt vinstri menn þakki sér hana, eins og allt sem vel er gert. En þeir kannast aldrei við mistök hjá sér, ólíkt sjálfstæðismönnum sem viðurkenna þó að þeir hafi gert ýmislegt rangt. Eftir að aðilar atvinnulífsins fóru að ganga í takt, þá upplifði þjóðin hagfellda tíma í þónokkur ár.
Best er að leyfa sjálfstæðisstefnunni að njóta sín og gefa sjálfstæðismönnum tækifæri til að bæta fyrir mistök fortíðar. Ef þeir framfylgja ekki sjálfstæðisstefnunni eins og hún er, þá hafa þeir brugðist trausti kjósenda og eiga eru ekki traustsins verðir.
Flestir eru sammála um að vel hafi tekist til eftir kosningar 1991 og fram undir 2004. Eftir þann tíma fóru menn að þenja út ríkisbáknið og gera alls kyns æfingar sem eru beinlínis í andstöðu við stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Fjölmiðlar eiga að veita aðhald sem og almenningur. Benda skal á að hinn almenni flokksmaður hefur látið mikið til sín taka og forystan tilneydd til að hlusta á sjónarmið grasrótarinnar eins og var t.a.m. varðandi ESB á síðasta landsfundi. Ég vil sjá meira af því, vegna þess að sama hvernig einstaklingurinn er af guði gerður, vald spillir öllum að lokum, ef ekkert er aðhaldið.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn nær að verða lifandi flokkur með fjölda samhentra flokksmanna, þá er ekkert stjórnmálaafl á Íslandi hæfara til að leiða okkur út úr ógöngunum. En fólk verður að nenna að mæta á fundi og láta í sér heyra og vera duglegt við að hafa samband við kjörna fulltrúa.
Það er að lokum fjöldinn sem ræður í lýðræðisflokki eins og Sjálfstæðisflokkurinn er.
Athugasemdir
Góður pistill og hverju orði sannara.
Sigurður Sigurðsson, 29.12.2010 kl. 12:00
Þakka þér fyrir Sigurður.
Jón Ríkharðsson, 29.12.2010 kl. 12:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.