Ekki forsendur til launahækkanna.

Það er undarlegt á tímum sem þessum, að gerðar séu kröfur til fyrirtækja, að þau greiði hærri laun til starfsmanna sinna.

Vissulega geri ég mér grein fyrir að þessi pistill virkar eins og köld vatnsgusa framan í marga, sem raunverulega þurfa á hærri launum að halda og það er ómögulegt fyrir marga að ná endum saman með þeim tekjum sem þeir hafa nú þegar.

En raunveruleikinn er oft ansi leiðinlegur og ósanngjarn og það er hann svo sannarlega í dag, en við verðum samt að taka honum eins og hann er, hvernig sem okkur líkar við hann.

Fyrirtæki berjast í mörg hver í bökkum, allt hefur hækkað og stjórnvöld hafa ekki látið sitt eftir liggja varðandi það, að hækka rekstrakostnað þeirra.

Geta þeirra til að greiða laun hlýtur að markast af því, hver fjárhagsstaðan er.

Ef þau hins vegar neyðast til að greiða hærri laun, þá þýðir það því miður aukið atvinnuleysi, eins og málum nú er háttað.

Hið opinbera þarf að skapa hagstæðari rekstrarskilyrði fyrirtækjum til handa, með t.a.m. skattalækkunum, því ríkið ætti að hafa meira bolmagn til að taka á sig skerðingu heldur en fyrirtæki sem á brauðfótum standa og almenningur sem vart nær að fæða sig og klæða.


mbl.is Hærri laun og afnám verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Tómasson

Það er rétt að það verður ekkert auðvelt að sækja hækkanir til fyrirtækja í þessum samningum.

Það sem aðilar vinnumarkaðarins ættu að sameinast um er krafa um að lánamálin verði tekin til algerrar endurskoðunar. Þar sitja allir aðilar við sama borð og eiga hagsmuna að gæta. Spjótin eiga að beinast að ríkisstjórninni því hún hefur lykilinn að farsælli lausn þessarar kreppu ef hún bara hefði hugrekki til að takast á við fjármálageirann. Það hugrekki skortir ( eða, og maður þorir varla að nefna þetta upphátt, hagsmunirnir liggja röngum megin ) og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Að auki þurfa stjórnmálamenn að fara að átta sig á að gamla pólitíska hagfræðin sem þeir hafa komist upp með gegnum tíðina, aðallega vegna þess að ástandið hefur aldrei fyrr orðið svona slæmt, er glapræði eins og staðan er núna.

Þó ekki fengist nema vilyrði fyrir þessu þá yrði það strax til að greiða fyrir samningum.

Því miður er maður í besta falli hóflega bjartsýnn á að svo muni verða

Hjalti Tómasson, 21.1.2011 kl. 15:19

2 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Mig langar til að hrósa þér fyrir þennan pistil. Það þarf svo sannarlega hugrekki til að segja svona hluti, þó sannir séu.

Það eru svo margir sem halda að hinu megin við ánna sé fullt af peningum að sækja.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 21.1.2011 kl. 16:01

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Hjalti, ég er sammála því sem þú segir.

Núna er mikilvægt fyrir samtök atvinnulífsins að sameinast, frekar heldur en að rífast hver við annan um kaup og kjör.

Lykillinn að lausninni er hjá ríkisstjórninni, en það er rétt sem þú segir.

Það er hæpið að þú notir hann.

Jón Ríkharðsson, 21.1.2011 kl. 16:50

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sigurður, ég þakka hólið.

Það er nefnilega kominn tími til að við ræðum málin á réttum forsemdum í stað þess að vera stöðugt föst í einhverri rifrildisþvælu sem engu skilar, nema meira rifrildi, sem svo skaðar í framhaldinu heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Því miður er það svo, þótt mörgum sé óljúft að sjá það, að fyrirtækjarekstur hér á landi er mjög erfiður af ýmsum sökum.

Hvers vegna halda menn að líftími fyrirtækja sé svona stuttur?

Ekki er hægt að segja að allir sem hafi stofnað fyrirtæki ríði þaðan feitum hesti, langt í frá.

Og þeir sem að hagnast og veita fólki starfsöryggi eru gjarna nefndir arðræningjar.

Það er margt skrítið í kýrhausnum, en ég er feginn því að hafa fengið tvær athugasemdir frá skynsömum mönnum.

Þótt ég sé alveg tilbúinn í slagsmál á ritvelli við alla þvargara bloggheima og hafi stundum jafnvel gaman af því, að þá er nú ágætt að sleppa því stöku sinnum.

Því það getur verið þreytandi til lengdar.

Jón Ríkharðsson, 21.1.2011 kl. 16:55

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Fyrirgefðu Hjalti minn, þarna var smá villa hjá mér í svarinu til þín, vitanlega átti að standa "þau" en ekki "þú", því þú hefur vitanlega ekkert vald yfir lyklinum frekar en ég eða aðrir alþýðumenn.

Jón Ríkharðsson, 21.1.2011 kl. 16:58

6 Smámynd: Baldur Hermannsson

Já það verð ég að segja með ykkur, ekki skortir Bassann karlmennskuna. En vinstri mennirnir eru búnir að þjarma svo fast að fyrirtækjunum að það er varla nokkur sköpunarmáttur eftir. Vinstri mennirnir lóga kúnni og skilja svo ekki hvers vegna engin er mjólkin.

Baldur Hermannsson, 21.1.2011 kl. 22:32

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

....þar er varla .....

Baldur Hermannsson, 21.1.2011 kl. 22:33

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

það þarf að hækka lágmarkslaun í 200 þus það mynnst og að strax,svo ef ríkisstjórinn kemur að málum verður að lækka skatta aftur,og skera niður á rettum stöðum,engin spurning,það lifir engin á myna  en þessu!!!!!/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 22.1.2011 kl. 00:58

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Baldur, þetta er undarleg árátta hjá þeim að vilja alltaf slátra bestu mjólkurkúnum.

Þeir hafa aldrei sagt hvað á að gera til að skapa verðmæti, þá hugsun vantar alveg í þá.

Jón Ríkharðsson, 22.1.2011 kl. 01:14

10 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er vissulega rétt hjá þér Halli minn, það lifir enginn af þessum launum sem greidd eru í dag, svo mikið er víst.

En fyrirtækin þurfa að eignast peninga til að geta greitt sómasamleg laun.

Flest fyrirtæki virðast  flest vera í sömu stöðu og fólkið í landinu, bankarnir virðast vera þeir einu sem eiga einhverja peninga ásamt lífeyrissjóðunum.

Jón Ríkharðsson, 22.1.2011 kl. 01:16

11 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Hvernig geta Hagsmunasamtök heimilinna krafist þess að verðtrygging verði afnuminn og gagnrýnt slæma stöðu lífeyrissjóðanna í sama orðinu?

Fólk virðist vera búið að gleyma því hvers vegna verðtryggingunni var komið á á sínum tíma og hvernig ástandið var áður en verðtrygging kom til. Ég tilheyri þeirri kynslóð sem öllu sparifé var stolið af vegna skorts á verðtryggingu. Þú lagðir lambsverð inná reikning og þegar þú tókst það út var það virði einnar karamellu. Mismuninn höfðu þeir hirt sem tóku lán og byggðu sér hús.

Þeir sem eru að hrópa á afnám verðtryggingar eru að biðja um að lögleiddur þjófnaður verði aftur tekinn upp og að eignir lífeyrissjóðanna verði rýrðir enn frekar.

Hins vegar er það mín skoðun að launin eigi líka að vera verðtryggð því allt annað er óréttlátt.

Jón Bragi Sigurðsson, 22.1.2011 kl. 06:19

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, og mér finnst þetta sérstaklega gilda um sjómenn, sem fengu gífurlegar launahækkanir í kjölfar hruns krónunnar.

Útgerðin er í miklum skuldavanda og sjálfsagt að sjómenn og fólki í landvinnslu hjálpi útgerðarmönnum að vinna úr sínum skuldum. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.1.2011 kl. 10:59

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sammála síðasta ræðumanni og mig langar að spyrja síðuhafa hvort hann sé tilbúinn að vera áfram á sjónum fyrir 200-250 þúsund kr. á mánuði.

Ef ekki, hvernig getur hann ætlast til að aðrir stundi sína vinnu á slíkum smánarlaunum?

Theódór Norðkvist, 22.1.2011 kl. 11:08

14 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Ég ætla rétt að vona að þú Guðbjörn Guðbjörnsson sért að grínast.

Jón Bragi Sigurðsson, 22.1.2011 kl. 11:10

15 Smámynd: Baldur Hermannsson

Guðbjörn er bara að afla flokknum sínum fylgis.

Baldur Hermannsson, 22.1.2011 kl. 12:23

16 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Við megum ekki lenda í þeim farveigi að fyrirtækin komist upp með að borga ekki mannsæmandi laun bara af því að ástandið sé svona í þjóðfélaginu því að mörg fyrirtæki geta hækkað laun með því að lækka laun toppana því jú einhversstaðar var það samþykkt að 850.000kr ættu að duga sem hámark!

Sigurður Haraldsson, 22.1.2011 kl. 14:21

17 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar, Jón Bragi, Guðbjörn, Theódór, Baldur og Sigurður.

Aðeins til þín Guðbjörn, minn góði vinur.

Við sjómenn erum vissulega að hjálpa útgerðinni og við höfum gert það lengi, með því að taka þátt í olíukostnaði og umbúðakostnaði á frystitogurum.

Við nöldruðum ekki mikið þegar gengið var hátt, þá voru lág laun til sjós, vegna þess að við erum vanir miklum sveiflum í okar launum.

Það er rétt að laun okkar hækkuð mikið þegar krónan hrundi, en þau hafa nú aðeins farið lækkandi. 

Það er nefnilega þannig með laun okkar sjómanna, þau geta bæði verið mjög há, mjög lág og allt þar á milli, þannig að það er mjög vont að reikna með einhverjum ákveðnum upphæðum. Ekki má gleyma því að fiskurinn getur verið ansi hrekkjóttur, stundum er erfitt að veiða hann.

Þessi umræða hlýtur að snúast fyrst og fremst um getu fyrirtækjanna til að greiða launin.

Einhvers staðar þar að fá pening til þess að hækka laun, en þau er vissulega allt of lág, það vita allir.

Ef einhver getur sýnt fram á það, að fyrirtæki hafi svigrúm til að hækka launin, þá er það vel.

En því miður benda þær upplýsingar sem fyrir liggja, ekki til þess.

Jón Ríkharðsson, 22.1.2011 kl. 15:36

18 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Theódór, ég tók ekki eftir spurningunni sem þú beindir að mér, en ég skal svara henni með ánægju.

Það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvort ég er tilbúinn til þess að vera á sjó fyrir 200-250.000. á mánuði.

Það sem skiptir mig mestur máli er að hámarka afrakstu minnar vinnu, ég leitast við að finna störf sem gefa vel af sér.

En það hefur ekki alltaf gengið eftir, hér fyrr á árum, meðan ég var á minni bátum var ég á tryggingu mánuðum saman vegna aflaleysis og stöðugra óveðra, en tryggingin er 197.000. krónur í dag.

Ég hef oft verið í helvítis peningabasli og ekkert sjálfgefið að ég lendi ekki í því aftur.

Ég er vanur að takast á við erfiðleikanna meðan þeir eru, því það koma alltaf betri tímar aftur. Ég er þakklátur ef ég hef góða heilsu og mínir nánustu hafa það nokkuð gott. Mér hefur aldrei dottið til hugar að kvarta yfir peningaleysi, þótt ég hafi oft fundið fyrir því og jafnvel verið stórskuldugur upp fyrir haus, enda ólst ég upp við það, að lítið var um peninga hjá foreldrum mínum og óttalegt basl við að ná endum saman.

Ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því, en það hafa komið margar kreppur í gegn um tíðina og fátæktartímabil.

Þau líða hjá og að lokum kemur betri tíð. Það er nú reynsla mannkynnisins í gegn um tíðina.

Jón Ríkharðsson, 22.1.2011 kl. 16:22

19 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Og í Guðs bænum Theódór, reyndu einu sinni að skilja það sem ég skrifa.

Ég ætlast ekki til þess að nokkur maður lifi á lágmarkslaunum, ég fæ engu um það ráðið.

Það sem ég tel að hafi komið skýrt fram í pistlinum var, að ég efast um að fyrirtæki hafi getu til, eins og staðan er í dag, til að greiða hærri laun.

Hvergi hef ég sagt eða gefið í skyn, að ég vildi að einhver væri á lágum launum.

Að sjálfsögðu vil ég, eins og allir sem hafa sæmilegt siðgæði, að fólk hafi nóg að bíta og brenna.

En ég get ekki búið til peninga og það hefur engum tekist að búa þá til úr engu.

Jón Ríkharðsson, 22.1.2011 kl. 16:27

20 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það sem skiptir mig mestur máli er að hámarka afrakstu minnar vinnu, ég leitast við að finna störf sem gefa vel af sér.

Þá ættirðu að geta skilið þá sem eru á lúsarlaunum og berjast fyrir betri kjörum. Þeir vilja hámarka afrakstur sinnar vinnu. Öll störf eru mikilvæg og ef allir leituðu aðeins í störf sem gefa vel af sér myndi enginn vera í umönnunarstörfum.

Ég ætlast ekki til þess að nokkur maður lifi á lágmarkslaunum, ég fæ engu um það ráðið.

Þú ert óbeint að ætlast til þess, með því að tala niður baráttu verkalýðsins fyrir mannsæmandi launum með þeim orðum að engir peningar séu til. (Ef engir peningar eru til, er ekki rétt að byrja á því að lækka laun þeirra sem eru með háu launin?)

En ég get ekki búið til peninga og það hefur engum tekist að búa þá til úr engu. 

Rangt, allir peningar eru búnir til úr engu. Peningar eru aðeins til vegna þess að einhver hefur tekið á sig skuld. Þeir eru ávísun á skuld, án skulda væru þeir ekki til. Aftur á móti eru flest verðmæti búin til úr einhverju.

Theódór Norðkvist, 22.1.2011 kl. 21:44

21 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Theódór, þetta er í annað skiptið sem ég lendi í einhverjum ritdeilum við þig, vegna þess að þú rangtúlkar það sem ég skrifa.

Það kemur hvergi fram að ég skilji ekki þá sem vilja bætt kjör, mín tilfinning er bara sú, að það séu ekki til nægir peningar til að hækka launin.

En ef þú telur það rangt hjá mér, þá tekur þú þig til og sannfærir réttu aðilanna um að það séu til nægir peningar.

Ég myndi fagna því innilega ef hægt væri að skaffa öllum mannsæmandi laun.

Ég er ekki að tala neitt niður, en mér finnst launabaráttan hafa verið á villigötum lengst af og þremenningarnir sem að þjóðarsáttinni stóðu voru á sama máli og ég.

Þeim fannst ekki rétt að vera stöðugt að hæka krónutölu launa, þannig að þeir fengu ríkisstjórnina í lið með sér og úr varð þjóðarsáttin fræga. Það er sú stefna sem ég er að tala fyrir, ég sagði nefnilega í pistlinum að hið opinbera ætti að koma þar að málum, t.a.m með því að lækka skatta og beita öðrum aðferðum til að liðka fyrir samningum og bæta hag launafólks, það á semsagt að vera þeirra verkefni að finna lausnir, í anda þjóðarsáttarinnar góðu.

Þú ert ansi brattur ef þú telur það farsælt að lækka laun hjá einni stétt til að hækka laun hjá annarri, en gangi þér samt vel í þeirri baráttu.

Þú segir mig fara með rangt mál varðandi peningamálin.

Það er að vissu leiti rétt að peningar séu búnir til úr engu, það kallast víst peningaprentun sem þykir ekki hagkvæm leið. Hún veldur nefnilega talsverðri verðbólgu ásamt tilheyrandi vandræðum fyrir hinn almenna launamann, hærri afborganir af lánum osfrv. Ef þú vilt boða þá stefnu, þá verður þú ansi einmanna í baráttunni held ég.

Peningar eru vitanlega ávísun á verðmæti og ef næg verðmæti styðja ekki við þá, þá eru þeir frekar gagnslitlir,þótt fjöldi seðla geti verið ansi drjúgur.

Ég hef nú lúmskt gaman af að þvarga við þig, þótt það skili engu, ég er svolítið þrasgjarn að eðlisfari þótt ég hafi farið fremur sparlega með þá áráttu á síðari árum.

En mundu að lokum, pistillinn túlkar þá skoðun mína að fyrirtækin séu í mjög erfiðri fjárhagstöðu og þar af leiðandi illa í stakk búin til að greiða hærri laun. Það eru reynda margir á þeirri skoðun, þannig að ekki er ég alveg einn um hana.

Allt tal um það, að ég skilji ekki þá miklu neyð sem margir eru í nú um stundir, það er ekkert annað en andskotans kjaftæði.

En lýðræðið veitir mönnum rétt til að rangtúlka skoðanir og flækja þær fram og til baka, en það kallast víst ekki þroskuð rökræða, svona samkvæmt hefðbundnum skilningi þess orðs.

Jón Ríkharðsson, 22.1.2011 kl. 23:10

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Erum við í ritdeilum? Það fór alveg framhjá mér. Ég hélt við værum bara að skiptast á skoðunum og færa rök fyrir þeim.

Hvað er ég að rangtúlka? Þú ert að mótmæla því að verið sé að biðja um bætt kjör með þeim rökum að fyrirtækin séu svo illa stödd. Ég var aðeins að benda á það. Bentu mér á hvar ég er að misskilja þig.

Ég er að benda á að ef fyrirtækin eru illa stödd, hvers vegna borga þau þá framkvæmdastjórum, deildarstjórum, framleiðslustjórum og hvað þetta allt heitir 5-800 þúsund á mánuði.

Ef fyrirtækin eru svona illa stödd ættu að snarlækka þessi laun og bæta frekar kjör þeirra sem eru með það lág laun að þau duga ekki til framfærslu. Þú virðist hinsvegar vilja viðhalda misréttinu.

Þetta er allt og sumt sem ég vil benda á og ef það fer svona illa á sálina hjá þér að ég komi hingað og lýsi skoðunum mínum skal ég glaður hætta því.

Theódór Norðkvist, 23.1.2011 kl. 10:27

23 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Gott og vel Theódór minn, ég skal leitast við að rökstyðja mitt mál.

Samkvæmt mínum skilningi eru það skoðanaskipti þegar menn tjá sínar skoðanir, stundum eru þær hinar sömu og stundum eru þær á öndverðum meiði.

Strax í upphafi þessarar umræðu, þá kom það í ljós að við höfum ekki sömu sýn á þetta mál.

Svo þegar haldið er áfram á sömu braut, án þess að nýjar upplýsingar komi fram, þá breytast skoðanaskiptin í deilur, þegar farið er að gera mönnum upp skoðanir og gera þá tortryggilega.

Þú sagðir mig óbeint vera að tala niður baráttu verkalýðsins, en það getur ekki staðist, því þá væri ég að tala niður mína hagsmuni.

Hins vegar finnst mér hún hafa verið á vitlausum forsemdum eins og ég rökstuddi í aths. 21.

Það hafa engar nýjar upplýsingar komið fram hjá okkur í þessu máli, þú ert á þeirri skoðun að hægt sé að lækka laun hjá einni stétt til að hækka þau hjá annarri.

Ég sé það ekki ganga upp, enda eru menn oftast fastheldnir á eigin laun og þar af leiðandi ófúsir að lækka þau.

Þetta er bara staðreynd sem þarf ekki að endurspegla mínar skoðanir á neinn hátt.

Ég nefndi aðkomu ríkisstjórnarinnar vegna þess, að laun þyrftu að hækka mjög mikið til þess að endar næðu saman hjá almenningi í landinu sökum útgjaldaaukningar sem ríkisstjórnin hefur valdið.

Það fer alls ekki illa í sálina á mér að þú skulir lýsa þínum skoðunum, en ég verð að viðurkenna það, að mér leiðist það ef verið er að gefa það í skyn að ég tali gegn hagsmunum verkalýðsins, því ég er hluti af honum eins og öll mín ætt.

Jón Ríkharðsson, 23.1.2011 kl. 13:08

24 Smámynd: Baldur Hermannsson

Það var lagið strákar, við erum karlmenn en ekki kerlingar, við tölum saman, segjum hug okkar og fyrtumst ekki út af smámunum.

Baldur Hermannsson, 23.1.2011 kl. 13:14

25 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gott og vel kannski er ekki ætlunin hjá þér að tala niður kjarabaráttuna, en því miður kemur það þannig út, þó það hafi ekki verið viljandi.

Í sjálfu sér er ég ekkert á móti því að herða sultarólina ef eitt skal yfir alla ganga, þ.e. jafnræðis er gætt.

Það hefur nefnilega verið hingað til þannig að þegar ráðamenn landsins (landráðamenn) hafa talað um að herða sultarólina, hefur það alltaf þýtt það sama:

Þeir skulu herða sultarólina sem hafa hert hana svo mikið að hún er komin inn að beini, meðan þeir sem tilheyra forréttindastéttunum eru stikkfrí í þeim efnum.

Þeir síðarnefndu geta reyndar ekki hert sultarólina því þeir eru orðnir svo feitir að hún nær ekki utan um vömbina á þeim.

Er þetta nógu karlmannlegt?

Theódór Norðkvist, 23.1.2011 kl. 15:32

26 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þetta er gott :)

Baldur Hermannsson, 23.1.2011 kl. 15:41

27 identicon

"Ekki forsendur til launahækkana"

Já það var og!!

Ég er komin á miðjan aldur og ég man ekki til þess að nokkru sinni hafi verið forsendur til launahækkana svo langt aftur sem ég man.

Merkilegt að fólk sé endalaust tilbúið að kaupa kjaftæðið frá Vilhjálmi og Co. aftur og aftur og reyna að réttlæta það!!!

200000 kall eru hreint ekki merkileg laun og ef aðilar treysta sér ekki til að borga mannsæmandi laun þá er eitthvað að rekstrinum hjá þeim.

Þessutan er það staðreynd að hærri laun og aukin kaupgeta skila sér aftur til fyrirtækjanna þannig að hækkun lágmarkslauna væru ekki bara mínus fyrir þessi fyrirtæki heldur plús líka.

Eggert Vébjörnsson 24.1.2011 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband