Hafa skal það sem sannara reynist.

Álitsgjafar ýmsir sem starfað hafa á vegum vinstri manna hafa komið með misvísandi upplýsingar til þess að blekkja fólk til fylgislags við sína hugmyndafræði.

Gallinn er sá, að þetta eru hámenntaðir menn og sumir hverjir starfa þeir við kennslu í háskólum landsins.

Þorvaldur Gylfason hefur lengi talað niður íslenskan sjávarútveg. Hann kvað sjávarútveginn aðeins vera 5% af þjóðarframleiðslunni í grein sem hann ritaði í Fréttablaðið fryir nokkrum mánuðum síðan.

Hann gleymdi vitanlega að geta þess að það er munur á því fjármagni sem sjávarútvegur skilar heldur en t.a.m. verslun, þjónusta og iðnaður fyrir innanlandsmarkað og ekki má gleyma þætti skapandi greina í þjóðarframleiðslunni.

Þessi 5% sem hann nefnir er vafalaust rétt tala, þegar miðað er við þjóðarframleiðslu, en það hugtak þýðir ekkert annað en heildarvelta þjóðarbúsins.

Staðreyndin er hins vegar sú, að 5% vega þungt, því sjávarútvegurinn kemur með gjaldeyri inn í landið og endurnýjar þar af leiðandi það fjármagn sem fyrir er.

Raunar sagði Þorvaldur eitt sinn að bankastarfsemi væri orðinn "gróandi útflutningsvegur" og hann var nokkuð bjartsýnn á að fjármálaumsýsla væri framtíðar burðarstoð hagkerfisins. 

En það var árið tvöþúsund og sjö, þá var hann svo ægilega brattur með fjármálakerfið eins og allir samfylkingarmenn.

Margir náttúruverndarsinnar vitna í Indriða H. Þorláksson og skrif hans varðandi álver.

Indriði beitir sömu blekkingunni, hann kemur með staðreyndir en matreiðir þær villandi ofan í fólk.

Hann sagði að innlendur virðisauki væri eingöngu átta milljarðar og það svaraði til 0,6-0,7% af þjóðarframleiðslu. En átta milljarðar af innfluttu fjármagni er okkur dýrmætara í eðli sínu en allt sem kemur til vegna innanlands starfsemi, þótt það séu kannski hærri upphæðir.

Vill einhver tapa átta milljarða gjaldeyristekjum úr þjóðarbúinu?

Þegar fólk sér núll komma eitthvað prósent, þá finnst engum það sérstaklega merkilegt. Og þrjú þúsund störf sem verða til í kring um álver, það er bara lítið brot af heildarvinnuafli þjóðarinnar, eitt prósent eða rétt innan við það.

En þrjú þúsund störf það er nú ágætt út af fyrir sig og æði kostnaðarsamt yrði nú fyrir samfélagið, ef þau hyrfu á brott.

Þeir eru fastir í mörg þúsund ára gamalli aðferð forn-Grikkja sem gengur út á það, að sannfæra fólk um sinn málstað, hvort sem hann er réttur eður ei.

Sú aðferð getur virkað vel fyrir ungt skólafólk, hún getur þroskað heilann. En sem innlegg í alvöru umræðu er þetta mikið eyðileggingar fyrirbæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón, aðeins smá viðbót.

Ætli færi ekki lítið fyrir verslun og þjónustu, hefðum við þessi 5%.

Einu sinni fór 95-100% af tíma fólks í matarframleiðslu.  Í dag vinna nokkur % við slíkt.

Höfum við þá minna að éta, eða kemur framleiðni eitthvað við sögu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.1.2011 kl. 22:22

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Blessaður Ómar.

Ég á nú æði bágt með að kryfja prósentutölur hagfræðinga til mergjar og skil ekki alveg þessa 5% tölu Þorvaldar, enda skiptir hún ekki höfuð máli.

Ég veit það eitt að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári var í kring um 200. milljarðar og sá peningar ætti að gera talsvert gagn fyrir þjóðarbúið. Eflaust fer eitthvað úr landi til að greiða af lánum osfrv., en eftir stendur vitanlega sú staðreynd, að útflutningsgreinarnar skipta meira máli nú um stundir en kannski á öðrum tímum.

Verslunar og þjónustugeirinn er líka að skapa verðmæti í formi starfa osfrv., við megum vitanlega ekki án neinna greina atvinnulífins vera.

Þetta er áhugaverð pæling varðandi framleiðnina ef ég skil þig rétt.

Á átjándu öld þegar iðnbyltingin var í algleymi hjá Bretum datt mönnum í hug að láta vélar sjá um að prjóna sokka.

Þeir sem höfðu handprjónað sokka um árabil urðu æfir, það urðu blóðug átök vegna tilkomu prjónavélanna, fólk óttaðist atvinnuleysi.

Svo þegar um hægðist kom í ljós að prjónavélarnar sköpuðu fleiri störf en voru til þegar sokkar voru prjónaðir í höndunum.

Þá sköpuðust störf við að mata vélarnar, það þurfti að gera við þær og framleiða þær einnig. Í framhaldi af aukinni framleiðni þurfti að leita nýrra markaða og þá varð til stétt sölumanna, umboðsmanna osfrv.

Þróun getur líka verið atvinnuskapandi og tækifærin eru næg, það þarf að hafa fyrir því að finna þau.

Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 22:54

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón.

Þegar framleiðni eykst, þá fækkar vinnandi höndum í viðkomandi atvinnugrein.  Og þær fara þá að gera eitthvað annað.

Og það annað er viðbót við þjóðarframleiðsluna, og þó færri hendur séu að framleiða meira í gömlu atvinnugreininni, þá lækkar hlutfall hennar af heildinni.  Það er það sem er að gerast með sjávarútveginn.

En það annað sem um er að ræða, ef það er framleiðsla eða útflutningsskapandi, þá minnkar einnig vægi hinnar gömlu atvinnugreinar, og það hefur alltaf verið markmið stjórnvalda, að fá fjölbreytni.

Álframleiðsla, svo dæmi sé tekið, skapar gjaldeyri, og útvegar störf, þar með minnkar hlutfalla sjávarútvegs af heildar þjóðarframleiðslu.

En nútíminn er þjónusta, og þjónustuþjóðfélag.  Sá hluti hans sem ekki skapar útflutning, hann bætir vissulega lífskjör, og útvegar fólki vinnu.  En ef innspýtingin í hagkerfið, til dæmis sjávarútvegurinn leggst af, þá myndast dómínó, þjónustan fellur í kjölfarið.

Þannig að Þorvaldur er ekki aðeins að skaða 5%, heldur mun stærri hluta þjóðarframleiðslunnar.

Og þetta veit hann, en hann kýs að ljúga með tölfræðinni, í trausti þess að fólk spái ekki í hvað hangir á spýtunni.

Einmitt þessari sömu spýtu sem hóf okkar spjall.

Takk fyrir mig, ég var aðeins virkur fram að þessum mótmælum, er að fara í híði mitt aftur.  Þegar ég rumska, þá er annað af tveimur að gerast, ICEsave á leiðinni i gegnum þingið, eða þjóðin rumskar. 

Finnst það fyrra líklegra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.1.2011 kl. 23:15

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Ómar, þetta er allt saman satt og rétt og einmitt það sem ég var að meina, kannski með öðru orðalagi.

Við erum greinilega sammála þessu, eins og mörgu öðru, þótt við notum ekki alltaf sömu orðin, þá er hugsunin sú sama.

.Kveðja úr höfuðborginni, vonandi dreymir þig eitthvað fallegt, helst ekkert tengt Icesave eða pólitík.

Jón Ríkharðsson, 17.1.2011 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband