"Á dómsins æðsta degi drekkur róninn kannski vín".

Jón Ársæll Þórðarson ræddi í þætti sínum Sjálfstætt fólk við mikinn heiðursmann sem beðið hefur lægri hlut í baráttunni við Bakkus, en enginn skyldi dæma hann fyrir það.

Bakkus gamli er nefnilega þekktur fyrir að gera engan mun á fólki, hann tekur jafnt háa sem lága í sínar ísköldu heljargreipar.

Þessi merkismaður heitir Sævar og var sjómaður áður en hann gekk til liðs við konunginn illræmda. Hann hefur marga hildina háð og missti dóttur sína unga, hún tók of stóran skammt af heróíni. Greinilega var sorg Sævars, hann flutti tregafullt lag er hann hafði samið til hinnar látnu dóttur sinnar. En hann bar harm sinn eins og sönnum karlmanni sæmir, viðurkenndi sorgina en lét hana ekki buga sig.

Einnig er hann sjálfur dauðvona vegna lungnakrabbameins, en með sönnum hetjuskap og æðruleysi, tekst hann á við hinn illvíga sjúkdóm, með þá einlægu von í hjarta að Drottinn veiti honum hvíld eftir sorglegt líf hér í þessum heimi.

Hann kvaðst ekki vilja þiggja hjálp frá hinu opinbera því hann hefur húsaskjól og telur sig þar af leiðandi í betri stöðu en margir í hans hópi.

Nöturlegt var að horfa á fólk sem forðaðist Sævar, þegar hann var að biðja um aur fyrir dreggjum dagsins. Samt var hann kurteis og bauð af sér góðan þokka. Við eigum að huga að okkar minnstu bræðrum og það er í lagi að víkja að þeim örlitlum aur, ef við erum aflögufær. Allavega skaðar ekki að gefa svona fólki örlítið brot af sínum tíma og jafnvel vinsamlegt bros.

Ekki skal ég fullyrða um hvort hann þiggi áfengi þegar hann mætir skapara sínum, en ég geri ráð fyrir að hann fái ögn blíðari móttökur heldur en margir þeir, sem telja sig yfir hann hafnir, meðan þeir dvelja í þessum heimi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband