Allir hlusta á Davíð.

Það er merkilegt með Davíð Oddsson, hann vekur ávallt upp miklar tilfinningar hjá fólki, menn ýmist elska hann og dá eða elska að hata hann.

En eftir að hann hætti sem ráðherra, þá töluðu allir óskaplega vel um hann, jafnt pólitískir andstæðingar sem aðrir. Vitað er að hann studdi vel Jóhönnu Sig. þegar þau voru saman í ríkisstjórn og oft leyfði hann henni að rekja raunir sínar meðan hann hlustaði og sýndi henni skilning.

Erfitt er að leyfa Davíð að njóta sannmælis, því þegar illa gengur hjá þjóðinni þá er honum gjarna kennt um allt sem miður fer.

Allir mega hafa sínar skoðanir á persónu hans, en ef litið er til hans verka, þá eru þau flest ansi góð.

Hann náði að skapa samstöðu hjá þjóðinni og náði það miklu fylgi, að hann sat manna lengst sem forsætisráðherra. Það var vegna þess að stjórn landsins gekk vel lengst framan af og fyrir kosningar 1999 voru flestir sammála um að stjórnarandstaðan var í miklum vanda, það var eiginlega ekkert upp á ríkisstjórnina að klaga.

Það er alveg hárrétt sem hann segir um núverandi ríkisstjórn, hún er afskaplega gagnslítil til flestra verka, flestir landsmenn eru sammála honum um það.

Svo er það mjög í tísku um þessar mundir að kenna honum um hrunið og vitna í einkavæðingu bankanna máli sínu til stuðnings.

Það muna flestir eftir því, þegar Jón Ásgeir ásamt fleirum keyptu Íslandsbanka. Það var ekki Davíð að skapi, en Jóni Ágeiri tókst samt að halda bankanum.

Það bendir til þess að Davíð hafi ekki gengið eins hart að þeim sem honum mislíkaði við, eins og margir vilja vera láta.

Glitnir var sá fyrsti sem féll, jafnvel þótt Davíð hafi ekki valið stjórnendurna. Það hrundu allir bankarnir og sparisjóðir líka, flestir bankar heimsins lentu í vandræðum og margir gamlir og öflugir bankar hrundu, jafnvel þótt Davíð hafi sennilega ekkert komið að málum hjá erlendu bönkunum sem féllu.

Það er sama hvaða upplýsingar koma fram, fólk heldur fast í sínar skoðanir, þetta var allt Davíð að kenna.

Rannsóknarnefnd alþingis vildi lítið gera með andmæli hans, vegna þess að það hentaði ekki af einhverjum ástæðum, jafnvel þó hann hafi bent á það í sínum rökstuðningi, að Seðlabankanum hafi skort heimildir.

Svo kemur að því, að núverandi Seðlabankastjóri kvartar yfir því, að honum skorti lagaheimildir til að grípa inn í, ef bankarnir lenda aftur í sambærilegum vanda. Engum dettur samt til hugar að viðurkenna að kannski hafi Davíð eitthvað til síns máls.

Það er eins og að rökræða við steinvegg að reyna að segja sumum að Davíð hafi nú ekki verið alslæmur, rök mega sín einskis, en kosturinn við steinveggi er sá, að þeir halda þó ekki áfram að hanga í einhverri vitleysu af eintómri þrjósku, enda eru steinveggir frekar skoðanalausir.

Davíð er náttúrulega bara maður, með kostum og göllum. Hann valdi sér starfsvettvang sem hentaði vel hans hæfileikum og þess vegna hafa orð hans eins mikið vægi og raun ber vitni.

Það er nefnilega þannig, þrátt fyrir allt, allir hlusta á Davíð.

 

 


mbl.is Davíð: Ekki starfhæf ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Er DO nokkuð öðruvísi en annað fólk?

Auðvitað hefur hann rétt á að hafa skoðanir eins og aðrir í samfélaginu. En hefur hann ekki tapað miklu trausti sem hann þó áður hafði? Ætli hann hafi eins mikil áhrif og áður var? Sennilega eru þau hverfandi. Margir telja hann enn sinn foringja, líkt og Napóleon þá hann var í útlegðinni á eynni Elbu. Kannski kann hann að sprikla enn, en getur það verið lengi?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 1.1.2011 kl. 03:28

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir innlitið Guðjón.

Nei Davíð er ekkert öðruvísi en annað fólk, aldrei hef ég haldið því fram. Hann hefur bæði sína kosti og galla.

En hann er mjög góður stjórnmálamaður, afburðarmaður á sínu sviði. Sennilega er hans helsta gæfa sú, að hann valdi sér réttan starfsvetfang.

Varðandi traustið. Ég hef bæði lesið ásakanir þær sem komu fram í rannsóknarskýrslunni sem og andmæli hans sjálfs. Erfitt er að fullyrða um sannleiksgildi málsins, vegna þess að ég hef ekki séð neinn rökstuðning nefndarinnar þess efnis að andmælin séu röng. Flest það sem sagt hefur verið honum til hnjóðs hefur verið hrakið og annað ekki rætt. Það þarf nefnilega að kafa ansi djúpt ofan í svona mál, en fáir nenna því. En hann nýtur trausts ansi margra sem og vantrausts. Flestir geta verið sammála um að hann sé umdeildur mjög.

Ég held að það sé óumdeilanlegt að hann hefur ennþá mikil áhrif,þótt hann hafi enginn völd lengur og þar af leiðandi ekki foringi neins, fyrir utan starfsmenn Morgunblaðsins.

Jón Ríkharðsson, 1.1.2011 kl. 11:58

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Flest bendir til að DO sé nokkuð vel lesinn í riti Macchiavelli Il principe sem var þýtt sem Furstinn. Það er talið hafa haft gríðarleg áhrif á hugmyndafræði og verklag ýmissa umdeildra stjórnmálamanna bæði lífs og liðna. Meira að segja var þetta rit lesið í Dölum vestur þegar á 16.öld, örfáum áratugum eftir útkomu þess fyrir nær 500 árum.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 1.1.2011 kl. 14:54

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ekki efast ég um að hann sé víðlesinn, enda ekki óþekkt að stjórnmálaleiðtogar sæki sér innblástur í bókmenntir.

Enda eru góðar bækur einn sá dýrmætasti sjóður sem mannkyn geymir.

Jón Ríkharðsson, 1.1.2011 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband