Sópa nýir vendir alltaf best?

Að segja að nýir vendir sópi best þarf ekki endilega alltaf að vera rétt.

Þetta máltæki hefur stundum verið notað um Hreyfinguna sem nú hefur þrjá menn á þingi, en þeir eru víst ekki stjórnmálamenn að eigin sögn, heldur ætla þau að skreppa á þing til að breyta skipulaginu, ef það tekst ekki í snarhasti, þá ætla þau að hætta hið snarasta.

Þessi ágæt flokkur minnir svolítið á græningjaflokka almennt, þeir eru gjarna á móti ríkjandi skipulagi og vilja ekki spilla náttúrunni. Það er vissulega sjónarmið útaf fyrir sig og ekki alslæmt, en róttækni hefur nú ekki alltaf gengið vel, heldur er það hófsemin sem hefur verið farsælust til þessa.

Eftir að hafa hlustað á forsvarsmann þess ágæta flokks í kryddsíldinni, þá komu þessir ágallar "nýa blóðsins" vel í ljós.

Þessi ágæti maður sagði að það ætti hver og einn þingmaður að halda sinni sannfæringu á lofti og ekki lúta neinu leiðtogaræði.

Þetta er góð og falleg hugsun, en einföldun á raunveruleikanum. Vissulega á ekki að fara of langt í fylgispekt við skoðanir gegn eigin sannfæringu, en hinn vandrataði meðalvegur er bestur í þessu máli.

Margir eru þeirrar gerðar að finnast sín sannfæring sú eina rétta og flestir hafa sterka sannfæringu fyrir ýmsum málum.

En til að geta starfað með öðrum, þá þurfa að koma til málamiðlanir sem ganga út á það, að örlítil brot allra sjónarmiða steypast saman í eitt, sem verður þá ofan á að lokum. Best er að hafa öflugan og lipran leiðtoga sem nær að laða þetta fram og fylgja því eftir, til þess að hver og einn fari ekki að taka sína persónulegu sannfæringu upp aftur.

Svona vinnubrögð hafa reynst heiminum prýðilega, þótt þau séu ekki fullkomin. Enda er víst ekkert fullkomið í þessum heimi. Svo með virðulegan klæðaburð og formleg ávörp, þótt Hreyfingarfólk sé á móti þessu tvennu, þá er erfitt að viðhalda trausti, aga og virðuleik þjóðþinga án þess.

Ekki var hann hrifinn af stóriðjustefnunni, hann vildi frekar byggja upp ferðamannaiðnaðinn og sleppa stóriðjuframkvæmdum, því þær gera lítið annað en að skapa mikinn fjölda starfa í einhver ár, ásamt stórum peningaupphæðum. Svo myndi þetta allt saman nánast hverfa.

Þetta var heldur ekki alvitlaust hjá honum, en miðað við aðstæður í dag, þá þurfum við fjármagn bæði og störf, jafnvel þótt til skamms tíma sé.

Svo meðan uppsveiflan af stækkun álversins er í gangi þá er ekkert sem bannar fólki að fá góðar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd.

Það er nefnilega oft á stóriðjuandstæðingum að skilja, að svoleiðis framkvæmdir þurfi endilega að koma í veg fyrir nýsköpun á öðrum sviðum.

Ef þjóðin hugsar rétt (stjórnmálamenn geta ekki séð fyrir öllu og eiga ekki að gera það), þá getur hún nýtt sér þá bjartsýni sem skapast við verðmætaaukninguna, þótt tímabundin sé og finna fleiri leiðir sem myndað gætu burðarstoðir efnahagslífsins. Skynsamlegast væri um þessar mundir að einbeita sér hvað mest að útflutningi.

Svo er það með fjölgun ferðamanna. Íslensk náttúra er mjög viðkvæm og hún þolir ekki nema takmarkaðan fjölda á skömmum tíma. Þess vegna þurfum við að stíga þar gætilega til jarðar. Við getum auk þess ekki rekið samfélag sem gerir eins miklar kröfur og íslendingar gera með ferðaþjónustu og skapandi greinum eingöngu.

Öflugur sjávarútvegur verður að vera til staðar og álframleiðsla er nauðsynleg fyrir efnahagslífið, burtséð frá tilfinningum manna gagnvart náttúrunni.

En við eigum að sjálfsögðu að vernda hana eins vel og kostur er.

Eftir að hafa hlustað á sjónarmið fulltrúa Hreyfingarinnar í Kryddsíldinni, þá er ég efins um að hér myndi ríkja gott ástand ef þeirra stefna fengi að ráða, þótt vissulega sýni þau góðan vilja og heiðarlegt hugarfar.

En það þarf meira til, ef við viljum lifa eins vel og við höfum gert til þessa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband