Fimmtudagur, 30. desember 2010
Ævisaga Gunnars Thoroddsen.
Það var eitt af mínum fyrstu verkum eftir að þessi góða bók kom út að kaupa mér eitt eintak.
Bókin er vel skrifuð og gefur góða innsýn inn í pólitík 20. aldar, einnig er áhugavert að kynnast hinum merka stjórnmálamanna, hugsjónum hans og persónuleika.
Hún staðfesti líka margt sem ég hef lengi vitað, fyrirgreiðslupólitík var ekki eingöngu á ábyrgð stjórnmálamanna.
Í bókinni koma fram dæmi um það, að menn hafi hótað að kjósa ekki flokkinn ef þeir gerðu ekki hin ýmsu viðvik fyrir sig og heilu sveitarfélögin hótuðu öllu illu ef þau næðu ekki sínu í gegn.
Hugsjónir almennings ristu ekki djúpt á þessum tíma, það skipti þá máli að vera í þeim flokki sem gerði þeim greiða.
Þessi góða bók ætti að kenna mönnum mikið meira en margir þjóðfundir.
Þjóð sem skammast eingöngu út í stjórnmálamenn og ætlast til þess að þeir geri allt rétt, en er ekki tilbúin að axla ábyrgð og læra, hún nær seint góðum þroska.
Hrunið sem varð hefði orðið mun mildara ef almenningur hefði ekki tapað sér í kaupgleði og sóun á fjármunum. Einnig hefðu fasteignir ekki hækkað svona mikið ef kaupendur hefðu ekki verið tilbúnir til að borga uppsett verð.
Ef þjóðin hefði heimtað minna í áranna rás og verið nægjusamari, þá værum við í ágætri stöðu í dag.
Ég get þó alla vega sagt það, að hrunið varð mér dýrmætur skóli. Mér var það ljóst, að peningar eru ekki óþrjótandi auðlynd og ég vona að ég verði aldrei svo vesæll maður, að kenna öðrum um minn eigin aulaskap.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.