Fimmtudagur, 13. janúar 2011
Óvænt upphefð.
Það er ágætis leið til þess að drepa tímann þegar ég er í landi, að dunda svolítið á netinu.
Stundum viðra ég skoðanir mínar, oft ferðast ég um netheima og lendi á hinum ýmsu síðum.
Einni síðu lenti ég á sem hýst er á Eyjunni, hún heitir því frumlega nafni; "Frelsi og franskar" og flytur víst fréttir og fréttaskýringar sem Bandaríkin varða.
Ég renndi augum yfir síðuna, frekar syfjaður eftir óreglulegan svefn á sjónum. En ég glennti upp glyrnurnar þegar ég sá nafn mitt ritað, því það er sameiginlegt með mér og öðrum einföldum sálum veraldarsögunnar, ég er ákaflega hégómagjarn að eðlisfari.
Það var ekki um að villast, heiðursmaður nokkur Ásgeir að nafni sá ástæðu til að geta mín við hlið ýmissa stórmenna samfélagsins, kann ég honum hinar bestu þakkir fyrir.
Ásgeir ritaði þann 11. október sl; "Nei nú get ég ekki orða bundist, "er skítkastið eitthvað sem vinstri menn mega einir nota" spyr Grétar. Svona spyr ekki maður sem lesið hefur AMX.is, Þjóðmál, Skafta Harðarson, Hannes Hólmstein, Staksteina og Jón Ríkharðsson, svo ég nefni nokkra stórvirka skítadreifara sem áberandi eru í umræðunni".
Bloggið mitt er svona ágætis dægradvöl, einnig hef ég til þess að svala tjáningarþörfinni skrifað í aðra miðla. En mér finnst það nú ofhól hjá öðlingnum Ásgeiri að telja mig í hópi þessara merkismanna sem hann nefnir.
Nú bíð ég spenntur eftir því að einhver álíti mig enn merkilegri mann, kannski einn af aðaláhrifamönnum stjórnmála og viðskiptalífsins, kannski álítur einhver mig hafa sambönd á alþjóðavettvangi.
Nú bíð ég fullur tilhlökkunar eftir enn meiri upphefð í netheimum, satt að segja átti ég aldrei von á að nokkur yrði sérstaklega upptekinn af minni persónu, en enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Athugasemdir
Til hamingju með þetta, þú færð kannski fálkaorðuna við næstu úthlutun
Sigríður Jósefsdóttir, 14.1.2011 kl. 13:37
Þakka þér fyrir það Sigríður, já hver veit nema ég fái fálkaorðuna fyrir skítadreifinguna.
Það er nefnilega þekkt að í ræktunarstarfi þarf að dreifa talsverðum skít til að ná upp vexti, þannig að ég held ótrauður áfram.
Jón Ríkharðsson, 14.1.2011 kl. 15:28
Gott að heyra, að þú ætlir ekki að gefast upp. Mér finnst nefnilega heilmikið vit í pistlunum þínum
Sigríður Jósefsdóttir, 15.1.2011 kl. 00:11
Þakka hólið Sigríður mín, það er ekki hægt annað en að margeflast þegar maður fær góða viðurkenningu frá Eyjunni og hrós frá fallegri konu eins og þér.
Jón Ríkharðsson, 15.1.2011 kl. 00:33
Heyrðu og vel á minnst, mér sýndist eftir síðunni þinni að dæma að þú værir vestfirðingur.
Þótt sé sé fæddur og uppalinn í Reykjavík, þá standa að mér sterkir vestfirskir stofnar og ég hef þess vegna alltaf upplifað mig sem vestfirðing, svona karakterlega séð.
Við vestfirðingar erum óhræddir við að láta í okkur heyra og þorum að standa við okkar sannfæringu.
Baráttukveðjur til vestfjarða, þar er yndælt að vera í fallegri náttúru innan um skemmtilegt fólk.
Jón Ríkharðsson, 15.1.2011 kl. 00:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.