Hægri stefnan virkar best.

Ef litið er til stjórnmálasögu veraldarinnar, þá má glöggt sjá að hægri stefnan, sambland af frjálshyggju og kapítalisma hefur virkað hvað best. 

Samkvæmt skilgreiningu stjórnmálafræðinga, þá gengur hægri stefna út á frelsi til orða og athafna en vinstri stefnan boðar meira stjórnlyndi. Þar sem að maðurinn er ekki auðtamin skepna og vill fara sínar leiðir, þá leiðir af sér að frelsið er farsælast af öllu því sem þekkt er í dag.

Ef við förum frá hinni hefðbundnu hægri og vinstri stefnu og skoðum nýja aflið í íslenskum stjórnmálum, Hreyfinguna, þá hefur hún ekkert nýtt fram að færa. Ekki skal efast um göfugan ásetning þeirra, en spurningin er, hver er hugmyndafræðin?

Hún gengur víst út á það, að færa völdin til fólksins. Ekki er víst að það sé betra, því hægt er að hafa áhrif á almenning alveg eins og stjórnmálamenn, með allskyns áróðri frá sérhagsmunahópum. Enda er almenningur langt frá því að vera einsleitur hópur, þar ríkja ólík sjónarmið alveg eins og á þingi.

Það sást með glöggum hætti þegar íbúakosningin var í Hafnarfirði, ekki var það hagstæð niðurstaða sem kom út úr henni. Samt fékk almenningur að ráða. Miðað við stemminguna í samfélaginu, þá er ekki meira vit í því sem margir úr hópi almennings láta frá sér fara heldur en margt af því sem frá stjórnmálamönnum kemur. Svo hafa nýir hópar sem myndast hafa í byltingum náð völdum úti í heimi og erfitt er að sjá að það hafi haft hagsæld í för með sér.

Alvöru stjórnmálaafl boðar hugmyndafræði sem virkar til hagsældar. Hugmyndafræði hægri manna gengur út á frjáls viðskipti að stórum hluta ásamt þeirri sjálfsögðu hugsun að hlúa þurfi að okkar minnstu bræðrum og systrum.

Frjáls viðskipti lögðu grunn að því kerfi sem við þekkjum í dag á sviði velferðar og menntunarmála.

Gallinn er sá, að frjáls viðskipti hafa aldrei náð að dafna hér á landi, fáum aðilum hefur með samþykki hægri og vinstri manna tekist að sölsa undir sig markaðinn. Við þurfum að gæta að því í framtíðinni að nýir markaðir feli í sér frjálsa samkeppni.

Hugmyndafræði stjórnmálaafla má ekki ganga út á það að hygla einni stétt framar öðrum stéttum. Vinstri flokkarnir voru stofnaðir sem sérhagsmunabandalög verkalýðsins á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður sem flokkur allra stétta. 

Verkefni sjálfstæðismanna verða þau helst, að standa vörð um frelsið og gæta þess að heilbrigð samkeppni ríki. 

Það þýðir ekki að jafna kjör fólks með ofbeldi eins og vinstri menn vilja gera. Svoleiðis aðferðir ergja fólk og draga úr því allan mátt.

Skattar eiga að vera í lágmarki sem og ríkisútgjöld. Það er gott aðhald fyrir stjórnmálamenn að hafa ekki úr miklum peningum að spila. Þetta vita sjálfstæðismenn best allra í pólitík.

Kjör fólks jafnast af sjálfu sér ef hægri stefnan fær að virka eins og hún á að gera.

Þá verða fleiri að keppa á markaðnum, þannig að erfiðara er um vik að hækka vörur úr hófi fram. Það þýðir að menn geta ekki orðið eins ríkir og í núverandi kerfi. Og þetta allt mun gerast með fullri sátt, því enginn verður heldur mjög fátækur.

Það á ekki að vera markmið neins að verða óhóflega ríkur, því það hefur ekki orðið mörgum til gæfu. 

Mönnum líður hvað best ef þeir hafa frelsi til að gera hvað sem þeir vilja. Ríkisvaldið á að sjá til þess að menn hafi ekki frelsi til að skaða aðra, einnig að lágmarksmenntun verði kostuð af ríkinu ásamt heilbrigðisþjónustu öllum til handa.

Svo er í lagi að standa að einhverju leiti undir kostnaði við börn þessa lands, því þau eru framtíðin og geta ekki séð fyrir sér sjálf. Börnin eru að miklu leiti á ábyrgð þjóðarinnar að mínu mati.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Sigurðsson

Sæll Nonni. Þetta er gott hjá þér, þú ert mað þetta.

Óskar Sigurðsson, 16.1.2011 kl. 23:12

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Óskar minn.

Jón Ríkharðsson, 16.1.2011 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband