Föstudagur, 14. janúar 2011
Hvers vegna er engin rannsókn?
Ræfildómur forsætisráðherra er með eindæmum. Hún talaði eitthvað um það, að rannsaka þyrfti almennilega einkavæðingu bankanna, en svo gerist ekki neitt?
Vitanlega á að koma öllum málum á hreint, fyrst fólk vill enn vera að vandræðast með orsakir hrunsins. Ef hún telur eitthvað glæpsamlegt hafa verið á ferðinni hjá sjálfstæðismönnum, þá ber að sjálfsögðu að rannsaka það. Sama gildir vitanlega um Steingrím Joð, hann á að vera maður til að standa við stóru orðin.
Það á líka að rannsaka allar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar varðandi starfsemi bankanna á þeirra vakt, upplýsa þarf þingið um hverjir eru raunverulegir eigendur bankanna.
Það þýðir ekki að fara alltaf undan í flæmingi. Það gildir einu í hvaða flokki fólk er, allir eiga að vera jafnir fyrir lögum.
Ég er ansi hræddur um að Jóhanna hafi verið hvatvísari varðandi landsdóminn ef hún hefði ekki óttast eitthvað varðandi eigin þátt í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar hrunsins. Vitað er að hún jók lánveitingar Íbúðarlánasjóðs þvert á skuldbindingar þær er hún hafði áður ritað undir.
Þótt ég sé yfirlýstur og eindreginn stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, þá vil ég alls ekki að sjálfstæðismenn sleppi hafi þeir brotið eitthvað af sér. Hver og einn verður að axla ábyrgð á sínum gjörðum.
En aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar er slíkur, að ekki hefur enn tekist að sakfella neinn þeirra sem átti þátt í hruninu haustið 2008.
Það er nefnilega ekki nóg að rífa kjaft í fjölmiðlum, það þarf að gera eitthvað vilji menn kalla sig alvöru stjórnmálamenn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.