Föstudagur, 7. janúar 2011
Heilbrigð skynsemi virkar ávallt best..
Upplýsingasamfélag nútímans er troðfullt af allskyns sérfræðingum og álitsgjöfum, sem láta gamminn geysa um hin ýmsu málefni líðandi stundar.
Svo þykir mörgum afskaplega gáfulegt að geta vitnað í orð sérfræðinganna máli sínu til stuðnings.
Þrátt fyrir áralanga setu í merkustu háskólum veraldar og vandlegan rýnilestur í hinar ýmsu fræðibækur, þá er það oft eins og viðkomandi sérfræðingur skilji ekki út á hvað lífið gengur.
Það þarf nefnilega heilbrigða dómgreind til að skilja lífið og hún er nú ekki kennd í skólum.
Oft er gaman að heyra af niðurstöðum fræðasamfélagsins, fyrir nokkrum dögum komust vísindamenn að þeirri niðurstöðu, eftir þó nokkrar rannsóknir, að fólk sýndi þreytumerki í andliti eftir langar vökur.
En með heilbrigðri skynsemi ætti öllum að vera þessi "vísindalega" niðurstaða ljós, vitanlega verða menn rauðir í augum og beyglaðir í framan eftir langar vökur, þetta hefur nú lengi verið vitað.
Svo er það blessuð pólitíkin. Hámenntaður prófessor á félagsvísindasviði eyddi mikilli vinnu í það, að sannfæra fólk um að skattalækkun væri skattahækkun og hlaut víst talsvert lof fyrir.
Ofanritað ætti að kenna okkur það, að taka ekki endilega meira mark á sérfræðingum bara vegna þess að þeir bera þann titil. Við þurfum ávallt að beita gagnrýnni hugsun og ekki taka neinu sem gefnu.
Og það má alls ekki heldur fara þá leið, að fordæma fræðasamfélagið, því þrátt fyrir allt, þá hefur það staðið fyrir mestu framförum veraldar.
En það ber að varast "skemmdu eplin" sem þar leynast.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.